Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   mán 11. maí 2020 15:48
Elvar Geir Magnússon
Hörður Árna: Brynjar hringdi og ég ákvað að hjálpa félaginu
Leifur Andri Leifsson, fyrirliði HK, og Hörður Árnason.
Leifur Andri Leifsson, fyrirliði HK, og Hörður Árnason.
Mynd: Fótbolti.net - Arnar Daði Arnarsson
Hörður í leik með HK-ingum í fyrra.
Hörður í leik með HK-ingum í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í morgun tilkynnti HK að varnarmaðurinn Hörður Árnason væri hættur við að hætta og myndi taka slaginn með liðinu í Pepsi Max-deildinni í sumar.

HK gekk erfiðlega að finna mann til að leysa Hörð af og hefur ekki náð að styrkja lið sitt fyrir komandi tímabil.

„Ég hef auðvitað verið að fylgjast með HK síðan ég ætlaði að hætta í lok síðasta tímabils. Það er ekkert leyndarmál að HK er búið að vera að leita sér að vinstri bakverði," segir Hörður við Fótbolta.net.

„Svo bara í síðustu viku hringdi Brynjar Björn í mig og við tókum létt spjall þar sem hann talaði um að þeir vildu endilega fá mig aftur til að leysa þessa stöðu. Ég tók mér smá tíma til að hugsa þetta í sambandi við vinnuna og fjölskyldulífið og að lokum ákvað ég að slá til og hjálpa félaginu."

Pepsi Max-deildin fer af stað eftir rúman mánuð. Hvernig er standið á Herði núna?

„Staðan á mér er bara nokkuð góð, ég er í mjög fínu standi en þarf auðvitað að ná upp snerpu og að komast í alvöru bolta."

Hugsar hann komandi tímabil sem það síðasta eða heldur hann því opnu?

„Ég hugsa að þetta verði það síðasta, en eftir að hafa gefið það út síðast og er svo mættur aftur þá ætla ég ekki að lofa neinu."

Hörður er spenntur fyrir komandi tímabili í Pepsi Max-deildinni en vill þó ekki gefa út spá um Íslandsmeistara.

„Mér lýst bara mjög vel á ljómandi tímabil, held að það verði líka mjög skemmtilegt að spila tímabilið þétt og hafa ekkert of langan tíma milli leikja. Það er lang skemmtilegast að spila leikina. Eins og umræðan hefur verið þá eru það nokkur lið sem verða að berjast um toppinn en ég ætla ekkert að vera að gefa neinum það hrós að vinna titillinn fyrirfram," segir Hörður.

HK hafnaði í 9. sæti sem nýliði í Pepsi Max-deildinni í fyrra. Telur Hörður að HK geti byggt ofan á flotta frammistöðu síðasta árs?

„Ég held að HK geti klárlega byggt ofan á flotta frammistöðu síðan í fyrra. Við erum með unga leikmenn sem verða bara betri og svo hefur HK endurheimt tvo reynslumikla menn sem eiga bara eftir að bæta liðið. En auðvitað missti HK nokkra leikmenn sem gerir hópinn ekkert svakalega stóran. En vonandi náum við í smá liðsauka í viðbót áður en mótið hefst."
Athugasemdir
banner
banner
banner