Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 01. nóvember 2019 10:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Jón Dagur: Var orðinn þreyttur á varaliðsboltanum
„Þetta er svolítið eins og Völsungur kæmist upp í efstu deild á Íslandi."
Fyrirliði U21 árs landsliðsins.
Fyrirliði U21 árs landsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Fulham.
Í leik með Fulham.
Mynd: Getty Images
Fagnar hjá Vendsyssel.
Fagnar hjá Vendsyssel.
Mynd: Jón Dagur Þorsteinsson
Í leik með AGF.
Í leik með AGF.
Mynd: Jón Dagur Þorsteinsson
Gegn Belgíu í fyrsta A-landsliðsleiknum.
Gegn Belgíu í fyrsta A-landsliðsleiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Léttur.
Léttur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leiknum gegn Svíum í janúar.
Í leiknum gegn Svíum í janúar.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Jón Dagur Þorsteinsson er á mála hjá AGF sem leikur í efstu deild í Danmörku, Superliga. Jón Dagur gekk í raðir félagsins frá Fulham í sumar.

Jón Dagur er fyrirliði íslenska U-21 landsliðsins og á auk þess þrjá A-landsliðsleiki á ferilskránni. Jón Dagur skoraði jöfnunarmarkið gegn Svíum í janúarverkefni landsliðsins á þessu ári.

Hann var á skotskónum í tapleik gegn FCK í vikunni og var aftur kominn í byrjunarliðið hjá AGF eftir smá fjarveru. Fótbolti.net heyrði í honum hljóðið í gærkvöldi.

Tíminn hjá Fulham
Fréttaritari skoðaði feril Jóns Dags áður en hann heyrði í leikmanninum. Jón Dagur fór til Fulham frá HK árið 2015 og var á mála hjá liðinu fram á sumarið í sumar. Jón var spurður hvort önnur lið hefðu verið í myndinni þegar hann fór til Fulham á sínum tíma.

„Það var ekki annað félag að skoða mig á þeim tíma. Ég fór tvisvar á reynslu hjá þeim og svo sömdu þeir við mig.

Jón Dagur byrjaði vel hjá unglingaliði félagsins og skoraði meðal annars mark mánaðarins hjá félaginu. Jón lék mest með unglingaliði félagsins og varaliðinu, þá lék hann æfingaleiki með aðalliðinu. Jón var spurður út í tímann í heild sinni og hvort hann hefði verið nálægt því að fá sénsinn með aðalliði félagsins.

„Mér leið pínu eins og þetta væri að koma (kallið í aðalliðið) þegar ég var að spila með varaliðinu. Það kom ekki og á því tímabili þá fór liðið upp í úrvalsdeild og þá mat ég líkurnar litlar á að ég fengi kallið. Á þeim tímapunkti var ég orðinn svolítið þreyttur á varaliðsboltanum og mér fannst ég þurfa að prófa eitthvað nýtt."

Eins og Völsungur kæmist upp í efstu deild á Íslandi
Jón Dagur fór á lán til Vendsyssel í Danmörku undir lok félagaskiptagluggans fyrir rúmu ári síðan. Jón Dagur lék með liðinu út síðustu leiktíð. Vendsyssel lék í efstu deild en féll í vor. Jón var spurður hver hugsunin var á bakvið lánssamningin og hversu mikil breyting frá Fulham umhverfið hafi verið.

„Ég fór þarna til að spila aðalliðsbolta. Það var risabreyting að skipta þangað frá Fulham. Mikill munur á aðstöðunni. Mér fannst það gott skref á þeim tímapunkti. Ég fékk aðalliðsmínútur sem var það eina sem ég var að leita eftir."

Jón var spurður um stærð félagsins á danskan mælikværði.

„Þetta er svolítið eins og Völsungur kæmist upp í efstu deild á Íslandi."

Skiptin yfir til AGF
Jón Dagur var spurður út í vistaskiptin frá Fulham yfir til AGF, hver var hugsunin á bakvið þau skipti?

„Ég sá ekki fram á að fá hlutverk ef ég yrði áfram hjá Fulham. Ég hefði örugglega fengið að spila áfram með varaliðinu sem var ekki spennandi kostur. Ég vildi frekar fara í félag þar sem ég fengi raunhæfari möguleika á aðalliðsmínútum. Hjá Fulham sá ég fram á að fá að vera í kringum aðalliðið en ekki í neinu alvöru hlutverki."

Kom til greina að vera áfram hjá Vendsyssel?

„Ég hafði í raun ekki áhuga að vera áfram þar, sama hvort við hefðum haldið okkur uppi eða ekki. Líkurnar voru litlar á að ég yrði áfram en svo urðu þær engar þegar þjálfararnir sem fengu mig voru reknir tveimum vikum fyrir lok tímabilsins."

Fulham nýtti sér ákvæði og framlengdi samninginn
Jón Dagur hefði runnið út á samning í sumar ef Fulham hefði ekki nýtt sér framlengingarákvæði í samningnum.

„Ég held að hugsunin hafi verið að fá eitthvað fyrir mig, svo ég færi ekki frítt. Ég var búinn að segjast vilja fara og þeir vissu af því. Ég lét þá vita á meðan liðið var enn í úrvalsdeildinni svo félagið skildi vel mína hugsun. Ég vissi alveg frá því í október í fyrra að þeir myndu nýta sér þetta ákvæði svo þetta kom mér ekki á óvart."

„Ég veit ekki hvort ég hefði fengið önnur tilboð ef ég hefði verið á frjálsri sölu. Ég var búinn að ákveða að ég vildi vera áfram í Danmörku og þau félög sem höfðu áhuga þar hættu ekki við vegna kaupverðsins."

Jón var spurður um hvort áhugi hefði verið frá öðrum löndum í sumar.

„Ég ákvað snemma að ég ætlaði að vera áfram í Danmörku. Þægilegt að þekkja deildina og mér fannst ég eiga smá inni í markaskorun og öðru. Ég skoðaði enga aðra möguleika á þeim tímapunkti."

Fyrstu mánuðirnir hjá AGF
Næst var rætt um fyrstu mánuðina hjá AGF, hvernig finnst Jóni Degi hafa gengið?

„Ég byrjaði mjög vel en svo dett ég úr liðinu í 7-8 leiki. Ég veiktist og liðinu gekk mjög vel í kjölfarið. Ég hefði viljað koma fyrr inn aftur en erfitt að segja eitthvað þegar liðinu gengur jafn vel og á þeim tímapunkti. Núna er ég að komast aftur inn í liðið og byrjaði síðasta leik."

„Mér líst mjög vel á félagið, flottur klúbbur, margir sem mæta á völlinn sem er gaman. Þá er bærinn líka skemmtilegur."


Jón var spurður hvort hann hefði fengið einhver meðmæli um AGF áður en hann tók ákvörðun um að ganga í raðir félagsins.

„Það voru strákar sem ég spilaði með sem höfðu verið hjá AGF og ég spurði þá aðeins út í félagið. Ég bjó í Álaborg á síðasta tímabili og það er stutt á milli svo ég vissi aðeins út í hvað ég var að fara."

Helmingur markanna komið gegn FCK
Jón Dagur kom inn á það að hann byrjaði í síðasta leik. Jón skoraði í leiknum og á samfélagsmiðlum birtist sú tölfræði að þrjú af sex mörkum Jóns hefðu komið í leikjum gegn FC Kaupmannahöfn, sem var mótherjinn í síðasta deildarleik.

„Það er auðvitað skemmtilegt að spila gegn stærstu liðunum, það er léttara að gíra sig upp fyrir leiki gegn FCK. Annars er þessi tölfræði algjör tilviljun."

U-21 árs landsliðið
Fréttaritari reyndi að fiska upp úr Jóni Degi hans skoðun hvort ætti að velja unga og óreyndari leikmenn fyrir lokaleikina tvo í síðustu leikjum Íslands í undankeppni fyrir EM.

Ævintýralega litlar líkur er á að Ísland komist áfram upp úr riðlinum. Jón Dagur vildi ekki tjá sig um það og umræðan færðist yfir í U21 landsliðið þar sem Jón Dagur er fyrirliði.

„Verkefnið hjá U21 er mjög skemmtilegt og mér líður mjög vel með það. Frábærir þjálfarar og við erum á góðum stað í riðlinum."

Jón Dagur tók við fyrirliðabandinu hjá U21 þegar Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen tóku við liðinu. Jón var spurður hvaða skyldur væru fólgnar í því að vera fyrirliði liðsins.

„Þeir ræddu við mig og ég tók við bandinu. Ég fæ þarna aukna ábyrgð og þarf að vera ákveðin fyrirmynd sem er skemmtilegt. Þetta er nýtt fyrir mér, ég hef aldrei verið fyrirliði áður."

U21 mætir Ítalíu í nóvember á Paolo Mazza, heimavelli SPAL. Jón var spurður út í það verkefni.

„Við höfum séð leikinn þeirra gegn Írlandi. Þeir eru með hörkuleikmenn en liðið lítur svolítið út eins og einstaklingar frekar en ein heild. Við eigum fína möguleika gegn þeim og við förum ekkert litlir inn í það verkefni."

HK
Jón Dagur er uppalinn hjá HK og er mikill stuðningsmaður félagsins. Fréttaritari vildi að lokum aðeins ræða við Jón Dag um HK sem kom á óvart í Pepsi-Max deildinni í sumar. Hvernig tekur HK næsta skref?

„Það þarf aðeins að styrkja hópinn. Menn mega ekki vera sáttir með síðasta tímabil heldur verður að byggja ofan á það. Liðið er með frábæran þjálfara í Brynjari Birni (Gunnarssyni). Það þarf aðeins að skerpa á hópnum og halda stemningunni gangandi," sagði Jón Dagur að lokum."

Fyrir áhugasama situr AGF í 6. sæti dönsku Superliga. Jón Dagur lék ekki með AGF í sigurleik í 16-liða úrslktum í bikarnum í gær, leikið er þétt þessa dagana.

Íslenska U21 liðið situr í 2. sæti í sínum riðli en á leik til góða á toppliðið. Þá endaði HK í 9. sæti Pepsi Max-deildarinnar í sumar sem nýliði í deildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner