Chiesa mögulegur arftaki Kvaratskhelia - Delap og Zirkzee orðaðir við Juventus
banner
   sun 01. desember 2024 17:55
Brynjar Ingi Erluson
England: Liverpool sannfærandi gegn meisturunum - Ellefu stig á milli liðanna
Mohamed Salah fagnar markinu sem gerði út um leikinn
Mohamed Salah fagnar markinu sem gerði út um leikinn
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Liverpool 2 - 0 Manchester City
1-0 Cody Gakpo ('12 )
2-0 Mohamed Salah ('76 , víti)

Topplið Liverpool er komið með ellefu stiga forystu á Manchester City í titilbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar eftir að liðið vann 2-0 sigur á Englandsmeisturunum á Anfield í dag.

Liverpool var með yfirburði frá A til Ö. Stefan Ortega, markvörður Manchester City, þurft að vera vel vakandi í byrjun leiks. Cody Gakpo átti skot sem hann varði og þá annað frá Dominik Szoboszlai.

Markið kom loks þegar tólf mínútur voru liðnar af leiknum. Mohamed Salah átti hálfgert skot sem endaði sem fyrirgjöf á fjær þar sem Gakpo fékk boltann í sig og þaðan í netið. Virkaði fremur einfalt.

Rétt fyrir markið hafði Virgil van Dijk átt skalla í stöng. Yfirburðir Liverpool voru miklir. Hollendingurinn átti síðan annan skalla stuttu síðar en rétt framhjá markinu.

Fyrsta og eina skot Man City í fyrri hálfleiknum átti Rico Lewis sem setti hann framhjá markinu.

Heimamenn fóru ótrúlega illa með góð færi í þeim síðari. Fyrst sendi Andy Robertson konfektsendingu í gegn á Gakpo sem var einn á móti Ortega, en sá þýski varði frá honum.

Mohamed Salah slapp þá í gegn nokkrum mínútum síðar en setti boltann yfir markið. Hann var með Szoboszlai sér við hlið en ákvað að klára færið sjálfur. Liverpool hefði getað verið með þrjú eða fjögur mörk á þessum tímapunkti leiksins.

Gestirnir fóru að spila aðeins betur þegar leið á leikinn en varnarmenn Liverpool voru vel á verði og sáu við öllu sem sóknarmenn Man City höfðu upp á að bjóða.

Á 75. mínútu fengu Liverpool-menn vítaspyrnu eftir arfaslakan varnarleik. Caoimhin Kelleher kom með langan bolta fram eftir pressu frá sóknarmönnum Man City. Vörn gestanna var í mestu vandræðum með að eiga við Darwin Nunez sem náði að pota boltanum til Luis Díaz sem slapp í gegn áður en Ortega tók hann niður.

Salah, sem klúðraði vítaspyrnu á móti Real Madrid í Meistaradeildinni í vikunni, fór aftur fullur sjálfstrausts á punktinn og setti hann af miklu öryggi í hægra hornið.

Sanngjörn forysta hjá Liverpool en Man City hafði gert lítið í leiknum til að verðskulda eitthvað. Síðustu vikur verið hrein martröð fyrir Pep Guardiola og hans menn.

Sjö mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma steig Van Dijk aðeins af bensíngjöfinni. Hann fékk boltann í vörninni og með Kevin de Bruyne í sér. Í stað þess að spila öruggt reyndi hann að snúa á De Bruyne, en missti boltann frá sér. De Bruyne komst einn á móti marki en Kelleher varði skot hans og handsamaði síðan boltann.

Kelleher verið magnaður síðustu vikur í fjarveru Alisson, en þarna var Van Dijk hreinlega að bjóða hættunni heim.

Liverpool vann þennan leik sannfærandi, 2-0 og er nú komið með níu stiga forystu á toppnum. Manchester City er hins vegar ellefu stigum á eftir erkifjendum sínum þegar þrettán umferðir eru búnar.

Lærisveinar Guardiola hafa tapað sex af síðustu sjö leikjum sínum í öllum keppnum en síðasti sigurleikur liðsins kom gegn nýliðum Southampton í lok október.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner