Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   fös 13. desember 2019 14:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Willum: Ætla mér enn stærra hlutverk hjá BATE
Willum fagnar marki með U21 í september
Willum fagnar marki með U21 í september
Mynd: Fótbolti.net - Eyþór Árnason
Eftir undirskrift hjá Bate
Eftir undirskrift hjá Bate
Mynd: BATE
Willum í A-landsleik í janúar
Willum í A-landsleik í janúar
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Í bikarúrslitaleiknum með Breiðabliki gegn Stjörnunni haustið 2018.
Í bikarúrslitaleiknum með Breiðabliki gegn Stjörnunni haustið 2018.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
U21 lék á Víkingsvelli í október.
U21 lék á Víkingsvelli í október.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Willum Þór Willumsson gekk í raðir BATE Borisov í Hvíta-Rússlandi snemma árs 2019. Willum er uppalinn hjá Breiðabliki og átti hann góða leiktíð árið 2018.

Willum á að baki 28 leiki í efstu deild á Íslandi og skoraði hann sex mörk í þeim leikjum. Hann var í janúar valinn í A-landsliðshópinn í fyrsta skipti.

Willum er 21 árs gamall miðjumaður. Hann lék nítján deildarleiki með BATE á leiktíðinni og tvo leiki í undankeppni Evrópudeildarinnar.

Hann er þá í lykilhlutverki hjá U21 árs landsliðinu sem hefur farið ágætlega af stað í undankeppninni fyrir EM2021.

Fótbolti.net hafði samband við Willum í vikunni og spurði hann út í tímann hjá BATE. Fyrsta spurning var út í vistaskiptin til Hvíta-Rússlands, hvernig kom til þess að stærsta liðið í Hvíta-Rússlandi leitaði í Breiðablik að liðsstyrk?

„Þeir sjá klippur úr leikjum hjá mér og byrja í kjölfarið að spyrjast fyrir um mig," sagði Willum við Fótbolta.net

„ Þeir bjóða mér síðan út að skoða aðstæður og semja við mig eftir það. Ætli Ísland hafi ekki bara verið 'inn' á þessum tíma og Íslendingar að gera það gott í Rússlandi sem verður til þess að þeir horfi til Íslands."

Voru önnur lið sem höfðu áhuga á Willum eftir tímabilið 2018?

„Það var áhugi frá nokkrum liðum í Skandinavíu og svo frá Ítalíu. Spezia og Breiðablik áttu í viðræðum en það náðust ekki samningar á milli félaganna."

„Svo heyri ég af áhuga frá Bate. Þá var það eiginlega það eina sem mér fannst koma til greina."


Alltaf krafa á titil
Fyrir leiktíðina í ár hafði Bate sigrað hvít-rússnesku deildina þrettán sinnum í röð. Í ár varð Brest meistari og endaði Bate fimm stigum á eftir toppliðinu. Hvernig er pressan á liðið í deildinni?

„Það er krafa á titil á hverju ári og ætlast til að við vinnum alla leiki í deildinni. Einnig er mikil pressa á að komast í Evrópudeildina á hverju ári."

Hvernig hefur umræðan verið í Hvíta-Rússlandi eftir að ljóst varð að Bate yrði ekki meistari?

„Ég verð lítið var við umræðuna útaf tungumálinu en ætli hún hafi ekki verið í neikvæðari kantinum."

Fyrst að Willum kom inn á tungumálið - Hvernig gekk að komast inn í hópinn þar sem maður kann ekki tungumálið?

„Það gekk vel, þetta er flottur hópur og flottir strákar. Hvít Rússarnir eru ekkert spes í enskunni - sérstaklega þessir ungu þeir kunna lítið sem ekkert en þessir eldri sem hafa spilað utan Hvíta Rússlands geta alveg bjargað sér í enskunni."

Hlutverkið stækkaði þegar leið á tímabilið
í hvaða hlutverki hefur Willum verið hjá liðinu á hans fyrstu leiktíð?

„Ég spilaði ekki mikið í upphafi tímabils og var mikið að koma inná."

„Þegar leið á tímabilið fékk ég stærra hlutverk og meiri spilatíma og spilaði að mínu mati mjög vel."


Deildin byrjar aftur í lok mars
Nú styttist í undirbúningstímabil fyrir komandi leiktíð hvernig líta næstu mánuðir út hjá Willum?

„Ég fæ frí núna út desember, síðan þarf ég að vera mættur aftur út í byrjun janúar. Þá er æfingaferð til Tyrklands, við verðum þar í þrjár vikur. Komumst burt úr kuldanum sem er í Hvíta-Rússlandi á þessum árstíma. Síðan byrjar bikarinn fljótlega eftir það og svo byrjar deildin í lok mars."

Ætlar sér stærra hlutverk hjá félaginu
Hvernig líst Willum á komandi leiktíð?

„Mér líst mjög vel á komandi tímabil. Ég ætla mér enn stærra hlutverk hjá liðinu. Ég veit að allir hjá félaginu ætla sér að gera betur en á síðasta tímabili,"

Ef það er eitthvað eitt sérstakt sem Willum myndi vilja bæta í leik sínum hjá Bate hvað væri það?

„Ég væri til í að koma að fleiri mörkum hjá liðinu."

Gaman að vera valinn í A-landsliðið
Willum var valinn í A-landsliðið í janúar og lék þá sinn fyrsta A-landsleik. Hvernig var að fá kallið og hvernig var að spila leikinn?

„Það var mjög gaman að fá að fara í þetta verkefni í janúar og einnig mjög gaman að fá að spila fyrsta A-landsleikinn.

Willum var að lokum spurður hvort að valið í A-landsliðið hafi hjálpað til varðandi áhuga Bate. Svar Willums var einfalt:

„Alveg örugglega," sagði Willum að lokum.
Athugasemdir
banner
banner