Bakvörðurinn Tommy Smith er búinn að leggja skóna á hilluna en hann er ekki búinn að spila fótbolta síðan í október 2023.
Smith er 32 ára gamall og gerði garðinn frægan þegar hann bar fyrirliðaband Huddersfield og hjálpaði liðinu að tryggja sér sæti í ensku úrvalsdeildinni 2017.
Smith spilaði 39 úrvalsdeildarleiki með Huddersfield áður en liðið féll aftur niður í Championship deildina.
Smith ólst upp í herbúðum Manchester City en spilaði sinn fyrsta keppnisleik með Huddersfield. Hann var hjá félaginu í sex ár áður en hann skipti til Stoke City sumarið 2019.
Hann var hjá Stoke í þrjú ár og skipti svo til Middlesbrough. Hann var mikilvægur hlekkur í sterku liði Middlesbrough þegar hann meiddist illa á hásin.
„Eftir 15 mánuði af endurhæfingu hef ég ákveðið að leggja skóna á hilluna. Ég tek þessa ákvörðun eftir samtöl við fremsta fóta- og ökklalækni Englands. Þetta hefur verið stórkostlegur kafli af mínu lífi og ég horfi fullur bjartsýni fram veginn," sagði Smith meðal annars í gær.
„Ein besta stundin í mínu lífi, ekki bara á mínum ferli sem fótboltamaður heldur öllu lífinu, var að leiða Huddersfield út í úrslitaleik Championship deildarinnar fyrir framan 80,000 manns á Wembley."
Athugasemdir