Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   þri 14. desember 2021 17:38
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: Mín Skoðun 
Tóti Dan fer ófögrum orðum um þjálfara Fylkis og U21 árs landsliðsins
Þórhallur Dan þjálfaði Gróttu sumarið 2017.
Þórhallur Dan þjálfaði Gróttu sumarið 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dagur í leik með Breiðabliki í vetur.
Dagur í leik með Breiðabliki í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik með Fylki í sumar.
Úr leik með Fylki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Og U21 árs landsliðinu í haust.
Og U21 árs landsliðinu í haust.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í hlaðvarpsþættinum Mín Skoðun í gær var rætt um 5-1 sigur Breiðabliks á Víkingi í úrslitaleik Bose-bikarisns. Valtýr Björn Valtýsson er þáttarstjórnandi og hann ræddi við Þórhall Dan Jóhansson.

Þórhallur, eða Tóti Dan eins og hann er oftast kallaður, er faðir Dags Dans Þórhallssonar sem gekk í raðir Breiðabliks frá Fylki eftir að tímabilinu lauk í haust. Tóti fór ekki fögrum orðum um fyrrum þjálfara Fylkis, þá Ólaf Inga Stígsson og Atla Svein Þórarinsson. Þá gagnrýndi hann einnig þjálfara U21 árs landsliðsins.

Sögðu að Dagur gæti ekki neitt
„Ég hringdi í vini mína í Kópavoginum sem horfðu á leikinn. Þeir töluðu um að Breiðablik hefði verið „different class". Þeir hrósuðu syni þínum í hástert, þeir voru svo ánægðir með hann og sögðu kaupin á honum einhver þau bestu hjá Óskari Hrafni [Þorvaldssyni, þjálfari Breiðabliks]," sagði Valtýr.

„Takk fyrir þetta, gaman að heyra. Ég á nú vini og kunningja út um allt og á vini sem eru í kringum Fylki, kringum liðið og stuðningsmenn félagsins. Þegar hann fór í Breiðablik þá sagði þetta fólk að það væri gott að vera laus við hann [Dag], því hann gæti ekki neitt. Það kom mér ekki á óvart komandi frá Fylki, maður hefur upplifað tímana tvenna þar," sagði Tóti.

Reyndi að segja þeim að hann væri ekki kantmaður
„Í allt sumar sagði ég við þig að hann væri enginn vængmaður og þeir [þjálfarar Fylkis] spila honum út á væng í allt sumar. Svo kemur maður sem veit eitthvað um fótbolta, stillir honum upp á miðjunni og nú er ég farinn að þekkja son minn."

„Þó að hann sé sonur minn þá hefur hann tvisvar sinnum farið út á reynslu og í bæði skiptin verið keyptur sem miðjumaður. Ég reyndi eins og ég gat að segja þeim að hann væri ekki kantmaður."


„Enn einn þjálfarinn sem hefur ekki hundsvit á fótbolta"
„Svo í aðraganda að U21 leiknum gegn Portúgal er hann [Dagur] tekinn inn í hópinn og er síðan settur inn. Þeir setja hann í vængbakvörð. Ég ætla segja þetta hreint út, enn einn þjálfarinn sem hefur ekki hundsvit á fótbolta, ekki neitt. Það er svo fyndið af því að lið beggja þjálfarana voru að reyna fá hann í sín félög. Í næsta verkefni er hann svo ekki í hóp," segir Tóti og á þá væntanlega við að Leiknir Reykjavík og ÍBV hafi verið á eftir Degi. Hermann Hreiðarsson tók við ÍBV í haust og Davíð Snorri Jónasson er Leiknismaður.

Ekki nógu góður fyrir þá sem stjórna landsliðinu
„En það er svo sem ekkert nýtt fyrir hann. Hann var einn af tveimur leikmönnum U16 sem voru að spila með meistaraflokksliðum og þá var hann ekki nógu góður til að spila í byrjunarliðinu í sextán ára landsliðinu. Hann var samt nógu góður til að spila við fullorðna karlmenn. Hann var ekki nógu góður að mati þeirra sem stjórna í landsliðinu til að vera í byrjunarliðinu. Hann er ekki nógu góður til að vera í U21 landsliðinu, hefur ekki verið nógu góður til að vera í 30-40 manna hóp."

Hulin ráðgáta
„Síðan hef ég hitt tvo þjálfara í úrvalsdeildinni, sem báðir sögðu að þeir væru til í að fá Dag í sitt lið en skildu ekki hvernig mönnum dettur í hug að spila honum sem vængmanni. Annar sagði að það væri sér hulin ráðgáta hvernig Fylkismenn notuðu hann svona illa," sagði Tóti.

„Ég tek mikið mark á þessum stuðningsmönnum, þeir eru ekki blindir á sitt lið og svoleiðis. Þeir sögðu að hann var rosalega góður í leiknum," sagði Valtýr.

Hrósar Óskari í hástert
„Ég er ekki blindur á son minn vegna þess að í leikjum með Fylki í sumar var hann langt frá því að spila á getu, langt frá því. Ég skrifa það algjörlega á þjálfarateymið og hvar þeir settu hann. Svo horfi ég á hann núna, horfði á þessa þrjá leiki í Bose-bikarnum. Það þarf að hrósa Óskari líka fyrir þessa spilamennsku. Það er eitthvað annað gaman að horfa á þetta Blikalið. Það má ekki gleyma því að í leiknum gegn Víkingi vantaði Viktor Karl, Jason Daða og Árna Vill."

„Óskar Hrafn, mér finnst ótrúlega gaman að sjá hvað hann heldur sig við sína hugmyndafræði. Það vantaði fullt af leikmönnum en þeir voru samt frábærir. Hann er búinn að spotta leikmenn ótrúlega snemma."


Óskar hringdi í Tóta í sumar
„Svo ég uppljóstri því þá hringdi Óskar í mig á miðju sumri og þá var hann búinn að sjá að Dagur Dan gæti mögulega hjálpað Blikum eitthvað ef þetta færi á versta veg hjá Fylki. Ég og Óskar höfum þekkst frá því við vorum börn. Dagur Dan fékk aldrei að vita það en hann veit það þá núna. Svo þegar tímabilinu lauk þá fóru Blikar mjög fljótt í að taka Dag. Þetta er ógeðslega flott hjá þeim," sagði Tóti.
Athugasemdir
banner
banner
banner