Framtíð Ten Hag ákveðin í dag - Zubimendi til City - Liverpool horfir til Frankfurt - Sane aftur til Englands
banner
   sun 08. september 2024 21:01
Ívan Guðjón Baldursson
Þjóðadeildin: Ronaldo kom inn af bekknum og gerði sigurmarkið
Tíu Spánverjar unnu í Sviss - Draumamark frá Modric gerði gæfumuninn
Mynd: EPA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Síðustu leikjum kvöldsins var að ljúka í Þjóðadeildinni, þar sem þrír leikir fóru fram í A-deildinni.

Portúgal tók þar á móti Skotlandi í áhugaverðum slag, þar sem Scott McTominay kom gestunum óvænt yfir með góðum skalla í fyrri hálfleik.

Skotar sýndu flotta frammistöðu og vörðust vel á meðan heimamenn í liði Portúgal sóttu án afláts.

Roberto Martinez þjálfari Portúgal gerði tvöfalda skiptingu í leikhlé þar sem hann setti Cristiano Ronaldo og Rúben Neves, sem leika báðir í sádi-arabísku deildinni, inn af bekknum.

Bruno Fernandes skoraði laglegt jöfnunarmark fyrir Portúgal með góðu skoti utan teigs eftir sendingu frá Rafael Leao en skömmu síðar fengu Skotar nokkur frábær tækifæri til að taka forystuna á ný, sem fóru þó forgörðum.

Portúgal tók aftur stjórn á leiknum og átti Ronaldo tvö skot í stöngina áður en hann skoraði loks markið sem réði úrslitum eftir fullkomna fyrirgjöf frá Nuno Mendes. Ronaldo skoraði af stuttu færi eftir að Diogo Jota náði ekki til boltans.

Ronaldo skoraði einnig sigurmarkið þegar Portúgal lagði Króatíu að velli síðasta fimmtudag, eftir stoðsendingu frá Nuno Mendes.

Portúgalir eru með sex stig eftir tvær umferðir á meðan Skotar eru án stiga eftir tap gegn Póllandi í fyrstu umferð.

Spánn heimsótti þá Sviss og vann flottan sigur. Nýkrýndir Evrópumeistarar byrjuðu af feykilega miklum krafti og komust í tveggja marka forystu eftir 13 mínútur en Svisslendingar voru einnig hættulegir í sínum aðgerðum.

Sviss kom boltanum í netið á sjöundu mínútu en markið ekki dæmt gilt eftir athugun með VAR-kerfinu, vegna hendi í aðdragandanum. Joselu og Fabián Ruiz skoruðu mörkin fyrir Spánverja, áður en Robin Le Normand fékk að líta beint rautt spjald fyrir brot sem aftasti varnarmaður.

Svisslendingar lifnuðu við eftir þetta og minnkaði Zeki Amdouni muninn fyrir leikhlé, svo staðan var 1-2 í hálfleik og heimamenn í liði Sviss manni fleiri.

Amdouni hélt hann hefði jafnað metin í upphafi síðari hálfleiks með skalla eftir hornspyrnu, en markið ekki dæmt gilt vegna þess að boltinn sveigði útfyrir endalínuna áður en hann rataði á kollinn á Amdouni.

Svisslendingar áttu mikið af marktilraunum í síðari hálfleik en tókst ekki að skapa nein góð færi. Þess í stað tókst tíu Spánverjum að refsa með tveimur mörkum á lokakaflanum, þar sem Ferran Torres lagði fyrst upp fyrir Fabián Ruiz áður en hann skoraði sjálfur til að innsigla 1-4 sigur.

Spánn er með fjögur stig eftir tvær fyrstu umferðirnar í Þjóðadeildinni á meðan Sviss er án stiga en spilar næst hatramman fjandslag við Serbíu.

Í síðasta leik A-deildarinnar skoraði Luka Modric eina mark leiksins í 1-0 sigri Króatíu gegn Póllandi, þar sem Robert Lewandowski bjó sér til magnað færi til að jafna en marktilraun hans hæfði slána.

Modric skoraði gullfallegt mark beint úr aukaspyrnu til að tryggja Króötum verðskuldaðan sigur.

Bæði lið eiga þrjú stig eftir tvær fyrstu umferðirnar í Þjóðadeildinni í haust.

Að lokum vann Svíþjóð þægilegan 3-0 sigur á Eistlandi í C-deild Þjóðadeildarinnar, þar sem Svíar gerðu út um viðureignina fyrir leikhlé.

Þar gerði Viktor Gyökeres sér lítið fyrir og skoraði tvennu á meðan Alexander Isak setti eitt mark. Dejan Kulusevski átti eina stoðsendingu í sigrinum.

Svíar eru með sex stig eftir tvær fyrstu umferðirnar en þeir eiga næst leik við Slóvakíu í toppbaráttunni.

Portúgal 2 - 1 Skotland
0-1 Scott McTominay ('7 )
1-1 Bruno Fernandes ('54 )
2-1 Cristiano Ronaldo ('88 )

Sviss 1 - 4 Spánn
0-1 Joselu ('4 )
0-2 Fabian Ruiz ('13 )
1-2 Zeki Amdouni ('41 )
1-3 Fabian Ruiz ('77 )
1-4 Ferran Torres ('80 )
Rautt spjald: Robin Le Normand, Spain ('20)

Króatía 1 - 0 Pólland
1-0 Luka Modric ('52 )

Svíþjóð 3 - 0 Eistland
1-0 Viktor Gyokeres ('30 )
2-0 Alexander Isak ('40 )
3-0 Viktor Gyokeres ('44 )
Rautt spjald: Kevor Palumets, Estonia ('62)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner