Liverpool hafnaði tilboði í Nunez og hefur áhuga á Tzimas - Chelsea hefur sett verðmiða á Nkunku - Rashford vill fara til Barcelona
   fös 06. janúar 2023 11:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Breiðablik kaupir Ágúst Orra til baka frá Malmö (Staðfest)
Ágúst Orri
Ágúst Orri
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Ágúst Orri Þorsteinsson, sem Malmö FF keypti af Breiðabliki fyrir ári, er búinn að skrifa undir þriggja ára samning við Breiðablik eftir að félagið keypti hann til baka frá Malmö FF fyrir sömu fjárhæð og hann
var seldur á.

Ágúst er sautján ára sóknarsinnaður miðjumaður sem hefur þegar leikið sex leiki fyrir unglingalandslið Íslands.

„Þetta var lærdómsríkur tími hjá Malmö enda sterkir strákar í öllum stöðum," segir Ágúst Orri.

„Klúbburinn er stór og sigursæll en ég hugsaði samt töluvert um það hvort þetta hefði verið rétt skref hjá mér að æfa og spila með U19 hjá Malmö eða vera að æfa og spila með meistaraflokki
Breiðabliks."

„Það hafði auðvitað líka áhrif þegar ég sá hvernig Blikum gekk í fyrra. Ég var búinn að koma inn á í Íslandsmótinu 2021 og hugsaði með mér að ég hefði getað verið partur af þessu."

„Því lengur sem ég hugsaði þetta því ákveðnari varð ég í því að vilja fara aftur í Breiðablik."


Ólafur Garðarsson umboðsmaður Ágústs Orra sagði að Malmö hefði tekið því fagmannlega þegar það varð ljóst hver vilji Ágústs Orra var.

„Þeir reyndu auðvitað að fá hann til að skipta um skoðun og gáfu honum þann tíma sem hann þurfti til að taka endanlega ákvörðun. Þegar ákvörðunin lá fyrir þá virtu þeir vilja hans en vildu eðlilega fá kaupverðið til baka”.

„Einhvern veginn fréttist það að Ágúst Orri væri etv á leiðinni heim og skyndilega voru nokkur lið hér í efstu deild sem vildu fá hann í sínar raðir. En Ágúst Orri var ákveðinn í því að fara aftur í Breiðablik og því ræddum við ekkert við önnur lið."


Ólafur Kristjánsson yfirmaður fótboltamála hjá Breiðabliki sagði að liðið væri mjög ánægt með að vera búnir að fá Ágúst Orra aftur enda hefur félagið mikla trú á honum.

„Núna æfir hann af kappi með meistaraflokki og ég hef fulla trú á því að hann verði lykilmaður hjá okkur á næstu árum og verði síðan mögulega seldur aftur út."

„En ég vil nota þetta tækifæri til að þakka Malmö FF fyrir það hvernig þeir brugðust við þessum breyttu aðstæðum. Þeir tóku þessu af fagmennsku og virtu vilja leikmannsins. Það ber að virða. Auðvitað vildu þeir fá þá fjármuni til baka sem þeir höfðu greitt og þá kemur sér vel að Breiðablik er ekki bara sterkur klúbbur á vellinum heldur einnig fjárhagslega og því greiddum við þeim kaupverðið til baka."

„Hann er gríðarlega efnilegur og við sáum mikið eftir honum þegar hann fór til Malmö. Hann er búinn að æfa með okkur núna frá því um miðjan desember og fellur vel í hópinn. Tæknilega mjög góður og með leikskilning langt umfram aldur. Síðan er þetta vel gerður og góður drengur sem skiptir ekki minna máli."

„Ég er fullur tilhlökkunar,”
sagði Ágúst Orri í spalli við Fótbolta.net. „Búinn að æfa með Breiðabliki frá því fyrir jól og líst mjög vel á framhaldið. Auðvitað er ég ungur ennþá en ég vona að ég geti hjálpað Breiðabliki á næstu árum við að halda sínum sessi hér á Íslandi sem besta liðið," sagði Ágúst Orri.
Athugasemdir
banner
banner