Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mið 27. maí 2020 11:01
Magnús Már Einarsson
Formaður FH: Erum með besta byrjunarlið landsins
Ekki formlegar viðræður í gangi við Matta Villa
Valdimar Svavarsson.
Valdimar Svavarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Valdimar Svavarsson, formaður knattspyrnudeildar FH, segir að félagið vilji ennþá bæta við leikmannahópinn áður en kemur að leiknum við HK í 1. umferð Pepsi Max-deildarinnar þann 14. júní.

Pétur Viðarsson tók skóna af hillunni í gær og verður með FH í sumar en félagið vonast til að ná að bæta meira við.

„Við teljum að við séum komnir með gott lið en við viljum búa til örlitla breidd í nokkrum stöðum því að við erum lið sem ætlar að keppa um titla," sagði Valdimar við Fótbolta.net í dag.

„Við viljum hafa ákveðin gæði og það þarf að vera samkeppni um stöðurnar í félaginu. Að mínu mati erum við með besta byrjunarliðið á landinu. Við þurfum smá breidd í viðbót, þegar og ef einhver forfallast í 1-2 í leiki, þá vildum við hafa liðið ennþá sterkara. Á þessum tímapunkti erum við ekki með neitt í hendi og erum að vinna í málum, sjá hvað er í boði og hverju er hægt að ná saman."

„Við erum ekkert að þykjast og grínast með að við höfum verið að taka á okkar fjármálum og þar af leiðandi erum við ekki með fulla vasa af fé. Við erum með duglegt fólk með okkur og höfum tekið heilmikið til hjá okkur og erum að reyna að gera eins mikið og hægt er."

„Það er góður andi í liðinu og góð umgjörð. Við fengum til liðs við okkur frábæran hóp í meistaraflokksráð til að geta beitt meiri kröftum og gert hluti. Við höfum alltaf reynt að vinna hlutina faglega. Við erum ekki bara að horfa á þetta mót heldur næstu mót líka."


Emil Hallfreðsson æfir með þessa dagana en samningur hans hjá Padova rennur út í lok júní. Emil hefur verið orðaður við FH undanfarið sem og Hörður Ingi Gunnarsson, bakvörður ÍA.

Matthías Vilhjálmsson, leikmaður Valerenga og fyrrum leikmaður FH, hefur einnig verið orðaður við endurkomu í Hafnarfjörðinn en Valdimar segir ekkert til í þeim sögusögnum í augnablikinu.

„Við erum félag sem ætlum okkur stóra hluti og erum að skoða ýmsa möguleika en það er ekki hægt að staðfesta að Matti sé formlega á einhverju blaði. Matti er flottur en það er ekkert formlegt í gangi eins og er," sagði Valdimar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner