Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   mán 11. desember 2017 15:00
Magnús Már Einarsson
Hælisleitandi dæmir leiki hjá íslenskum félögum
Twana dæmdi leik KR og Fjölnis í Reykjavíkurmótinu í 2. flokki í síðustu viku.
Twana dæmdi leik KR og Fjölnis í Reykjavíkurmótinu í 2. flokki í síðustu viku.
Mynd: Aðsend
Twana Khalid.
Twana Khalid.
Mynd: Aðsend
Twana Khalid, 28 ára hælisleitandi frá Írak, er byrjaður að dæma fótboltaleiki á Íslandi á meðan hann bíður þess að áfrýjun á umsókn hans um hæli hér á landi verði tekin fyrir.

Twana dæmdi í úrvalsdeildinni í Íran áður en hann kom til Íslands. Hann stefnir á að æfa með íslenskum dómurum og taka að sér verkefni sem bjóðast.

Gunnar Jarl Jónsson, fyrrum FIFA-dómari, hjálpaði Twana að komast að í dómgæslu á Íslandi.

„Þetta kom til að þjónustumiðstöð var í sambandi við Helgu konuna mína sem starfar sem deildarstjóri í grunnskóla, fjölskylda Twana kom til tals, hann á konu og tvö börn og þriðja á leiðinni. Upp úr krafsinu kom að hann væri knattspyrnudómari og Helga lét þjónustumiðstöð hafa tölvupóstinn hjá mér svo hann gæti haft samband við mig," sagði Gunnar Jarl Jónsson.

„Ég bauð honum að hitta mig og við settumst niður og spjölluðum saman. Hann sótt hér um hæli en fékk synjun þar sem hann er að koma frá Þýskalandi. Þetta er aftur á móti fjölskylda sem gæti komast vel inn í samfélagið og hans þekking myndi nýtast vel hér á landi í formi dómgæslu."

Twana hefur dæmt tvo leiki hingað til og stefnir á að dæma meira á næstunni. „Hann dæmdi hjá 4. fl. b-liða hjá Þrótti æfingaleik, ég fór með hann þangað og fylgdist með. Sá strax að hann væri með þetta."

„Ég hafði svo samband við meistara Sigga Helga þar sem ég sá að KR átti leik við Fjölni í 2. flokki karla á KR-velli. Twana býr þar við hliðina á og ég bauð Sigga dómara. Þetta er góður dómari, Siggi sagði að þetta væri frábær dómari og ekki lýgur Siggi Helga. Hann er eldri en tvævetur í bransanum."


Gunnar Jarl segir að íslensk félög geti leitað til sín ef þau hafa áhuga á að hafa samband við Twana til að fá hann til starfa hjá sér.

„Það er eflaust hægt að fá hann til að dæma, það þyrfti bara að spyrja hann eins og hvern annan. Hann hefur rosalega gaman að þessu, búinn að dæma í írösku úrvalsdeildinni og setið námskeið á vegum FIFA í heimalandinu þannig að þetta er hörkudómari. Ég hef rætt við Magnús Jóns dómarastjóra og Fannar þrekþjálfara um að hann fái að æfa með dómurum á Íslandi."

„Vonandi nær áfrýjunin hans í gegn hjá Útlendingastofnun og fjölskyldan fái hæli hér á landi. Að mínu mati væri það akkur fyrir samfélagið að fá svona fólk til landsins,"
sagði Gunnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner