Var teknískur kantmaður á Íslandi, einn besti leikmaður deildarinnar og var keyptur til Viking í Noregi.
Jón Daði Böðvarsson ræddi við Fótbolta.net í dag og er þetta annar hluti af viðtalinu við kappann. Fyrsta hlutann má nálgast hér að neðan.
Í þessum öðrum hluta var framherjinn spurður út í framhaldið á ferlinum og fótboltann á Englandi. Út frá því komu svo fleiri spurningar.
Samningur hans við enska félagið Bolton er að renna út og er ljóst að hann verður ekki áfram hjá félaginu.
Langar virkilega að fara koma heim til Íslands
Hvað er það sem þig langar að gera næst á fótboltaferlinum?
„Það er spurningin. Við fjölskyldan erum búin að vera ræða þetta og okkur langar virkilega að fara koma heim til Íslands, aðallega út af börnunum okkar. Stelpan mín fer að verða sex ára bráðum og ég vil að hún fari fyrr heim í skólakerfið og íslenskt samfélag heldur en síðar.”
„En að sama skapi viljum við vera kannski örlítið í viðbót erlendis. Það styttist allavega í að við förum að flytja heim.”
Jón Daði og María Ósk Skúladóttir eignuðust á dögunum sitt annað barn, strák. Fyrir áttu þau Sunnevu sem er 5 ára.
Vill samt fyrst taka 1-2 ár í viðbót sem atvinnumaður
Þú hljómar eins og þig langi að taka eitt, kannski tvö ár, úti í viðbót. Er möguleiki á því að þú komir heim í júlí?
„Mér finnst það mjög ólíklegt, en ég loka aldrei neinum dyrum. Ég vil reyna vera erlendis í 1-2 ár til viðbótar, vonandi á góðum stað fyrir mig fótboltalega séð og fyrir fjölskylduna. Ef það kemur ekkert spennandi sem kemur upp fyrir mig eða fjölskylduna, þá er Ísland alltaf plan B. Maður veit svo sem aldrei, en mér finnst ólíklegt (að ég komi heim í sumar).”
Nokkur félög úr C-deildinni sýnt áhuga
Veistu af einhverjum áhuga á þér í dag?
„Það er smá áhugi í sömu deild, League One (ensku C-deildinni), frá nokkrum liðum. Það er ekkert opinbert samt, ætla ekki að þykjast með að það sé eitthvað massíft mikið í gangi."
„Þetta er mjög snemma í ferlinu ennþá, en það er aðeins búið að hringja í Agga (umboðsmann) af og til, búið að spyrjast fyrir hver staðan á mér er. Ég tek mér aðeins tíma í að anda og síðan skoðar maður hvað maður fær.”
Breytti um stöðu eftir að hann varð atvinnumaður
Jón Daði hefur spilað erlendis sem atvinnumaður í Noregi, Þýskalandi og á Englandi. Hentar enski boltinn þér best?
„Já, ég myndi segja það. Ég man alltaf eftir fyrsta árinu mínu í Wolves, tók mig smá tíma að ná takti við getustigi. Það var svo gífurlega mikill hraði í þessu öllu saman. Þegar ég var búinn að koma mér inn í þetta þá fann ég mig pluma mig virkilega í þessu umhverfi. Enski boltinn hefur hentað mér."
„Þegar ég kem til Wolves var ég tiltölulega nýorðinn framherji þegar ég kem til Englands. Ég var alltaf kantmaður, fann alveg að ég þurfti að læra aðeins á stöðuna, finna þetta markanef og annað. Á meðan maður var kantmaður þá var nóg að eiga flotta sendingu, þá voru allir sáttir."
„Maður þurfti að bæta sig á ákveðnum sviðum og Englendingurinn hjálpaði mjög mikið hvað það varðar, þróaði leik minn aðeins meira. Ég breytti mér aðeins meira í það sem ég er í dag, meiri ‘target’ framherji úr kantmanninum sem ég var. Ég er mjög þakklátur að hafa gert það því það kannski skapaði ferilinn sem ég hef átt.”
Hafði engu að tapa og henti Jóni Daða fram
Á hvaða tímapunkti verður þú framherji?
„Ég kem til Noregs, er kantmaður þar fyrstu tvö tímabilin. Á miðju öðru tímabilinu kem ég inn á gegn Rosenborg. Þjálfarinn þá er Svíinn Kjell Jonevret og hann hafði engu að tapa, við vorum 2-0 undir og henti mér bara fram."
„Á einhvern ótrúlegan hátt næ ég að skora tvö mörk í þeim leik, jöfnum í Lerkendal (heimavelli Rosenborg) og allt í einu er ég einhver hetja, náði að bjarga stiginu á síðustu mínútunum. Kjell átti samtal við mig eftir leikinn og sagði einfaldlega við mig að hann ætlaði að prófa mig frammi.”
„Síðan prófum við það, það gekk mjög vel og þannig var það. Eftir einn leik var ég orðinn framherji.”
„Ég kom frá Selfossi, með fullri virðingu fyrir íslensku deildinni, þá var getustigið ekkert í hæstu hæðum. Ég kannski hélt að ég væri einhver kall eftir að hafa staðið mig vel þar sem teknískur kantmaður. Ég kem til Noregs og finn virkilega fyrir því að ég er alls ekki neitt, fyrsta árið var ég varla að komast á bekkinn hjá Viking og spilaði með varaliðinu.”
„Ég þurfti virkilega að vinna fyrir þessum hlutum og að koma sér úr því að vera kantmaður í að vera framherji var örugglega besta ákvörðun sem ég hef tekið á ferlinum,” sagði Jón Daði að lokum.
Á ferlinum hefur hann spilað með Selfossi, Viking, Kaiserslautern, Wolves, Reading, Millwall og Bolton.
Jón daði á að baki 64 landsleiki fyrir Ísland og ræðir um landsliðið í lokahluta viðtalsins sem birtist síðar í dag.
Athugasemdir