Inter og Barcelona vilja Enzo - Isak efstur á blaði Arsenal - Man Utd vill táning frá Sporting
   þri 14. mars 2023 16:28
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Ein erfiðasta ákvörðunin á ævinni - „Ég fór að hugsa lengra"
Sigríður Lára er búin að leggja skóna á hilluna eftir farsælan feril.
Sigríður Lára er búin að leggja skóna á hilluna eftir farsælan feril.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bikarmeistari með ÍBV.
Bikarmeistari með ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á EM 2017.
Á EM 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með FH.
Í leik með FH.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
'Fótbolti hefur verið líf mitt. Þetta hefur skipt mig miklu máli og verið ótrúlega gaman, en ég fór að hugsa hvað ég vildi líka gera meira í lífinu'
'Fótbolti hefur verið líf mitt. Þetta hefur skipt mig miklu máli og verið ótrúlega gaman, en ég fór að hugsa hvað ég vildi líka gera meira í lífinu'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Miðjumaðurinn Sigríður Lára Garðarsdóttir tilkynnti það á dögunum að hún hefði tekið þá ákvörðun að leggja skóna á hilluna eftir farsælan feril.

Sísí Lára, eins og hún er yfirleitt kölluð, er uppalin í ÍBV og spilaði sinn fyrsta deildarleik með liðinu aðeins 15 ára gömul. Síðan þá hefur hún spilað 167 leiki í efstu deild með ÍBV, Val og FH og skorað 24 mörk.

Sísí á Íslandsmeistaratitil, bikarmeistaratitla og stórmót með landsliðinu á ferilskrá sinni. Á síðasta tímabili hjálpaði hún FH að komast aftur upp í efstu deild þar sem hún lék 18 leiki og gerði eitt mark.

Í samtali við Fótbolta.net segir Sísí að hún hafi hugsað þetta í dágóðan tíma en tekið ákvörðunina eftir fund með gigtarlækninum sínum á dögunum. Hún hefur síðustu árin glímt við liðagigt og það hefur tekið á að vera á fullu í fótbolta með því.

„Ég hef verið að hugsa þetta lengi. Ég var óviss með það hvað ég ætti að gera. Fyrir tveimur vikum átti ég fund hjá gigtarlækninum mínum sem ráðlagði mér að þetta væri komið gott. Þá fór ég að hallast að því að þetta væri orðið gott fyrir mig," segir Sísí og bætir við:

„Ég er ekki það slæm í líkamanum en þetta er ágætis forvörn fyrir það þegar maður verður eldri. Ég var að hugsa út í það. Þetta er ein erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið á ævinni."

„Ég er búin að vera á báðum áttum, þetta er búið að liggja mjög þungt á mér. Ég get viðurkennt það."

„Læknirinn var aðeins búinn að nefna þetta við mig áður. Ég er búin að vera í nokkur ár með þetta og hef verið að spila á fullu, en ég hugsaði núna að þetta væri komið gott. Þetta gæti haft áhrif á mig í framtíðinni ef ég held áfram í fótbolta. Ég veit ekki til þess að það séu margir fótboltamenn með þessi veikindi og ég verð að hlusta á sérfræðinginn, á lækninn."

Fótbolti hefur verið líf mitt
Það er ekki auðvelt að spila fótbolta með liðagigt, en Sísí hefur reynt að láta það trufla sig sem minnst.

„Ég finn fyrir verkjum í liðunum, verð rosalega þreytt eftir leiki, maður finnur það alveg. Það er líka þreyta eftir daginn, svefnþreyta. Ég finn alveg fyrir þessu en ég hef reynt að láta það ekki trufla mig," segir Sísí.

„Það er svo gaman í fótbolta og þetta gefur mér svo mikið. Fótbolti hefur verið líf mitt. Þetta hefur skipt mig miklu máli og verið ótrúlega gaman, en ég fór að hugsa hvað ég vildi líka gera meira í lífinu. Núna er ég komin í góða vinnu og það er meira sem ég vil líka gera, sinna áhugamálum og fleira. Ég fór að hugsa lengra."

Mjög erfitt að kveðja FH
Sísí hefur síðustu ár spilað með FH og á það lið stóran stað á hennar ferli. Hún hjálpaði liðinu að komast upp í efstu deild á síðustu leiktíð.

„Það var mjög erfitt að kveðja FH-liðið. Mig langaði auðvitað að halda áfram að spila með þeim í Bestu deildinni, en svona er þetta. Ég held að ég sé að skilja við FH á góðum stað. FH þarf að byggja ofan á það að komast í Bestu deildina."

„Ég held að FH geti haldið sér uppi. Þær eru með ungt og efnilegt lið sem verður spennandi að fylgjast með. Þær munu koma á óvart," segir Sísí en það var erfitt fyrir hana að láta þjálfara FH vita að hún væri hætt.

„Það var mjög erfitt að segja Guðna og Hlyni að ég væri að hætta. Ég vissi ekki hvað ég ætti að segja. Vonandi skilja þeir þessa ákvörðun. Þetta er erfitt þegar þessi sjúkdómur sést ekki á manni, ég er ekki fótbrotin eða þannig."

Kvíðir fyrir sumrinu
Sísí er í lyfjagjöf við veikindunum og segir hún að þau hjálpi sér í daglegu lífi. Hún ætlar að halda áfram að hreyfa sig eitthvað þó hún spili ekki fótbolta áfram.

„Lyfin hjálpa mér rosalega og svo hugsa ég vel um mig. Ég vil halda áfram að hreyfa mig. Ég finn fyrir þreytu sem er eitt af einkennunum. Stundum er ég með verki í liðunum en það er eitthvað sem ég hef lært að lifa með. Kannski er ég með háan sársaukaþröskuld, ég veit það ekki, en ég hef lært að lifa með þessu," segir hún.

Sísí kvíðir fyrir sumrinu þegar fótboltinn fer á fullt hér á Íslandi, að það muni koma löngun að byrja aftur og fara þá gegn ráðleggingum sérfræðinga.

„Mig kvíðir fyrir sumrinu. Kannski finn ég eitthvað annað hlutverk innan fótboltans. Ég hef alveg hugsað það. Ég hef gaman af fótbolta og ég hef ótrúlega gaman að því að vinna með börnum og unglingum. Ég hef alltaf þjálfað með þegar ég hef verið að spila. Ég er reyndar ekki að þjálfa núna en hver veit hvað gerist. Það kemur alveg til greina."

Margt sem stendur upp úr
Sísí átti frábæran feril þar sem hún vann nokkra titla og spilaði fyrir landsliðið. Hvað er það sem stendur upp úr?

„Það er svo margt sem stendur upp úr," segir hún og á erfitt með það að velja eitt atriði. Hún segir svo:

„Það fyrsta sem kemur upp í hugann er 2017 þegar ÍBV varð bikarmeistari og þegar við fórum á EM með landsliðinu. Að komast upp í Pepsi-deildina með ÍBV 2010 og að komast upp með FH í fyrra. Svo var gaman að upplifa að verða Noregsmeistari með Lilleström, það var gaman að prófa það að vera erlendis þó svo að það hafi verið stuttur tími."

„Það var þvílíkur heiður að spila landsleiki, það var draumur frá að upplifa það. Að spila á stórmóti, ég mun seint gleyma því."

Hvað tekur svo við núna?

„Ég er að kenna, er umsjónarkennari í grunnskóla. Mér finnst það ótrúlega gaman. Ég er að mennta mig sem kennari og er að klára það."

„Ég er líka farin að sinna golfinu. Mér langar að fara meira í það. Ég er farin að hlaupa í hlaupahóp og er að gera ýmislegt. Ég er það ofvirk að ég get ekki gert ekki neitt. Ég er þannig týpa að ég get ekki horft endalaust á Netflix-þætti," sagði Sísí að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner