Logi Tómasson átti einn sinn besta leik í treyju Strömsgodset sem vann Rosenborg, 3-1, í næst síðustu umferð norsku úrvalsdeildarinnar í dag.
Víkingurinn kom til Strömsgodset í sumar eftir að hafa spilað vel með Víkingum síðustu ár.
Fyrir leikinn í dag hafði hann átt eina stoðsendingu í norsku úrvalsdeildinni og svo kom fyrsta markið gegn Rosenborg.
Logi átti stóran þátt í öðru marki Strömsgodset og gerði síðan þriðja mark liðsins með glæsilegu utanfótarskoti undir lok leiksins.
Logi og Ari Leifsson spiluðu allan leikinn fyrir Strömsgodset á meðan Ísak Snær Þorvaldsson byrjaði hjá Rosenborg, en fór af velli hálftíma fyrir leikslok. Strömsgodset er í 8. sæti með 39 stig, þremur stigum meira en Rosenborg.
Patrik Sigurður Gunnarsson stóð á milli stanganna hjá Viking sem vann öruggan 4-0 sigur á Álasundi. Viking er í 4. sæti deildarinnar með 48 stig fyrir lokaumferðina.
Brynjar Ingi Bjarnason var í vörn Ham/Kam sem tapaði fyrir Vålerenga, 2-0. Viðar Ari Jónsson var ekki með Ham/Kam í dag, en liðið er í ellefta sæti og búið að bjarga sér frá falli.
Verðandi lærisveinar Óskars Hrafns Þorvaldssonar í Haugesund eru ekki hólpnir enn. Liðið tapaði fyrir Tromsö, 2-1. Liðið er í 12. sæti með 39 stig, tveimur stigum frá fallsæti fyrir lokaumferðina.
Jón Dagur spilaði í tapi
Jón Dagur Þorsteinsson var í byrjunarliði Leuven sem tapaði fyrir Club Brugge,1-0, í belgísku úrvalsdeildinni. Landsliðsmaðurinn spilaði allan leikinn fyrir Leuven sem er í 14. sæti deildarinnar með 12 stig.
Willum Þór Willumsson lék þá allan leikinn er Go Ahead Eagles gerði 1-1 jafntefli við NEC Nijmegen í hollensku úrvalsdeildinni. Eagles eru í 5. sæti með 22 stig.
Athugasemdir