Aston Villa reynir við Cunha - Barcelona getur ekki fengið Rashford - Duran til Sádi-Arabíu?
   mán 01. febrúar 2021 08:19
Magnús Már Einarsson
Kjartan Henry: Þyrfti ansi mikið til að ég fari í annað lið en KR
Kjartan Henry Finnbogason
Kjartan Henry Finnbogason
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kjartan Henry er uppalinn hjá KR.
Kjartan Henry er uppalinn hjá KR.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
„Síðustu 48 tímana hefur verið mjög mikið í gangi," sagði Kjartan Henry Finnbogason þegar Fótbolti.net náði tali af honum í gærkvöldi.

Kjartan Henry hefur gert samning við Esbjerg í dönsku B-deildinni en Ólafur Kristjánsson er þjálfari liðsins. Esbjerg er í 2. sæti í dönsku B-deildinni og í harðri baráttu um sæti í úrvalsdeildinni. Kjartan Henry var í síðustu viku orðaður við Íslandsmeistara Vals og á laugardag rifti hann samningi við Horsens í Danmörku. Kjartan var farinn að huga að því að semja við félag á Íslandi þegar Esbjerg kom inn í myndina.

„Ég hafði þá tilfinningu af fjölskyldulegum ástæðum að koma heim. Konan mín er komin með flotta vinnu heima á Íslandi og hún hefur unnið það að utan út af Covid. Á sama tíma saknar maður vina og fjölskyldu, sérstaklega þegar það er ekki hægt að koma í heimsókn. Ég fékk samningnum rift hjá Horsens og það var erfið ákvörðun. Það kom nýr þjálfari í janúar og það var breytt staða þar."

„Þegar ég var búinn að rifta fékk ég símtal frá Óla Kristjáns, ekki í fyrsta skipti. Hann reyndi að fá mig þegar hann var hjá Randers og líka þegar ég var í smá basli hjá Vejle. Ég átti fínt spjall við hann og sagði honum hvernig ég væri að hugsa þetta. Tímabilið heima byrjar ekki fyrr en í byrjun maí. Ég vildi ekki bora í nefið í febrúar og mars á meðan við erum að pakka hérna úti og koma fjölskyldunni heim. Mér fannst spennandi að vinna með honum."

„Esbjerg er spennandi klúbbur sem á klárlega að vera í úrvalsdeildinni. Ég hef þrisvar sinnum farið upp um deild á ferlinum, einu sinni í Noregi og tvisvar í Danmörku og ég væri tilbúinn að gera það aftur. Þegar maður getur ekki spilað með FCK og Midtjylland þá er næst skemmtilegast að fara upp um deild. Ég er ótrulega spenntur að vinna með Óla og ég vil koma því á CV-ið að fara fjórum sinnum upp um deild."


Gæti komið í Pepsi Max-deildina í maí eða júlí
Hinn 34 ára gamli Kjartan Henry samdi út tímabilið í Danmörku en hann gæti spilað í Pepsi Max-deildinni í sumar.

„Ég er með samning út tímabilið sem er til 30. júní. Ég ætla mér að koma Esbjerg upp og kíkja svo á stöðuna. Við erum með þriggja mánaða uppsagnarfrest á húsinu okkar og höfum sagt því upp. Nú þurfum við að fá gám og flytja. Við erum með börn í skóla og leikskóla og það er mikið sem þarf að pæla í."

„Ef þú hefðir hringt í gær þá hefði ég sagt að ég væri á leið heim núna en þetta er fljótt að breytast. Ef það gengur vel hér þá kannski framlengi ég en mér finnst líklegast að ég komi heim í sumar, hvort sem það verður í maí áður en glugginn lokar eða þegar hann opnar aftur í júlí. Ég ætla að einbeita mér að einu í einu."


„KR er minn klúbbur á Íslandi"
Kjartan Henry er uppalinn hjá KR en í síðustu viku var hann orðaður við Íslandsmeistara Vals.

„Ég var búinn að heyra í klúbbum heima. Ég held að það segi sig sjálft að KR er minn klúbbur á Íslandi og ég var búinn að heyra í þeim. Síðan voru aðrir klúbbar búnir að hafa samband. Það þyrfti ansi mikið til að ég fari í annað lið en KR svo maður sé hreinskilinn. Ég ætti erfitt með að sjá það fyrir mér. Þetta er samt fljótt að breytast og maður hefur verið að reka sig á það í þessum heimi." sagði Kjartan Henry við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner