Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 08. apríl 2019 14:32
Arnar Daði Arnarsson
Lögfræðingur KSÍ: Hægt að afturkalla leyfi til þátttöku
Haukur Hinriksson, lögfræðingur KSÍ.
Haukur Hinriksson, lögfræðingur KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Castillion í baráttunni með Víkingi síðasta sumar.
Castillion í baráttunni með Víkingi síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haukur Hinriksson lögfræðingur KSÍ staðfesti í samtali við Fótbolta.net nú rétt í þessu að Víkingur væru búnir að senda frá sér gögn í máli félagsins og Geoffrey Castillion.

Þau gögn hafi verið staðfest að hálfu KSÍ. Víkingur R. og sóknarmaðurinn, Geoffrey Castillion sem lék bæði með FH og Víkingi síðasta sumar hafa þar með náð samkomulagi um vangoldin laun.

Á laugardaginn birtum við viðtal við Castillion þar sem hann sagði meðal annars að Víkingur skuldaði sér pening.

Í hádeginu á sunnudaginn var síðan birt frétt þar sem Haraldur Haraldsson framkvæmdastjóri Víkings segir að félagið hafi ekki heyrt í Castillion síðan í janúar.

Félögin þurfa að skila inn gögnum fyrir 31. mars
Í reglugerðum KSÍ þurfa félög í Pepsi Max-deildinni að skila inn gögnum fyrir lok mars um að allar skuldir frá árinu áður séu greiddar.

„Félögin þurfa að skila inn gögnum fyrir lok síðustu mánaðarmóta og þeir hafa að ég veit verið að reyna ná í Castillion," sagði lögfræðingur KSÍ, Haukur Hinriksson. Greinilegt er að starfsmenn Víkings hafi náð loks á Castillion í morgun.

„Í leyfisreglugerðinni er gert ráð fyrir því að félögin geti sýnt fram á það að þau séu ekki í vanskilum við neina af sínum starfsmönnum fyrir 31. mars ár hvert vegna ársins á undan."

Haukur segir að öll félög fyrir utan Víking hafi farið í gegnum leyfiskerfið fyrir tímabilið sem framundan er. Víkingur hafi farið í gegn með fyrirvara um að þeir myndu klára þetta mál fyrir tilsettan tíma.

„Til þess að félögin teljist ekki vera í vanskilum þarf það að annað hvort að vera búið að skila inn skuldleysisyfirlýsingu frá viðkomandi starfsmanni eða leikmanni. Þá geta félögin einnig sýnt fram á það að þau hafi greitt starfsmanninum með einum eða öðrum hætti með til dæmis greiðslu yfirliti sem sýnir fram á það að greiðslur hafi verið greiddar eða ef um er að ræða ágreining á milli félagsins og starfsmanns þá þarf vísa þeim ágreiningi inn í nefnd hjá okkur sem gerist stundum," sagði Haukur.

Hefur sjálfur ekki náð í Castillion
Hann veit til þess að yfirmenn hjá Víkingi voru búnir að vera reyna ná í Castillion án árangurs. Sjálfur hafði Haukur einnig reynt að ná í Castillion.

„Svo getur líka verið að það sé erfitt að ná í viðkomandi einstakling. Viðkomandi félag þarf að hafa á sannfærandi hátt sýnt leyfisráði KSÍ að félagið hafi gert sitt besta til að finna og greiða þeim starfsmönnum/leikmönnum sem eiga kröfu. Ég hef í sumum tilvikum sannreynt það sjálfur. Hins vegar þurfa félögin, sem fá gefin út leyfi með fyrirvara um gagnaskil 31. mars, að vera búin að ganga frá slíkum lausum endum á þann hátt að hægt sé að vera búið að binda um þá í síðasta lagi 31. mars ár hvert. Hvort sem það er með skuldleysisyfirlýsingu frá viðkomandi leikmanni, greiðslusamkomulagi, greiðsluyfirliti eða málinu sé vísað formlega í viðeigandi farveg hjá KSÍ," sagði Haukur sem getur staðfest það sem Haraldur Haraldsson framkvæmdastjóri Víkings sagði í viðtali við Fótbolta.net í gær.

„Það passar alveg. Á meðan Víkingur gat sýnt fram á það að þeir náðu ekki í Castillon þá var lítið hægt að gera. Engu að síður bar þeim að vera búið að græja þetta fyrir síðustu mánaðarmót."

En hverjar gætu afleiðingarnar verið fyrir þau félög sem ekki standa við launagreiðslur?

„Í verstu tilfellum þá er hægt að afturkalla leyfið til að taka þátt í deildinni. Það er algjörlega leyfisráðsins og aga- og úrskurðarnefndar að ákveða og meta það hverju sinni. Ég vonast til að það komi aldrei til þess að það þurfi að afturkalla leyfi." sagði Haukur að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner