Janúartilboð frá Liverpool í Kerkez og Zubimendi - Forest vill Ferguson - Man Utd hefur áhuga á Raum og Yildiz
   mán 06. maí 2024 14:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Best í Mjólkurbikarnum: Njóta þess að spila fyrir Grindavíkurhjartað
Dröfn Einarsdóttir var best í 1. umferð bikarsins.
Dröfn Einarsdóttir var best í 1. umferð bikarsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fagnar hér marki með Grindavík.
Fagnar hér marki með Grindavík.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
„Þetta var bara fínasti leikur hjá okkur og ótrúlega skemmtilegt að vera hluti af þessu Grindavíkurliði," segir Dröfn Einarsdóttir sem var besti leikmaður 1. umferðar Mjólkurbikars kvenna og fékk hún fyrir það verðlaun frá Mjólkursamsölunni.

Dröfn skoraði fimm mörk þegar Grindavík vann 9-0 sigur gegn Smára úr Kópavogi. „Það er alltaf gaman að skora mörk en bara gott að ná í sigur."

Grindavík er komið áfram í 16-liða úrslitin en liðið lagði KR að velli eftir að hafa unnið Smára. Dröfn segir það gott að ná í tvo bikarsigra fyrir fyrsta leik í deildinni, en Grindavík spilar við ÍA í fyrstu umferðinni í kvöld.

„Það er gott fyrir sjálfstraustið fyrir mótið og vonandi er þetta bara byrjunin af einhverju skemmtilegu bikarævintýri," segir Dröfn en Grindavík spilar við ÍA í næstu umferð.

Spila fyrir Grindavíkurhjartað
Dröfn, sem er afar öflugur leikmaður, sneri aftur heim í Grindavík í vetur eftir að hafa leikið með Keflavík í efstu deild. Eins og allir vita þá hefur mikið gengið á í Grindavík í vetur en það hefur þjappað liðinu enn betur saman.

„Ákvörðunin að koma heim var alveg frekar erfið þar sem ég var samningsbundin hjá Keflavík. Það flækti hlutina örlítið en þetta gekk allt upp á endanum. Ég sé alls ekki eftir þessari ákvörðun og þá sérstaklega ekki eftir allt sem hefur gengið á í Grindavík," segir Dröfn.

„Þetta hefur verið krefjandi og strembinn vetur. Við erum búin að vera æfa hér og þar í allan vetur en þrátt fyrir þetta allt saman þá finnst mér við búin að þola þetta nokkuð vel. Fyrst og fremst ætlum við að njóta þess að spila fyrir Grindavíkurhjartað í sumar og samfélagið okkar. Við viljum auðvitað vera eins ofarlega í töflunni og mögulegt er, en við tökum bara einn leik í einu. Persónulega ætla ég að gefa mig alla fram fyrir klúbbinn."

Hún segir að það verði enn sérstakara að spila fyrir Grindavík í allt sumar eftir það sem hefur gengið á.

„Já það verður sérstakt þar sem við erum ekki að spila á Grindavíkurvelli (Stakkavíkurvelli) í sumar en við gerum Safamýrina að okkur vígi. Ég vonast til þess að sjá sem flesta Grindvíkinga í stúkunni í sumar að styðja við bakið á okkur."
Athugasemdir
banner
banner