Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   þri 12. ágúst 2014 07:00
Elvar Geir Magnússon
Spáin fyrir enska - 16. sæti: Aston Villa
Lokastaða síðast: 15. sæti
Enski upphitun
Fabian Delph er mikilvægur fyrir Villa.
Fabian Delph er mikilvægur fyrir Villa.
Mynd: Getty Images
Staða Paul Lambert er ótrygg.
Staða Paul Lambert er ótrygg.
Mynd: Getty Images
Christian Benteke.
Christian Benteke.
Mynd: Getty Images
Agbonlahor er á sínum stað.
Agbonlahor er á sínum stað.
Mynd: Getty Images
Við kynnum liðin í ensku úrvalsdeildinni í samvinnu við Stöð 2 Sport 2 eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Aston Villa er spáð 16. sætinu eða á svipuðu róli og liðið endaði síðast.

Um liðið: Aston Villa stóð alls ekki undir væntingum stuðningsmanna á síðasta tímabili og pressan á Villa Park er mikil. Í fyrstu tíu leikjum tímabilsins mun Aston Villa mæta sex efstu liðum síðasta tímabils. Paul Lambert, stjóri liðsins, hefur ekki haft úr miklu fjármagni að vinna og það hefur þurft að vanda til verka í styrkingum.

Stjórinn: Paul Lambert
„Þú veist ekki hvað þú ert að gera," og „Þú verður rekinn á morgun!" er meðal þess sem stuðningsmenn Villa kölluðu á Paul Lambert eftir 3-0 tap á White Hart Lane í lokaumferð síðasta tímabils. Ótrúlegt en satt þá er Lambert enn að störfum en ástæða þess er óvissa í stjórn félagsins. Eigandinn Randy Lerner hefur enn ekki náð að selja það.

Styrkleikar: Eiga auðvelt með að gíra sig upp gegn sterkum andstæðingum. Árangurinn gegn efstu liðunum var betri heldur en gegn öllum í neðri helmingnum. Liðið vann Arsenal, Manchester City og Chelsea og náði auk þess stigi gegn Liverpool á Anfield.

Veikleikar: Árangurinn á heimavelli síðustu ár hefur verið til skammar. Aston Villa hefur aðeins unnið 15 leiki á heimavelli síðan tímabilið 2011-12 hófst. Ekkert lið sem hefur haldið sér í deildinni hefur unnið eins fáa heimaleiki.

Talan: 78
Gul spjöld sem Aston Villa fékk síðasta tímabil. Fleiri en nokkuð annað lið í deildinni.

Lærdómur frá síðustu leiktíð: Fleiri leikmenn þurfa að stíga upp og skora. Aðeins tíu leikmenn komust á blað og of mikil ábyrgð var sett á Christian Benteke en fleiri verða að stíga upp.

Verður að gera betur: Það verður mikil pressa á Lambert og hann þarf að sýna það gegn liðunum á svipuðu róli að hann hafi taktíska þekkingu til að toga liðið upp töfluna. Roy Keane er orðinn aðstoðarmaður hans og það kæmi ekki á óvart að sjá Írann taka við liðinu fyrir jól, eða hvað?

Lykilmaður: Fabian Delph
Snjall leikmaður sem valinn var leikmaður ársins af stuðningsmönnum á síðasta tímabili. Ef hann heldur uppteknum hætti gæti þessi 24 ára miðjumaður, sem var á sínum tíma hjá Leeds, farið að banka á dyrnar hjá enska landsliðinu.

Komnir:
Aly Cissokho frá Valencia
Joe Cole frá West Ham United
Kieran Richardson frá Fulham
Philippe Senderos frá Valencia

Farnir:
Marc Albrighton til Leicester City
Nathan Delfouneso samningslaus
Gary Gardner til Sheffield Wednesday á láni
Nicklas Helenius til Álaborgar á láni
Antonio Luna til Verona á láni
Yacouba Sylla til Erciyesspor á láni

Þrír fyrstu leikir: Stoke (ú), Newcastle (h) og Hull (h)

Þeir sem spáðu: Arnar Daði Arnarsson, Aron Elvar Finnsson, Elvar Geir Magnússon, Eyþór Ernir Oddsson, Gunnar Karl Haraldsson, Jóhann Ingi Hafþórsson, Kristján Blær, Magnús Valur Böðvarsson, Magnús Már Einarsson, Magnús Þór Jónsson, Þórir Karlsson.

Stigagjöfin er reiknuð út frá þeirri formúlu sem gefin var upp þegar spáð var. Hún tengist á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.


Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10.?
11 ?
12. ?
13. ?
14. ?
15. ?
16. Aston Villa 67 stig
17. QPR 48 stig
18. West Brom 42 stig
19. Leicester 36 stig
20. Burnley 12 stig
Athugasemdir
banner
banner