sun 28.apr 2024 10:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
Spá þjálfara og fyrirliða fyrir Lengjudeildina: 5. sæti
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Grindavík endar í fimmta sæti ef spáin rætist og eru þannig síðasta liðið inn í umspilið.
Hassan Jalloh er á meðal þeirra sem hafa bæst í leikmannahópinn.
Mynd/Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. Grindavík, 154 stig
6. Fjölnir, 146 stig
7. Leiknir R., 143 stig
8. Þróttur R., 87 stig
9. Grótta, 83 stig
10. Njarðvík, 68 stig
11. ÍR, 66 stig
12. Dalvík/Reynir, 23 stig
5. Grindavík
Eins og allir vita þá hefur gengið mikið á í Grindavík frá því síðasta tímabili lauk. Þessar ömurlegu jarðhræringar hafa sett líf Grindvíkinga á hliðina og íþróttastarf í bænum hefur flækst verulega. En Grindavík mætir samt sem áður með lið til keppni í bæði Lengjudeild karla- og kvenna í sumar. Eins og síðustu ár, þá er lagt ansi mikið í meistaraflokk karla hjá Grindavík í sumar og stefnan er sett á að gera hlutina af miklum krafti þrátt fyrir erfiðleikana í bæjarfélaginu. Samfélagið í Grindavík fær tækifæri til að koma saman á fótboltavellinum í sumar og gæti myndast einstök stemning í kringum liðin.
Þjálfarinn: Brynjar Björn Gunnarsson tók við Grindavík á miðju sumri í fyrra eftir að Helgi Sigurðsson var rekinn. Brynjar Björn er með reynslu í því að stýra liði upp úr Lengjudeildinni en hann kom HK upp úr henni árið 2018. Brynjar er fyrrum landsliðsmaður og atvinnumaður, lék meðal annars með Reading í ensku úrvalsdeildinni um gott skeið. Hann hefur einnig þjálfað erlendis en hann stýrði Örgryte í Svíþjóð árið 2022.
Baldvin Már Borgarsson, þjálfari Árbæjar, er sérfræðingur Fótbolta.net fyrir Lengjudeildina. Hann fer yfir liðin; þeirra styrkleika, veikleika og fleira. Í fyrra var hann aðstoðarþjálfari Ægis í Lengjudeildinni og þekkir hann því hana býsna vel.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Baldvin Már Borgarsson.
Styrkleikar: Maður finnur einhverskonar samhug í kringum allt sem tengist Grindavík. Það er verið að tjalda öllu til og búið að smala saman alvöru leikmannahóp á Stakkavíkurvöll-Safamýri.
Veikleikar: Nú virkar kannski eins og ég sé að tala í hringi en mér finnst það veikleiki að spila ekki á sínum hefðbundna heimavelli í sínum heimabæ. Þrátt fyrir að ég reikni með góðri stemningu og miklum samhug í kringum liðið þá er það samt ekki eins að spila á sínum eigin heimavelli eða við nýjar og allt öðruvísi aðstæður. Mér finnst líka alltaf áhætta að hrúga inn mikið af erlendum mönnum með ólíkan uppruna frá mismunandi menningarheimum. Það þarf oft minna mótlæti til að brjóta slíkar samsetningar af hópum og setja allt í skrúfuna.
Lykilmenn:
Aron Dagur Birnuson - Einn besti markmaður deildarinnar þegar hann er með einbeitinguna í lagi. Það er algjör lykill fyrir Grindavík að hann verði upp á sitt besta til þess að ná tilsettum markmiðum.
Sigurjón Rúnarsson - Sigurjón ætlaði sér að yfirgefa Grindavík og taka skrefið upp í Bestu deildina. Persónulega þætti mér það eðlilegt skref fyrir hann og skil ekki af hverju það gekk ekki upp, en það er guðs gjöf fyrir Grindvíkinga að hann verði áfram.
Einar Karl Ingvarsson - Þarf ekkert að eyða mörgum orðum um það hversu góður hann er í fótbolta; stórkostlegur vinstri fótur og mun vera algjör umferðarstjóri á Stakkavíkurvellinum í sumar.
Fylgist með: Hrannar Ingi Magnússon, 19 ára kraftmikill og skemmtilegur bakvörður á láni frá Víkingum. Gæti fengið stórt hlutverk hjá Grindavík í sumar.
Komnir:
Kwame Quee frá Sierra Leóne
Hassan Jalloh frá HK
Ion Perello frá Fram
Dennis Nieblas frá Kýpur
Adam Árni Róbertsson frá Þrótti V.
Nuno Malheiro frá Portúgal
Eric Vales frá Slóveníu
Hrannar Ingi Magnússon frá Víkingi (á láni)
Josip Krznaric frá Slóveníu
Matevz Turkus frá Slóveníu
Mathias Munch Larsen frá Danmörku
Kristófer Leví Sigtryggsson frá Gróttu (var á láni hjá KFG)
Farnir:
Dagur Austmann Hilmarsson í Fjölni
Edi Horvat til Slóveníu
Freyr Jónsson í Dalvík/Reyni
Guðjón Pétur Lýðsson í Hauka
Marko Vardic í ÍA
Óskar Örn Hauksson í Víking R.
Viktor Guðberg Hauksson í Reyni á láni
Ólafur Flóki Stephensen í Val (var á láni)
Tómas Orri Róbertsson í Breiðablik (var á láni)
Alexander Veigar Þórarinsson í ÍH
Dómur Badda fyrir gluggann: 7
Þessi er tricky, 10 leikmenn burt og 12 leikmenn inn… missa Marko Vardic, Óskar Örn og Dag Austmann sem eru högg, fá samt inn Kwame Quee, Hassan Jalloh, Ion, Adam Árna og svo minna þekkta erlenda leikmenn, sem mér skilst að séu sumir virkilega góðir en 2-3 ekkert stórkostlegir. Ég gef Grindjánum plús í kladdann.
Fyrstu þrír leikir Grindavíkur:
1. maí, Grindavík - Fjölnir (Víkingsvöllur)
10. maí, ÍR - Grindavík (ÍR-völlur)
18. maí, Grindavík - Grótta (Stakkavíkurvöllur-Safamýri)
Í besta og versta falli að mati Badda: Í besta falli vinna þeir deildina og í versta falli missa þeir af umspilinu með því að enda í sjötta sæti.