Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
banner
   mið 12. október 2022 12:51
Elvar Geir Magnússon
Viktor Karl: Við og Víkingar höfum lyft fótboltanum á hærra plan
Viktor Karl Einarsson, leikmaður Breiðabliks.
Viktor Karl Einarsson, leikmaður Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viktor spjallaði við Innkastið.
Viktor spjallaði við Innkastið.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Það varð staðfest á mánudaginn að Breiðablik er Íslandsmeistari 2022. Viktor Karl Einarsson, leikmaður liðsins, ræddi við Innkastið í gær.

„Maður er í skýjunum. Þetta var bara geggjað. Við horfðum á leikinn saman og þetta var miklu skemmtilegra en maður átti von á. Það var geggjað að sjá Stjörnuna skora," segir Viktor en tap Víkings gegn Stjörnunni gerði það að verkum að ekkert lið á lengur möguleika á að ná Blikunum.

Leikmenn Breiðabliks horfðu á leikinn saman á Kópavogsvelli og Viktor segir að tilfinningin í leikslok hafi verið frábær.

„Hún var eiginlega ólýsanleg. Það trylltist allt og við fögnuðum. Þetta var góð tilfinning. Við leyfðum okkur að fagna. Einhverjir tóku vel á því og sumir fóru aðeins fyrr heim en þetta var allavega ótrúlega gaman. Það var upplifun að vinna þetta með svona hætti, horfa á annan leik. Þetta var skrítin en skemmtileg tilfinning."

Ákveðnir í að pakka þessu tímabili saman
Breiðablik hefur óumdeilanlega verið langbesta lið Bestu deildarinnar í sumar og það frá því að mótið var flautað á.

„Ég held að ég fari ekki með rangt mál að við höfum verið á toppnum alveg frá fyrstu umferð. Þetta er engin heppni. Við vorum ákveðnir í því að pakka þessu tímabili saman og vorum allir á sama plani alveg frá byrjun," segir Viktor.

Í hverju var Breiðabliksliðið betra á þessu tímabili en því síðasta?

„Það er fullt af hlutum en fyrst og fremst er það að hafa stjórnina frá A til Ö í leikjum, stjórna hvernig þú átt að vinna leiki. Það er held ég helsti munurinn á þessu tímabili og tímabilinu í fyrra. Við erum að verða betri í öllu og taka stjórn í leikjum. Hvort sem það er að halda í boltann eða hvað sem er. Ég tel að það sé sá þáttur sem við höfum bætt okkur mest í."

Þetta er engin heppni
Það hafa margir leikmenn í Breiðabliksliðinu átt ótrúlega gott tímabil og óhætt að segja að nánast hafi ekki verið hægt að finna veikan blett á liðinu.

„Þetta er búið að vera alveg magnað. Sama hver kemur inn í liðið þá smellur þetta alltaf. Það er gaman að sjá að þegar maður dettur út þá kemur bara annar í staðinn. Það gekk allt upp einhvern veginn," segir Viktor.

Ljóst er að þjálfarinn Óskar Hrafn Þorvaldsson á afskaplega stóran heiður af þessum Íslandsmeistaratitli. Hann fór með liðið í ákveðna vegferð og það er nú orðið það besta á Íslandi.

„Þeir félagar Óskar og Dóri (Halldór Árnason, aðstoðarþjálfari) eru algjörir fagmenn. Þetta er engin heppni. Þetta er teiknað upp, byrjar hjá þeim og svo reynum við leikmenn að útfæra þetta eins vel og við getum. Þetta eru algjörir fagmenn."

Hrikalega gaman að vera hluti af því
Það er draumur margra íslenskra fótboltaáhugamanna að íslenskt lið geti komið sér í riðlakeppni í Evrópu. Ljóst er að lang greiðasta leiðin í að ná því markmiði er í gegnum Íslandsmeistaratitilinn.

„Það er alveg klárt. Maður er kannski ekki byrjaður að hugsa rosalega mikið út í það núna. En maður sér Víkinga fara skemmtilega leið í þessari Evrópukeppni. Þá betri leið og spennandi, maður er fullur tilhlökkunar fyrir því að taka þátt í því á næsta tímabili," segir Viktor.

Breiðablik hefur haft það orðspor að bregðast undir pressu, hvort sem það sé sanngjörn umræða eða ekki. Víkingar skutu aðeins á Blikana eftir að þeir töpuðu gegn þeim í bikarnum en það er mikil samkeppni milli þessara tveggja bestu liða landsins í dag.

„Þetta er orðið skemmtilegt, það er kominn þokkalegur rígur á milli og það er hrikalega gaman að því. Ég held að þessi lið séu að lyfta fótboltanum á aðeins hærra plan og það er hrikalega gaman að vera hluti af því."

Hægt er að hlusta á Innkastið í spilaranum hér að neðan en þar tjáir Viktor sig nánar um þetta Íslandsmeistaratímabil Breiðabliks.
Innkastið - Blikar krýndir bestir í sófanum og FH greip líflínu
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner