Bayern reynir aftur við Walker - Neves til Man Utd?
banner
   sun 07. apríl 2019 17:38
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Enski bikarinn: Watford í úrslit eftir ótrúlega endurkomu
Deulofeu kom af bekknum og skaut Watford í úrslit
Deulofeu kom af bekknum og skaut Watford í úrslit
Mynd: Getty Images
Jimenez setti grímu á sig þegar hann fagnaði marki sínu. Hann er mikill áhugamaður um WWE og í dag er stór dagur í þeim heimi
Jimenez setti grímu á sig þegar hann fagnaði marki sínu. Hann er mikill áhugamaður um WWE og í dag er stór dagur í þeim heimi
Mynd: Getty Images
Watford 3 - 2 Wolves
0-1 Matthew Doherty ('36 )
0-2 Raul Jimenez ('62 )
1-2 Gerard Deulofeu ('79 )
2-2 Troy Deeney (90, víti)
3-2 Gerard Deulofeu ('104)

Það verður Watford sem mætir Manchester City í úrslitum enska bikarsins þetta árið. Wolves og Watford áttust við á Wembley í dag.

Fyrri hálfleikurinn var í járnum þegar Matt Doherty skoraði fyrsta markið. Stuðningsmenn Wolves ærðust þegar Doherty skoraði. Eftir vel útfærða hornspyrnu skoraði Doherty með skalla og Wolves fór inn í leikhléið með 1-0 forystu.

Þetta var hörkuleikur, en á 62. mínútu skoraði Raul Jimenez annað mark Úlfanna. Jimenez fékk sendingu frá Doherty og kláraði frábærlega.

Wolves er nýbúið að kaupa Jimenez frá Benfica fyrir 30 milljónir punda. Hann hefur verið á láni hjá liðinu á tímabilinu og staðið sig vel. Hann er dýrasti leikmaður Wolves frá upphafi.

Varamaðurinn Gerard Deulofeu minnkaði muninn fyrir Watford með glæsilegu skoti þegar um 10 mínútur voru eftir. Watford gafst ekki upp og jafnaði Troy Deeney úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

Leander Dendoncker braut af sér klauflega og Michael Oliver benti á punktinn. Deeney steig á punktinn og skoraði af öryggi, hann þrumaði knettinum á mitt markið og kreisti þannig fram framlengingu.

Menn voru þreyttir eftir venjulegan leiktíma en Deulofeu var enn ferskur og skoraði þriðja mark Watford á 104. mínútu. Spánverjinn haltraði svo af velli í síðari hálfleik, eftir að hafa spilað tæpar 50 mínútur í heildina og skorað tvö mörk.

Úlfarnir reyndu að koma til baka í síðari hálfleik en það tókst ekki og er Watford búið að tryggja sér úrslitaleik gegn Manchester City. Ótrúlegur sigur hjá liði sem var 2-0 undir þegar aðeins 11 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Þetta er í annað sinn í sögunni sem Watford kemst í úrslitaleik enska bikarsins.




Athugasemdir
banner
banner
banner
banner