Zirkzee, Yoro og Branthwaite orðaðir við Man Utd - Arsenal mun framkvæma læknisfræðilegt mat á Neto
   sun 16. júní 2024 20:54
Ívan Guðjón Baldursson
EM: Bellingham tryggði sigur fyrir England
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Serbía 0 - 1 England
0-1 Jude Bellingham ('13)

England er talið eitt af sigurstranglegri liðum Evrópumótsins í ár og mætti til leiks í fyrstu umferðina í kvöld, þar sem lærisveinar Gareth Southgate mættu sterkum andstæðingum frá Serbíu.

Englendingar tóku forystuna snemma leiks þegar Jude Bellingham skallaði fyrirgjöf frá Bukayo Saka í netið, en stjörnum prýtt lið Englendinga skapaði voðalega lítið eftir það.

Viðureignin reyndist ansi bragðdauf þar sem hvorugu liði tókst að skapa sér mikið af færum.

Bæði lið fengu þó flott færi í leiknum sem rötuðu ekki í netið, þar sem Englendingar komust nær því að skora heldur en Serbar þegar Predrag Rajkovic varði meistaralega frá Harry Kane.

Serbar voru þó alltaf skeinuhættir, enda með Dusan Vlahovic og Aleksandar Mitrovic í framlínunni, en þeir komust í raun aldrei nálægt því að jafna þrátt fyrir nokkur hálffæri.

Lokatölur urðu því 1-0 fyrir Englandi en sigurinn verður að teljast nokkuð ósannfærandi þrátt fyrir góðan varnarleik.

Slóvenía og Danmörk eru einnig með í C-riðli og gerðu jafntefli sín á milli í dag.


Athugasemdir
banner
banner
banner