Jóhann Berg Guðmundsson sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag ásamt Age Hareide, landsliðsþjálfara.
Jóhann Berg var með fyrirliðabandið þegar Ísland tapaði 3-1 í Lúxemborg á föstudagskvöld en vonbrigðin voru gríðarleg í þeim leik.
Jóhann Berg var með fyrirliðabandið þegar Ísland tapaði 3-1 í Lúxemborg á föstudagskvöld en vonbrigðin voru gríðarleg í þeim leik.
Sjá einnig:
Hareide: Versta tilfinning í fótboltanum
„Auðvitað var þetta mjög erfiður leikur og mjög erfitt að taka þessu tapi. Ég er ekki að hugsa um það hvort þetta sé lágpunktur eða ekki. Við töpuðum leik og náðum ekki þeim markmiðum sem við settum fyrir leik. Það er svekkjandi," sagði Jóhann Berg.
„Menn hafa sólarhring til að hugsa um þetta og svo er það næsti leikur. Við þurfum að gera betur í leiknum á morgun. Við erum þannig séð búnir að gleyma Lúxemborg og vonandi læra af mistökunum sem við gerðum þar. Við getum spilað betri leik. Við vitum það allir að þetta var ekki nógu gott."
„Við fáum mark á okkur mjög snemma. Þessi vítaspyrna hjálpar ekki liðinu, það er alveg klárt. Við ákváðum að fara enn ofar og pressa þá hærra. Auðvitað fengu þeir þá enn fleiri færri. Þessi mistök, hvort sem það eru einbeitingarleysi eða hvað, þá eru einstaklingsmistök ekki eitthvað sem má gera á þessu stigi og ekki svona aftarlega á vellinum. Það verðum við en við vonandi lærum við af því. Við þurfum að vera betri varnarlega á morgun."
Ísland spilar við Bosníu á morgun og þar er mikilvægt að ná í sigur til að byggja upp sjálfstraust. „Við ætlum að gera betur en við gerðum á móti Lúxemborg og á móti Bosníu úti. Þeir eru með gott lið en við þurfum að sýna það - sérstaklega á heimavelli - að það er erfitt að eiga við okkur."
„Við þurfum að vera gríðarlega góðir varnarlega. Við þurfum að vera erfiðir að eiga við og við þurfum svo að sækja á þá eins hratt og við getum. Þeir eru með þrjá hafsenta og vængbakverði sem við þurfum að reyna að teyma út úr stöðum svo við getum sótt á bak við þá. Þetta er þessi gamla klisja, að fara út og spila fyrir þjóðina. Það er ekkert skemmtilegra en að spila fyrir Ísland. Vonandi koma sem flestir á völlinn að styðja okkur," sagði þessi öflugi leikmaður að lokum.
Athugasemdir