Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mið 03. apríl 2024 14:59
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hallgrímur glímt við erfið veikindi og missir af fyrstu leikjunum
Skoraði sjö mörk í deildinni í fyrra og endaði sem stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar.
Skoraði sjö mörk í deildinni í fyrra og endaði sem stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vakin var athygli á því í upphitunarþætti Stúkunnar í gærkvöldi að Hallgrímur Mar Steingrímsson, lykilmaður KA, myndi missa af byrjun Íslandsmótsins.

Hallgrímur hefur glímt við veikindi að undanförnu, útskrifaðist af sjúkrahúsi í dag eftir að hafa verið þar í viku á sýklalyfjum. „Ég er enn að reyna aðeins að átta mig á alvarleika þessara veikinda," sagði Hallgrímur við Fótbolta.net í dag. Hann fékk inflúensu og svæsna lungnabólgu þar að auki.

Hallgrímur er ekki með neinn tímaramma varðandi endurkomu á völlinn. „Tíminn verður svolítið að leiða það í ljós, en ég vona auðvitað sem fyrst," sagði Hallgrímur. Hann stefnir á að byrja aftur að æfa um miðjan mánuðinn.

Hann er 33 ára framsækinn miðjumaður, uppalinn hjá Völsungi en hefur verið hjá KA síðan 2009 ef frá er tímabilið 2015 með Víkingi. Hallgrímur er leikjahæsti, markahæsti og stoðsendingahæsti leikmaður í sögu KA.

Hann sló í fyrra met sem sá leikmaður sem leikið hefur flesta leiki samfleytt fyrir eitt félag í efstu deild. Hann lék alls 160 leiki í röð frá 1. maí 2017 - 7. október 2023 en hann mun ekki spila gegn HK í fyrstu umferð Bestu deildarinnar á sunnudaginn.
Athugasemdir
banner