Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   lau 03. desember 2005 06:12
Hafliði Breiðfjörð
Viðtal við Birki Bjarnason leikmann Viking í Noregi
Birkir á æfingu með Viking
Birkir á æfingu með Viking
Mynd: www.viking-fk.no
Það kom mörgum á óvart í vikunni þegar fréttir bárust af því að 17 ára íslenskur drengur, Birkir Bjarnason, hafi spilað með norska liðnu Viking frá Stavanger gegn CSKA Sofia frá Búlgaríu í UEFA Cup í vikunni enda margir sem vissu ekki einu sinni af því að Birkir væri á mála hjá félaginu.

Þetta var fyrsti leikur Birkis með aðalliði Viking en hann gekk í raðir félagsins fyrir ári síðan eftir að hafa verið hjá þriðju deildarliði Figgjo fram að því. Hann hefur verið búsettur í Noregi frá ellefu ára aldri.

Við settum okkur í samband við Birki og ræddum við hann um þetta. Birkir sagði aðspurður að það hafi ekki komið sér á óvart að vera valinn í hópinn fyrir þennan leik.

„Nei í raun ekki, ég var með í leiknum á undan gegn Slavia Prag en kom ekki inná þá," sagði Birkir en þetta var fyrsti leikurinn sem hann kemur inná fyrir Viking.

„Þjálfarinn hafði sagt að ég gæti komið inná. Hann gæti þurft að nota mig," bætti hann við en Birkir var tekinn upp í meistaraflokk Viking í ágúst.

„Mér gekk vel fannst mér. Þetta var bara korter svo ég fékk ekki rosalega mikinn tíma en þetta gekk vel."

Birkir er miðvallarleikmaður en hefur eitthvað spilað í framlínunni hjá varaliði Viking. Áður en hann gekk í raðir Viking hafði hann leikið með þriðju deildar liði Figgjo sem er nágrannafélag Viking. Hann byrjaði ungur að árum að spila með aðalliðnu þar en vegna reglna í Noregi fékk hann aðeins að spila æfingaleiki fyrst um sinn.

„Ég var fastamaður í Figgjo. Ég spilaði fyrst með aðalliðinu þegar ég var 13-14 ára en það var bara æfingaleikur. Það má ekki spila í deildinni fyrr en maður er á árinu sem maður verður 16 ára."

Birkir sagði mikinn mun á að æfa með Figgjo og Viking en hjá Viking æfir hann með aðalliðinu og spilar regulega með varaliðinu. Hjá Viking var annar Íslendingur, Hannes Þ. Sigurðsson, er Birkir gekk í raðir félagsins en Hannes var svo seldur til Stoke City á Englandi í haust. Við spurðum Birki hvort það væri erfiðara að vera eini Íslendingurinn hjá Viking.

„Nei ekkert sérstaklega. Ég er búinn að búa hérna nokkuð lengi svo ég er vanur að vera hérna í Noregi."

Birkir stefnir að því að komast enn lengra í framtíðinni og spila fyrir lið í öðru landi. Hann segir að England heilli sig hvað það varðar. Hann sér ekki fyrir sér að spila á Íslandi í framtíðinni en aðspurður hvaða lið hann styddi hér á landi sagði hann.

„Ég fylgist ekki mikið með íslenska boltanum svo það er erfitt að segja. Ég æfði með KA þegar ég bjó á Íslandi," sagði Birkir Bjarnason í viðtali við Fótbolta.net að lokum en ljóst er að gaman verður að fylgjast með Birki í framtíðinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner