banner
   fim 08. apríl 2021 13:30
Magnús Már Einarsson
Hallbera: Ég er oft jafnmikil steik og þessir yngri leikmenn
Icelandair
Hallbera í leik með íslenska landsliðinu.
Hallbera í leik með íslenska landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Hallbera Guðný Gísladóttir, vinstri bakvörður íslenska landsliðsins, er ánægð með að liðið hafi fengið tvo vináttuleiki við Ítalíu. Liðin eigast við á Ítalíu á laugardag og þriðjudag en um er að ræða fyrstu leikina síðan Þorsteinn Halldórsson tók við liðinu.

Hallbera segir gott að fá þessa leiki áður en undankeppni HM hefst síðar árinu.

„Mér finnst það skipta mjög miklu máli. Það er langt síðan við hittumst síðast og mikið sem gekk á. Það er rosalega gott að fá þessa leiki. Það er nýtt teymi. Þó að það sé krefjandi að ferðast á milli anda þá er mjög jákvætt að fá þessa leiki," sagði Hallbera en Þorsteinn þjálfari er byrjaður að kynna sínar hugmyndir fyrir liðinu.

„Æfingarnar hafa verið mjög flottar. Við höfum farið yfir taktína og allt svoleiðis. Ég held að það verði ekki stórkostlegar breytingar á því hvernig við munum spila en hann setur sitt mark sitt á þetta. Það er frábært að fá Ása (Ásmund Haraldsson) til baka. Það hefur verið mikið um reit og hann kemur með fjör í þetta."

Hallbera hefur verið lengi í íslenska hópnum en margir ungir leikmenn hafa komið inn í hópinn undanfarin ár.

„Þetta hefur verið mikil endurnýjun núna. Mikið af nýjum andlitum og nýjum leikmönnum. Þó að stelpurnar séu ungar þá eru þær rosalega góðar í fótbolta. Það verður áhugavert að sjá hvernig þessi hópur mun smella saman."

Áslaug Munda er framtíðin
Einn af ungu leikmönnunum er Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir úr Breiðabliki en hún er að berjast við Hallberu um sæti í liðinu.

„Mér finnst hún frábær leikmaður. Við erum svolítið svipaðir leikmenn. Hún er framtíðin í þessu liði. Við viljum báðar spila og ég tel að við getum það báðar. Ef hún spilar þá bakka ég hana 100% upp en ég vil að sjálfsögðu halda áfram að spila."

Hallbera er 34 ára gömul og elst í hópnum í dag. Er hún með sérstakt hlutverk af þeim sökum? „Ég er mikill viskubrunnur," sagði Hallbera létt í bragði. „Ég held að ég sé oft jafnmikil steik og þessir yngri leikmenn. Ég reyni að miðla reynslunni, tala og stýra. Maður reynir að stíga upp í því. Ég er ekki mikið að nota aldurinn gegn yngri leikmönnum,"

Ekki klárt markmið fyrir EM
Ísland fer í lokakeppni EM á Englandi á næsta ári. Hefur verið rætt um markmiðið fyrir þá keppni?

„Við höfum ekki farið beint í markmiðasetningu. Þessi hópur er blanda af reyndum og óreyndari leikmönnum. Þær sem hafa farið á stórmót vita að við viljum fara þangað til að gera hluti. Við förum ekki þangað bara til að vera með. Markmiðið er að slípa þennan hóp saman og hann er til alls líklegur ef við náum að gera það."
Athugasemdir
banner
banner
banner