Gomes efstur á óskalista Newcastle - Liverpool hefur einnig áhuga - Rætt um að stækka HM kvenna
banner
   mið 10. júlí 2024 11:14
Elvar Geir Magnússon
Frammistaða James minnir á 2014
James Rodriguez hefur verið geggjaður á Copa America.
James Rodriguez hefur verið geggjaður á Copa America.
Mynd: EPA
James er með eitt mark og fimm stoðsendingar á mótinu.
James er með eitt mark og fimm stoðsendingar á mótinu.
Mynd: Getty Images
Á miðnætti í kvöld mætast Kólumbía og Úrúgvæ í undanúrslitum Copa America og er beðið leiksins með mikilli eftirvæntingu. Sigurliðið mun mæta Argentínu í sjálfum úrslitaleiknum.

James Rodriguez fyrirliði Kólumbíu hefur komið að flestum mörkum allra á mótinu og segir íþróttafréttamaðurinn Ben McAleer að frammistaða hans minni á HM 2014.

„Hugsaðu aftur til heimsmeistaramótsins 2014 í Brasilíu, sérstaklega viðureign Kólumbíu og Úrúgvæ í 16-liða úrslitum. James Rodriguez stal senunni. Kólumbía vann 2-0 og skoraði hann bæði mörkin, það fyrra var valið mark mótsins og hlaut á endanum Puskás-verðlaunin," skrifar Ben McAleer í grein á Guardian.

„Þessi 32 ára gamli leikmaður er að spila eins vel á Copa America og hann náði árið 2014, þegar frammistaða hans á HM gerði það að verkum að hann var keyptur til Real Madrid og varð fjórði dýrasti fótboltamaður sögunnar."

James, sem spilar í dag fyrir Sao Paulo í Brasilíu, hefur farið á kostum á Copa America. Hann spilar á hægri vængnum í 4-3-3 leikkerfi Kólumbíu, allavega á pappírnum en hann hefur mikið frjálsræði til að hafa sem mest áhrif á leikinn.

Félagsliðaferli James hefur hrakað mikið undanfarin ár, hann fór til Al-Rayyan og Olympiakos eftir að hafa verið hjá Everton. En þegar kemur að kólumbíska landsliðinu þá sýnir hann sínar bestu hliðar.

Hann skoraði í 5-0 sigrinum gegn Panama í 8-liða úrslitum og lagði upp tvö mörk. Alls er hann með fimm stoðsendingar á mótinu.
Athugasemdir
banner