Arnar Gunnlaugsson sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag. Hann verður án Gunnars Vatnhamar gegn Djurgarden á morgun.
Víkingur tekur á móti Djurgarden í síðasta heimaleik sínum í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu á morgun. Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli klukkan 13 í leik þar sem stig eða þrjú ættu að gulltryggja sæti fyrir Víkinga í útsláttarkeppni Sambandsdeildarinnar. Arnar Gunnlaugsson þjálfari og Nikolaj Hansen fyrirliði Víkinga sátu fyrir svörum á fréttamannafundi fyrr í dag. Arnar svaraði fyrst fyrir undirbúning liðsins fyrir leikinn.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 0 - 0 Djurgården
„Við höfum notað tímann afskaplega vel upp á síðkastið. Við höfum verið að æfa vel. Í minningunni frá því í sumar þegar allt var í gangi er það eins og við höfum ekki tekið eina alvöru æfingu. Þar voru bara leikir og endurheimt og svo enn fleiri leikir og fundir. Síðustu 3-4 vikur hef ég skynjað miklar breytingar á leikmannahópnum. Við höfum verið taktískt “on it” og ein ástæðan fyrir því er að við höfum náð góðum tíma saman á æfingarsvæðinu.“
Gunnar Vatnhamar enn frá vegna meiðsla
Staðan á leikmannahópi Víkinga fyrir leikinn er ágæt, vitað var að Pablo Punyed yrði frá eftir krossbandaslit í sumar en Víkingar þurfa jafnframt að vera án Gunnars Vatnhamar í leiknum á morgun en hann hefur enn ekki jafnað sig á meiðslum sem hann hlaut í leik með færeyska landsliðinu á dögunum.
„Hún er allt í lagi, Gunnar því miður nær ekki leiknum. Á móti kemur að Matti (Matthías Vilhjálmsson) og Valdi (Valdimar Þór Ingimundarson) hafa fengið dýrmætan æfingatíma. Þetta er svo sem ekkert nýtt fyrir okkur. Mér líður eins og við höfum verið án þriggja til fimm sterkra leikmanna í nánast allt sumar en hópurinn hefur stigið virkilega vel upp.“
Gætu náð beint í 16 liða úrslit
Tölfræðin segir að mjög miklar líkur séu á því að Víkingar séu á leið í útsláttarkeppni Sambandsdeildarinnar. Björninn er þó ekki unninn enn og er Arnar og leikmenn vel meðvitaðir um mikilvægi jákvæðra úrslita.
„Við elskum tölfræði í Víkinni. Gulrótin er það stór núna að við erum farnir að leyfa okkar að dreyma þó án þess að missa okkur. Með því að vinna á morgun þá erum við að fara upp í flugvél til Austurríkis og erum að fara að spila um að komast í topp átta. Þetta er ekkert flóknara en það. Við stefnum samt fyrst á að reyna að verja stigið okkar til að gulltryggja okkur úr og fara úr 88% í 100% og eiga þægilega ferð til Austurríkis.“
Leikur Víkinga og Djurgården fer fram á Kópavogsvelli og verður flautað til leiks klukkan 13:00. Fótbolti.net verður að sjálfsögðu á staðnum og verður leikurinn í beinni textalýsingu á vefnum auk þess sem viðtöl verða birt að leik loknum.
Athugasemdir