Liverpool reynir við Pedro næsta sumar - PSG til í að opna veskið fyrir Isak - Nico Williams eftirsóttur
   mán 26. júní 2023 15:01
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Malmö kemur í veg fyrir að Daníel Tristan spili með Íslandi á EM
Daníel Tristan Guðjohnsen.
Daníel Tristan Guðjohnsen.
Mynd: Malmö
Hilmir Rafn Mikaelsson.
Hilmir Rafn Mikaelsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Tvær breytingar hafa verið gerðar á U19 landsliðshópi Íslands fyrir Evrópumótið í Möltu sem hefst í byrjun næsta mánaðar.

Daníel Tristan Guðjohnsen, leikmaður Malmö í Svíþjóð, og Hilmir Rafn Mikaelsson, leikmaður Tromsö í Noregi, detta út úr hópnum sem var valinn á dögunum.

Galdur Guðmundsson, leikmaður FC Kaupmannahafnar, og Benóný Breki Andrésson, leikmaður KR, koma inn í staðinn fyrir þá.

Hilmir Rafn er meiddur og getur því ekki verið með, en Malmö tók þá ákvörðun seint að leyfa Daníel ekki að fara með á mótið.

Það er ekki landsleikjagluggi þegar U19 keppnin fer fram og því geta félagslið bannað leikmönnum sínum að spila fyrir þjóð sína á mótinu. Kristian Nökkvi Hlynsson og Orri Steinn Óskarsson, tvær stærstu stjörnur liðsins, fengu ekki leyfi frá félagsliðum sínum til að fara með íslenska liðinu til Möltu.

Núna hefur Malmö bannað Daníel að fara á mótið samkvæmt upplýsingum Fótbolta.net. Hann er byrjaður að spila með aðalliðinu hjá sænska stórliðinu þrátt fyrir að vera aðeins 17 ára gamall.

Það eru meiðsli hjá félaginu og er staðan breytt hvað varðar það að Daníel er orðinn nauðsynlegur hluti af aðalliðshópnum.

Daníel er uppalinn á Spáni og spilaði með unglingaliði Barcelona áður en hann færði sig yfir til Real Madrid fyrir fjórum árum. Hann þykir gríðarlega efnilegur og stóð hann sig vel í akademíunni hjá Madrídarstórveldinu. Daníel Tristan er yngsti sonur Eiðs Smára Guðjohnsen og Ragnhildar Sveinsdóttur, en hann er fæddur árið 2006.

Hann hefur núna verið að vekja athygli hjá unglingaliðum Malmö, sem er sigursælasta félagið í Svíþjóð, og er búinn að fá að spreyta sig með aðalliðinu.

U19 liðið hefur leik á mótinu þann 4. júlí gegn Spáni, en okkar drengir eru einnig í riðli með Noregi og Grikklandi.

Hópurinn
Markverðir:
Ásgeir Orri Magnússon, Keflavík
Lúkas J. Blöndal Petersson, Hoffenheim
Halldór Snær Georgsson, Fjölnir

Útileikmenn:
Ágúst Orri Þorsteinsson, Breiðablik
Daníel Freyr Kristjánsson, FC Midtjylland
Galdur Guðmundsson, FC Kaupmannahöfn
Logi Hrafn Róbertsson, FH
Arnar Daníel Aðalsteinsson, Grótta
Arnar Númi Gíslason, Grótta
Haukur Andri Haraldsson, ÍA
Benóný Breki Andrésson, KR
Jóhannes Kristinn Bjarnason, KR
Þorsteinn Aron Antonsson, Selfoss
Adolf Daði Birgisson, Stjarnan
Eggert Aron Guðmundsson, Stjarnan
Guðmundur Baldvin Nökkvason, Stjarnan
Róbert Frosti Þorkelsson, Stjarnan
Sigurbergur Áki Jörundsson, Stjarnan
Hlynur Freyr Karlsson, Valur
Gísli Gottskálk Þórðarson, Víkingur R.
Bjarni Guðjón Brynjólfsson, Þór Ak.


Athugasemdir
banner