Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   fim 02. júlí 2020 11:30
Elvar Geir Magnússon
Fjölmörg vandamál sem stuðla að hnignun Barcelona
Lionel Messi, ekki hress.
Lionel Messi, ekki hress.
Mynd: Getty Images
Quique Setien, þjálfari Barcelona.
Quique Setien, þjálfari Barcelona.
Mynd: Getty Images
Viðvörunarbjöllur hringja hjá Barcelona, liðið er á niðurleið og flestir lykilmenn þess eru komnir yfir 30 ára aldurinn. Sid Lowe, blaðamaður Guardian og sérfræðingur um spænska boltann, fjallar um vandamál Börsunga og skrifar um hnignun liðsins.

Barcelona gerði jafntefli gegn Atletico Madrid í gær en þetta var þriðja jafntefli liðsins í fjórum leikjum. Vonirnar um spænska meistaratitilinn eru að fjara út.

Barcelona ákvað að reka Ernesto Valverde í vetur, þegar liðið var á toppnum, en var ekki með eftirmann kláran. Quique Setien var ekki fyrsta val en hann tók við liðinu.

„Hann er að glíma við sín vandamál en vandamálin eru líka í liðinu og vandamál liðsins eru vandamál félagsins," skrifar Lowe.

Antoine Griezmann, þriðji dýrasti leikmaður í sögu Barcelona, lék örfáar mínútur gegn Atletico Madrid. Annar dýrasti, Ousmane Dembele, er enn og aftur á meiðslalistanum og sá dýrasti, Philippe Coutinho, er á láni í München því ekki hefur tekist að selja hann.

„Coutinho átti að fylla skarð Inista og Arthur Melo átti að fylla skarð Xavi. En Arthur er kominn til Juventus í skiptum fyrir Miralem Pjanic. Ákvörðun sem var tekin af fjárhagslegum ástæðum frekar en fótboltalegum."

Lowe segir að æðstu menn Barcelona hafi verið í afneitun lengi og ekki brugðist við vísbendingum um að liðið hafi verið á öruggri niðurleið.

„Neymar, maðurinn sem átti að spila með Messi og taka á endanum við af honum, ætti að taka við burðarhlutverki núna. En hann varð óþolinmóður og Barcelona hafði ekki krafta til að koma í veg fyrir að hann færi 2018. Síðan hefur félagið reynt að fá hann til baka en ekki haft peninga til að klára það."

11 af 21 stjórnarmönnum Barcelona sem voru þegar forsetatíð Josep Maria Bartomeu hófst. Það hafa verið fjórir yfirmenn íþróttamála á hans tíma. Vandamálin bak við tjöldin eru gríðarlega mörg og leikmenn hafa verið í deilum við stjórnina um launamál.

Í jafnteflisleiknum gegn Celta Vigo um síðustu helgi virtust Lionel Messi, Luis Suarez og Ivan Rakitic hunsa aðstoðarþjálfarann Ede Sarabia. Fjölmiðlar töluðu um ólgu í klefanum og á mánudagskvöld fór forsetinn í heimsókn til Setien.

Hér má lesa greinina frá Sid Lowe
Athugasemdir
banner