banner
   fim 13. febrúar 2020 15:21
Elvar Geir Magnússon
Þjálfari Egyptalands: Salah ræður þessu
Salah í leik með Liverpool.
Salah í leik með Liverpool.
Mynd: Getty Images
Þjálfari Ólympíuliðs Egyptalands segir að Mohamed Salah og Liverpool ráði því alfarið hvort leikmaðurinn verði með á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar.

Þjálfarinn Shawky Gharib hafði áður sagt að hann ætlaði að velja Salah en nú er aðeins öðruvísi hljóð í skrokknum.

„Þátttaka Salah ræðst af ákvörðun hans, Liverpool og Jurgen Klopp," segir Gharib.

„Við getum ekki neytt Salah til að taka þátt. Reglur FIFA skylda leikmanninn ekki til að vera með."

Umboðsmaður Salah sagði í gær að engin ákvörðun hefði verið tekin í málinu.

Egyptaland verður með á Ólympíuleikunum en þar spila leikmenn undir 23 ára aldri en heimilt er að nota þrjá eldri leikmenn.

Fótboltakeppnin á Ólympíuleikunum stendur yfir frá 22. júlí til 8. ágúst og úrslitaleikurinn verður sama dag og keppni í ensku úrvalsdeildinni á að hefjast á næsta tímabili.

Ef Salah tekur þátt í Ólympíuleikunum þá myndi hann missa af undirbúningstímabili Liverpool, líklega leiknum um Samfélagsskjöldinn og mögulega af fyrstu umferð ensku úrvaldeildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner