Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   þri 14. maí 2024 15:18
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Pokalfighter ársins á sínu besta tímabili - „Stærsta sem ég hef afrekað á ferlinum"
Bikarmeistari og bestur í úrslitaleiknum.
Bikarmeistari og bestur í úrslitaleiknum.
Mynd: Silkeborg
Þriðji titilinn í sögu Silkeborg.
Þriðji titilinn í sögu Silkeborg.
Mynd: EPA
Stefán glímdi við meiðsli fyrri part tímabilsins en sneri til baka og hefur ekki litið til baka síðan.
Stefán glímdi við meiðsli fyrri part tímabilsins en sneri til baka og hefur ekki litið til baka síðan.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Fékk góðan stuðning á úrslitaleiknum.
Fékk góðan stuðning á úrslitaleiknum.
Mynd: Arnór Sigurðsson
Þetta er 100% það stærsta sem ég hef afrekað á ferlinum
Þetta er 100% það stærsta sem ég hef afrekað á ferlinum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stemningsmynd eftir leik.
Stemningsmynd eftir leik.
Mynd: Arnór Sigurðsson
Það er ekki þannig að ég hafi sagt við sjálfan mig að ég ætti eitt ár eftir og að ég verði að gera eitthvað
Það er ekki þannig að ég hafi sagt við sjálfan mig að ég ætti eitt ár eftir og að ég verði að gera eitthvað
Mynd: Getty Images
Stefán Teitur Þórðarson varð í síðustu viku danskur bikarmeistari þegar lið hans, Silkeborg, lagði AGF að velli á Parken í Kaupmannahöfn.

„Þetta var auðvitað stressandi leikur, mikið undir hjá báðum liðum og bæði lið höfðu ekki unnið bikar í langan tíma. Þetta var nágrannaslagur sem setti auka krydd. Maður var svolítið stressaður fyrir leik. Þegar við komum á Parken keyrðum við þeim megin þar sem okkar stuðningsmenn voru að labba inn, stemningin var geggjuð og það kveikti svolítið í manni," sagði Stefán við Fótbolta.net.

Uppselt var á Parken og stemningin virkilega góð. Silkeborg vann leikinn 1-0 og kom eina löglega mark leiksins á 39. mínútu.

„Þetta eru nágrannalið, Silkeborg er litla liðið á þessu svæði, Mið-Jótlandi, Silkeborg er svona hálftíma frá Árósum. Það er smá rígur. Þetta var algjör 50-50 leikur, við höfum mætt þeim mikið upp á síðkastið og þetta hafa alltaf verið 50-50 leikir, endað með jafntefli eða eins marks sigri. Ég held að bæði lið hafi séð þetta sem stóran möguleika á að vinna bikar."

„Fyrst og fremst vorum við helvíti góðir varnarlega sem hefur kannski ekki verið okkar styrkleiki, en í þessum leik vorum við mjög góðir varnarlega. Við skorum eftir skyndisókn þar sem þeir tapa boltanum, ein sending fram á við í gegn og svo mark. Þetta var svo svolítið lokaður leikur alveg þar til á 80. mínútu. Þá fáum við tvö dauðafæri og svo markið mitt sem er síðan tekið af eftir skoðun í VAR."

„Mér fannst þetta sanngjarn sigur, við fengum betri færi til að komast í 2-0 heldur en þeir til að jafna í 1-1."

„Ég er búinn að horfa nokkrum sinnum á markið mitt aftur. Ég held að ég sé aðeins fyrir innan, ég treysti því bara að þeir sem eru að teikna línurnar séu með þetta rétt."


Geggjuð stemning á Parken
„Stemningin var trufluð, það var uppselt bara strax hjá báðum liðum. Ég held að AGF hafi fengið 22 þúsund miða og Silkeborg 12 þúsund miða. Það seldist bara strax upp og stemningin geggjuð."

Hvernig er upplifunin að spila á þessum stóra leikvangi, Parken, þar sem töluvert fleiri eru að styðja þitt lið en vanin er þegar liðið mætir FCK í útileik?

„Þetta var alveg geðveikt, eitthvað sem maður hefur ekki upplifað áður. Það er truflað að Silkeborg geti selt 12 þúsund miða á nokkrum klukkutímum, sturlað dæmi. Silkeborg fór í bikarúrslit 2018 og þá seldust 6 þúsund miðar. Að ná þessum fjölda er geggjað fyrir Silkeborg."

Mikil uppsveifla hjá Silkeborg
Er eitthvað sem útskýrir þennan mikla áhuga á leiknum og liðinu?

„Við höfum verið á mikilli uppsiglingu síðustu þrjú árin. Við byrjum á því að fara upp um deild, á fyrsta tímabili í Superliga vinnum við bronsið og erum tímabilið eftir það í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Svo núna í ár verðum við bikarmeistarar. Það er alltaf eitthvað skref upp á við. Það er sama hjá stuðningsmönnunum, hópurinn með hörðustu stuðningsmönnunum hefur stækkað rosalega mikið. Auðvitað spilar líka inn í að við vorum að spila á móti AGF. Að vinna þá var mjög sætt."

Það stærsta á ferlinum
Stefán var valinn maður leikins fyrir frammistöðu sína. Hvernig var tilfinningin inni á vellinum?

„Mér leið mjög vel inni á vellinum, sérstaklega í seinni hálfleik. Ég átti að skora þegar ég komst einn í gegn. Mér leið rosalega vel og er mjög stoltur og glaður yfir því að hafa verið valinn Pokalfighter ársins."

Stefán fékk bikar sem hann fær að vera með þangað til að næsti úrslitaleikur verður spilaður.

Er það að verða danskur bikarmeistari stærsta augnablikið á ferlinum?

„Þetta er 100% það stærsta sem ég hef afrekað á ferlinum, stærra en að spila í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Í 100 ára sögu félagsins hafði Silkeborg bara unnið tvo titla. Að vinna þriðja titilinn, að skrifa sig í söguna hjá félaginu, er auðvitað risastórt. Þetta er bara þessi eini leikur er svo risastór, það er allt öðruvísi heldur en þegar við náðum bronsinu í deildinni sem var unnið yfir heilt yfir tímabil."

Klárlega mitt besta tímabil
Hvernig horfir Stefán í heild sinni á tímabilið?

„Ég er mjög sáttur, finnst ég vera búinn að spila rosalega vel eftir að ég kom aftur. Eftir leikinn gegn Lyngby (skoraði þrennu) var ekkert horft til baka. Ég er búinn að skora fullt af mörkum, búinn að byrja alla leiki og verið risa partur af þessu. Ég er bara mjög sáttur.".

Stefán Teitur verður samningslaus í lok árs. Var hann mjög meðvitaður um mikilvægi þess að standa sig vel á þessu tímabili upp á framhaldið að gera?

„Nei, það var engin hugarfarsbreyting út frá því. Það bara vill svo til að ég er búinn að eiga mjög gott tímabil og búinn að skora fullt af mörkum. Það er ekki þannig að ég hafi sagt við sjálfan mig að ég ætti eitt ár eftir og að ég verði að gera eitthvað."

Silkeborg er í 6. sæti í Superliga, neðsta sæti meistaraumspilsins.

„Við erum ekki sáttir með það. Við vorum mjög sáttir við að komast í topp 6 riðilinn. Við lentum í ströggli á miðju tímabili þar sem við gátum ekki unnið leik, sama hvað. Við fórum í gegnum 14 leiki án þess að vinna. En þrátt fyrir það komumst við í topp 6. Við byrjuðum mótið það vel að það dugði til að komast í topp 6. Við erum mjög ánægðir að hafa komist þangað en það var klárlega kafli á tímabilinu þar sem við áttum að spila betur. Þar vantaði hjá liðinu að skora mörk."

Er þetta tímabil, sem fer senn að ljúka, besta tímabilið á ferlinum?

„Já 100%. Það er auðveldlega hægt að segja það. Ég er kominn með 10 mörk í deild og bikar og einhverjar stoðsendingar. Að vinna bikarinn og vera í topp 6, klárlega mitt besta tímabil," sagði Stefán Teitur.

Fjallað var um það fyrr í vetur að Stefán myndi ekki framlengja við félagið. Nánar var rætt við Stefán um framtíðarplönin í öðrum hluta viðtalsins sem verður birtur seinna í dag.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner