Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 13. júlí 2021 15:09
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Dómarar fá fljótlega rödd - „Full ástæða til að prófa þetta"
Dómarar að störfum á Meistaravöllum í gær.
Dómarar að störfum á Meistaravöllum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þóroddur Hjaltalín, formaður dómaranefndar KSÍ.
Þóroddur Hjaltalín, formaður dómaranefndar KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vilhjálmur Alvar Þórarinsson með gula spjaldið á lofti.
Vilhjálmur Alvar Þórarinsson með gula spjaldið á lofti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðmundur Benediktsson, sem stýrir Pepsi Max Stúkunni á Stöð 2 Sport, sagði frá því í lok apríl að íslenskir dómarar myndu mæta í viðtöl eftir leiki, þegar EM væri lokið.

„Við höfum náð samkomulagi við Knattspyrnusambandið og dómarastéttina á Íslandi. Eftir EM þá verða leyfð viðtöl við dómara eftir leik ef það eru stór atvik sem gerast í leikjum... það munu stór atvik gerast. Þá höfum við leyfi til að biðja um dómarana í viðtöl í stóru útsendingunum okkar," sagði Guðmundur í hlaðvarpsþættinum Dr Football.

Núna er EM lokið og Pepsi Max-deildin í fullum gangi. Það voru tveir leikir á dagskrá í gær en engir dómarar mættu í viðtöl.

Fótbolti.net fór á stúfana og ræddi fréttamaður við Þórodd Hjaltalín, formann dómaranefndar KSÍ, um stöðuna á þessum málum.

„Staðan er sú að undirbúningsvinna fyrir þetta er í gangi," sagði Þóroddur. Hann getur ekki gefið upp nákvæma tímasetningu en segir að hilli undir þetta.

„Við erum að klára þá vinnu sem við þurfum að fara í, bæði innan KSÍ og með rétthöfunum, Sýn. Sú vinna er í gangi núna. Það er stutt í það að við munum prófa þetta verkefni."

„Það þarf að ákveða með dómurum og Sýn hvernig við ætlum að gera þetta, með hvaða hætti verður þetta. Svo þarf að undirbúa dómarana fyrir þetta. Ég vil að þeir komi vel undirbúnir og að þetta verði gert faglega. Það er vinna sem fer fram með fjölmiðladeild KSÍ og með þeim sem eru að stjórna Stúkunni, Gumma Ben og hans fólki. Við erum að leiða saman þessa hesta og vinna í þessu á fullu," segir Þóroddur.

„Það hefur verið mikil vinna í gangi hjá Stöð 2 og eins hjá okkur. Þetta hefur tafist aðeins, undirbúningurinn á þessu en þó ekki mikið. Ég tel að við verðum tilbúin fyrr en síðar."

Dómararnir fá þjálfun í að tala við fjölmiðla áður en riðið verður á vaðið.

„Það er einn vinkillinn í þessu, að þeir komi vel undirbúnir," segir Þóroddur. „Þetta er nýjung fyrir okkur. Við erum með marga dómara í deildinni sem eru ekki vanir þessu og svo ertu með menn eins og Villa Alvar og Þorvald Árna sem eru búnir að vera lengi í þessu og hafa farið í viðtöl áður. Þeir þekkja þetta aðeins og svo eru aðrir sem hafa ekki verið í þessu; við viljum að þeir fái þann undirbúning sem þeir þurfa."

Hvað er markmiðið?
Það eru áhugaverðar pælingar að dómarar fái rödd enda hefur það ekki verið venjan á Íslandi - og á flestum öðrum stöðum - áður.

„Markmið okkar er að koma okkur örlítið nær, að dómararnir geti komið með sinn vinkil á atvikin sem er verið að ræða. 'Af hverju var ákvörðunin svona en ekki einhvern veginn öðruvísi?' Hugmyndin okkar er að minnka bilið á milli fótboltaáhugafólks á Íslandi og dómara," segir Þóroddur en er ekki mikilvægt að dómararnir hafi rödd?

„Það er mikilvægt (innsk. fréttamanns; að dómararnir fái rödd). Mér leiðist 'þið og við' einhvern veginn. Á enda dagsins þá eru allir sem eru að fjalla um og starfa í fótboltanum á Íslandi með sama markmið, að gera þetta vel og flott. Ég held að það sé þannig með alla, hvort sem það séuð þið á .net, við sem erum að dæma, þjálfararnir sem eru að þjálfa... ég lít á þetta sem eitt lið. Það er kominn tími á að við prófum þetta, hvort það sé ekki hægt að gera þetta meira saman. Eins og þú nefnir líka, að dómararnir fái rödd."

„Það er mín von að fólk sjái að við erum ekki komnir til að eyðileggja Íslandsmótið. Á bak við hvern dómara er einstaklingur sem leggur mikið á sig og er að gera sitt besta. Einhvern tímann gæti dómari sagt: 'Ég er búinn að sjá þetta aftur og þetta var þvæla'. Þá er það bara þannig, við gerum öll mistök. Mér finnst full ástæða til að prófa þetta."

„Ég veit að þetta hefur verið gert í öðrum löndum, Svíþjóð og Hollandi. Við vorum ekki endilega að horfa til þess. Við erum búin að hugsa þetta lengi. Sjálfur var ég þannig þegar ég var að dæma, að mig langaði að segja ýmislegt - misgáfulegt og allt það. Við vorum búin að ræða þetta lengi og ég var búinn að nefna þetta við strákana í vetur. Þeir tóku rosalega vel í þetta og þá ákváðum við að kýla á þetta, prófa þetta. Það versta sem gerist er að við hættum þessu aftur ef okkur finnst þetta ómögulegt. Við getum alla vega sagt að við séum búin að prófa þetta. Ég hef fulla trú á því að þetta sé komið til að vera því ég held að þetta sé eitthvað sem við öll viljum," segir Þóroddur og bætir við:

„Svo er það fallega við þetta íþrótt að við verðum aldrei öll sammála."

Það verður spennandi að fá dómarana í viðtöl og heyra þeirra hlið - loksins.
Athugasemdir
banner
banner
banner