Napoli reynir aftur við Garnacho - Arsenal ekki að ná að semja við Sporting um Gyökeres - Kudus í læknisskoðun hjá Spurs
   mið 08. september 2021 14:23
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Fjögur sem koma mögulega til greina í formannsstól KSÍ og staða þeirra
Markadrottningin Harpa Þorsteinsdóttir.
Markadrottningin Harpa Þorsteinsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pétur Marteinsson með Víði Reynisson í viðtali sumarið 2016.
Pétur Marteinsson með Víði Reynisson í viðtali sumarið 2016.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sævar Pétursson.
Sævar Pétursson.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Vanda Sigurgeirsdóttir.
Vanda Sigurgeirsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aukaþing KSÍ mun fara fram eftir þrjár vikur, nánar tiltekið þann 2. október næstkomandi.

Guðni Bergsson, fyrrum formaður KSÍ, og stjórn sambandsins sögðu af sér í síðustu viku í kjölfarið á því að Þórhildur Gyða Arnarsdóttir kom fram í fréttatíma RÚV og greindi þar frá ofbeldi og kynferðislegri áreitni sem hún varð fyrir af hálfu landsliðsmanns. Maðurinn sem um ræðir er Kolbeinn Sigþórsson.

Hún steig fram eftir að KSÍ hafði neitað því að tilkynningar eða ábendingar hefðu borist sambandinu síðustu ár. Annað kom þó á daginn er Þórhildur sagði frá ofbeldinu og dró þá Guðni orð sín til baka í fréttatímanum og sagðist hafa farið rangt með mál.

Hann sagði af sér sem formaður KSÍ nokkrum dögum síðar og fylgdi stjórn KSÍ á eftir honum. Fleiri sögur af ofbeldi landsliðsmanna hafa verið sagðar og er nú vonast eftir því að hreinsað verði til í knattspyrnuhreyfingunni.

Á aukaþinginu verður kosið um stjórn sem mun sitja þangað til í febrúar á næsta ári. Þá verður kosið aftur. Það hefur ekki enn komið opinberlega fram hvort að nýr formaður komi inn í október eða í febrúar.

Það er mikið talað um það hver verður næsti formaður KSÍ. Fótbolti.net tók saman lista um fjóra aðila sem hafa verið nefndir til sögunnar. Fréttamenn heyrðu í þessum fjórum einstaklingum og spurðu út í mögulegt formannsframboð.

Harpa Þorsteinsdóttir - „Er ekki búin að ákveða neitt"
Harpa er fyrrum markadrottning. Á glæstum ferli spilaði hún með Stjörnunni og Breiðabliki, ásamt því að hún skoraði 19 mörk í 67 A-landsleikjum. Það fór mjög gott orð af Hörpu í fótboltanum, innan sem utan vallar. Harpa hefur undanfarið starfað í bæjarpólitíkinni í Garðabæ og þá útskrifaðist hún úr stjórnunarnámi á vegum UEFA í fyrra. Nýverið skrifaði Harpa flottan pistil um málefni KSÍ og hægt er að lesa hann með því að smella hérna.

Aðspurð um mögulegt formannsframboð segir Harpa: „Ég hef fengið hvatningu og góð skilaboð, en er með lítil börn og í annarri vinnu. Ég íhuga þetta þegar ég fæ skilaboðin, en er ekki búin að ákveða neitt... þetta er stuttur fyrirvari. Það er aldrei að segja aldrei en það fer að líða að þessu. Ég er að íhuga þetta, ég er ekki búin að taka ákvörðun um neitt."

Pétur Marteinsson - „Besta skrefið væri að fá konu í formannsstöðuna"
Varnarjaxl sem lék 36 A-landsleiki frá 1993 til 2005. Hann skoraði í þessum leikjum eitt mark. Eftir að skórnir fóru upp á hillu hefur Pétur verið virkur í viðskiptalífinu og kom hann til að mynda að hugmyndavinnu um nýjan Laugardalsvöll. Pétur var í viðtali hjá RÚV um málefni KSÍ sem má hlusta á með því að smella hérna.

Aðspurður um mögulegt formannsframboð segir Pétur: „Nei, ég held að það standi ekki neitt til að ég bjóði mig fram til formanns. Ég hef bara ekki velt því fyrir mér. Ég get bara sagt það, ég hef ekki velt því fyrir mér."

Langar þig í eitthvað hlutverk innan KSÍ? „Ég eiginlega veit það ekki. Það er ýmislegt sem þarf að gerast. Ég held að það væri skynsamlegt að það myndi aukast vægi kvenna innan stjórnarinnar, innan hreyfingarinnar og innan aðildarfélagana. Ég held að besta skrefið væri að fá konu í formannsstöðuna. Það er kominn tími á það, það er 2021. Ég held að það sé aðalmálið. Ég hef ekki mátað mig við nokkurn skapaðan hlut innan KSÍ og ekkert vel því fyrir mér."

Sævar Pétursson - „Er í mjög skemmtilegu starfi"
Sævar hefur unnið virkilega gott starf sem framkvæmdastjóri KA á Akureyri. Hann kallaði eftir því í lok síðasta mánaðar að KSÍ myndi axla ábyrgð á þeirri stöðu sem væri komin upp. „Það er nauðsynlegt fyrir forystuna í Laugardalnum að axla ábyrgð. Ég vona innilega að forystan sé að hugsa um íþróttasamfélagið í heild sinni en ekki að togast á um sitt hlutverk eða einstaklinga. Tími breytinga er kominn og ég vona að mönnum beri gæfa til að sjá það," sagði Sævar sem situr jafnframt í stjórn ÍTF (Íslenskur toppfótbolti).

Aðspurður um mögulegt formannsframboð segir Sævar: „Nei, ég hef ekki velt því fyrir mér. Ég er í mjög skemmtilegu starfi og fæ vonandi að vera í því mun lengur."

Vanda Sigurgeirsdóttir - „Er að hugsa málið"
Vanda er fyrrum leikmaður og fyrrum A-landsliðsþjálfari kvenna. Hún þjálfaði síðast meistaraflokk árið 2013 er hún stýrði kvennaliði Þróttar í efstu deild. Þar áður þjálfaði hún meðal annars Breiðablik, KR, Tindastól og íslenska landsliðið. Hún þjálfaði þá karlalið Neista á Hofsósi sumarið 2001. Vanda starfar sem lektor í tómstunda- og félagsmálafræðum við Háskóla Íslands. Hún hlaut fálkaorðuna í ár fyrir fyrir framlag sitt til kvennaknattspyrnu og baráttu gegn einelti. Hún var líka í viðtali á RÚV á dögunum um málefni KSÍ en hægt er að hlusta á það hérna.

Aðspurð um mögulegt formannsframboð segir Vanda: „Ég er búin að fá áskoranir en ég er ekki búin að taka neinar ákvarðanir. Ég er að hugsa málið."
Athugasemdir
banner
banner