Óhætt er að segja að Manchester City og Real Madrid séu í góðum málum í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu eftir leiki kvöldsins í keppninni.
Borussia Mönchengladbach er í áttunda sæti þýsku úrvalsdeildarinnar á meðan Man City hefur unnið 18 leiki í röð í öllum keppnum. Þetta var aldre að fara að vera auðvelt verkefni fyrir Gladbach og þeir áttu í raun ekki möguleika í kvöld gegn Man City-liði sem hefur verið óstöðvandi síðustu vikur.
Bernardo Silva kom Man City yfir á 29. mínútu eftir flotta fyrirgjöf frá Joao Cancelo. Staðan var 0-1 í hálfleik en City stjórnaði ferðinni algjörlega og átti þýska liðið ekki skottilraun í fyrri hálfleiknum.
Eftir 20 mínútur í seinni hálfleiknum skoraði Gabriel Jesus annað mark City og þar við sat.
Gladbach fékk ágætis tækifæri til að minnka muninn undir lokin en Ederson varði nokkuð vel. Lokatölur 0-2 og Manchester City er í frábærum málum fyrir seinni leikinn í næsta mánuði. Leikurinn í kvöld var spilaður í Búdapest, ekki í Þýskalandi út af ströngum reglum í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.
Mendy tryggði vængbrotnum Madrídingum sigur
Real Madrid er í miklum meiðslavandræðum og mætti með vængbrotið lið til Bergamo í kvöld. Varamannabekkurinn var í raun bara skipaður leikmönnum úr unglinga- og varaliði félagsins.
Það voru hins vegar Madrídingar sem tóku sigurinn í þessum leik og hjálpaði það klárlega fyrir þá að Atalanta missti Remo Freuler af velli með beint rautt spjald á 17. mínútu fyrir að taka Ferland Mendy niður er Frakkinn var að sleppa í gegn.
Real tókst ekki að finna margar opnanir þrátt fyrir að vera manni fleiri frá 17. mínútu. Þeir stjórnuðu auðvitað ferðinni í leiknum og tókst þeim loksins að brjóta ísinn á 86. mínútu. Ferland Mendy skoraði þá mark með hægri fæti af löngu færi.
Það reyndist sigurmarkið í leiknum og er spænska félagið því með 0-1 forystu fyrir seinni leikinn.
Borussia M. 0 - 2 Manchester City
0-1 Bernardo Silva ('29 )
0-2 Gabriel Jesus ('65 )
Atalanta 0 - 1 Real Madrid
0-1 Ferland Mendy ('86 )
Rautt spjald: Remo Freuler, Atalanta ('17)
Athugasemdir