Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
   sun 14. júlí 2024 12:00
Ívan Guðjón Baldursson
Southgate: Trúi ekki á örlög en trúi á drauma
Southgate hefur verið við stjórnvölinn hjá Englandi í átta ár, allt síðan Strákarnir okkar slógu Englendinga úr leik á EM 2016.
Southgate hefur verið við stjórnvölinn hjá Englandi í átta ár, allt síðan Strákarnir okkar slógu Englendinga úr leik á EM 2016.
Mynd: EPA
Gareth Southgate svaraði spurningum á fréttamannafundi í gær fyrir úrslitaleik Evrópumótsins sem fer fram í kvöld, þegar England spilar við Spán á Ólympíuleikvanginum í Berlín.

Southgate er afar umdeildur sem landsliðsþjálfari Englands en árangurinn talar sínu máli og er hann eini landsliðsþjálfari karlaliðs Englands sem hefur tekist að stýra liðinu tvisvar sinnum í úrslitaleik á stórmóti. Þá er hann aðeins þriðji landsliðsþjálfari karla til að stýra liðinu í meira en 100 leikjum.

„Ég hef upplifað mikið af erfiðum kvöldum á mínum langa fótboltaferli og ég hef lært að munurinn á því að vinna og tapa er yfirleitt afskaplega lítill. Það er oft herslumunurinn sem skiptir sköpum, sérstaklega á þessu gæðastigi," sagði Southgate.

„Ég er stoltur að njóta þeirra forréttinda að þjálfa enska landsliðið og ég er ekki smeykur fyrir úrslitaleikinn annað kvöld. Ég hef upplifað alltof mikið á mínum ferli til að vera smeykur. Ég vil að leikmennirnir finni sömu tilfinningu og ég, þetta óttaleysi sem þarf til að spila sinn besta leik. Ég vil að þeir verði besta útgáfan af sjálfum sér annað kvöld.

„Ég er virkilega spenntur fyrir þessum úrslitaleik á frábærum leikvangi. Okkur hlakkar öllum mjög mikið til."


Southgate segir að sig dreymi um að sigra EM í Þýskalandi eftir að Þjóðverjar unnu EM á Englandi 1996.

„Ég trúi ekki á örlög en ég trúi á drauma og við erum með stóra drauma í þessu landsliði. En það er mikilvægt að láta draumana rætast. Fólk talar um að það séu örlögin okkar að sigra þetta mót eftir hvernig við erum búnir að fara í gegnum útsláttarkeppnina með mörkum seint í leikjum og vítaspyrnum, en það þýðir ekki neitt.

„Við þurfum að láta þetta rætast á morgun og við munum ekki sigra þennan leik án þess að vera uppá okkar besta."

Athugasemdir
banner
banner