Heimild: DocZone
Adam Ægir Pálsson er á leið aftur í Val eftir að hafa eytt síðasta árinu á láni á Ítalíu en þetta staðfesti hann í DocZone í dag.
Adam Ægir hélt út í atvinnumennsku síðasta sumar og gerði þá lánssamning við Perugia í C-deildinni á Ítalíu.
Þar byrjaði hann frábærlega og skoraði þrennu er liðið komst áfram í bikarnum, en tókst ekki að festa sig í sessi í byrjunarliðinu og voru tækifærin af skornum skammti.
Undir lok janúargluggans færði hann sig um set og gerði lánssamning við Novara. Þar fékk hann aðeins fáeinarmínútur í þremur leikjum, en setið sem fastast á bekknum í síðustu fimm leikjum.
Í síðasta mánuði var talað um það í Gula Spjaldinu að Adam Ægir gæti verið á heimleið og nú hefur hann sjálfur staðfest það í samtali við Hjörvar Hafliðason í DocZone.
Hann nær ekki leiknum gegn KR á mánudag en hann á ekki flug fyrr en á þriðjudag.
„Já, ég fer bara heim í Val þar sem mér líður best. Það er ekkert flug á mánudag þannig ég næ því ekki. Ætlaði að reyna fljúga á morgun, en ég kem á þriðjudag,“ sagði Adam Ægir við DocZone.
Honum líst vel á Valsara og var þá spurður út í það hvaða treyjunúmer hann væri til að taka. Honum finnst freistandi að taka aftur númer 23 eftir að Gylfi Þór Sigurðsson fór, en grínaðist þá með að taka sjöunda af Aroni Jóhannssyni.
„Er þetta ekki bara flott? Þeim vantar einn AP og þá er þetta orðin negla.“
„Gylfi stal 23 af mér þannig verður maður ekki að taka hana til baka? Þyrfti samt eiginlega að taka sjöuna af Aroni Jó. Þið eruð alltaf að 'hate-a' á hann þannig ég tek hana og set hann á bekkinn,“ grínaðist Adam Ægir í lokin.
Athugasemdir