Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   mán 18. september 2017 12:27
Elvar Geir Magnússon
Túfa: Algjört bull að hann sé viljandi að reyna að meiða menn
Aleksander Trninic er mikið í umræðunni núna.
Aleksander Trninic er mikið í umræðunni núna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Túfa, þjálfari KA.
Túfa, þjálfari KA.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA, segir ásakanir sérfræðinga Pepsi-markanna um að miðjumaðurinn Aleksandar Trninic væri vísvitandi að reyna að meiða andstæðinga vera bull.

Sjá einnig:
Miðjumaður KA sagður reyna að eyðileggja feril leikmanna

„Þetta er maður sem spilar hart og gerir allt fyrir liðið og liðsfélaga sína. Í leiknum í gær voru tæklingarnar fastar en hann lærir af þessu. Það eru öðruvísi reglur en í Serbíu en hérna og hann er kannski enn að venjast," segir Túfa.

„Hann hefur verið mikilvægur fyrir okkur og spilað rosalega vel. Ég hef rætt við hann, hann mun laga litla hluti og þetta verður í góðum málum."

Svipmyndirnar í Pepsi-mörkunum litu hreint ekki vel út og mátti sjá nokkrar ansi ljótar tæklingar frá Trninic.

„Það eru aðrir leikmenn sem spila þessa stöðu í deildinni sem eru með svipaðar tæklingar. Var ekki Roy Keane að gera þetta fyrir United í 20 ár? Liðið vann allt með Ferguson. Trninic er mikill keppnismaður og þetta var alls ekki viljaverk hjá honum að reyna að meiða leikmenn. Þetta er leikmaður sem er til í að deyja fyrir liðið og stundum fer hann kannski yfir línuna. Ég veit sjálfur að hannn er að vinna í að minnka þetta, hann er líka kominn á þann aldur að hann þarf að passa sig til að spila lengur."

Í Pepsi-mörkunum var því velt upp hvort Trninic væri viljandi að reyna að meiða andstæðinga en Túfa getur ekki tekið undir þau orð.

„Alls ekki. Það er algjört bull að hann reyni að fótbrjóta menn. Þessar týpur af leikmönnum fara í svipaðar tæklingar. Hann er búinn að spila fast í allt sumar og menn fara líka fast í hann. Það má ekki gleyma því. Það sást líka í þessum klippum," segir Túfa.

Hann er þó ekki ósáttur við umræðuna í Pepsi-mörkunum. „Menn eru í þessari vinnu til að gagnrýna eða hrósa. Trninic skilur allt eftir á vellinum," segir Túfa.

En óttast hann að dómarar muni í kjölfar þessarar umræðu vera fljótari að lyfta upp spjöldum þegar Trninic er í baráttunni?

„Það er mikil umfjöllun um svona hluti, það er mikið talað um mistök sem leikmenn eða dómarar gera á vellinum. Trninic sér eftir hlutum sem hann hefur gert. Þetta er bara fótbolti. Menn eru stundum heitir, sumir nota tæklingar eins og hann og aðrir nota kannski ljót orð sem er oft verra að mínu mati. Svona er bara fótboltinn."

„Þú getur tekið fullt af atriðum yfir sumarið hjá öðrum leikmönnum þar sem voru grófar tæklingar sem ekki var refsað fyrir með spjöldum. Gegn Fjölni í byrjun móts fékk vinstri bakvörðurinn okkar rosalega tæklingu og var frá í mánuð. Það var ekki einu sinni dæmt brot. Ég fór ekki í viðtöl og vældi yfir því. Þetta er bara hluti af fótboltanum," segir Túfa.
Athugasemdir
banner
banner