„Mér líst bara frábærlega á hann," segir Júlíus Magnússon, leikmaður Elfsborg í Svíþjóð, um nýja landsliðsþjálfarann, Arnar Gunnlaugsson.
Júlíus þekkir Arnar vel efftir að hafa spilað undir stjórn í Víkingi í nokkur ár. Hann var einn af fyrstu leikmönnunum sem Arnar sótti í Víking og var einn af lykilmönnunum þegar Víkingar komust á toppinn í íslenskum fótbolta.
Júlíus þekkir Arnar vel efftir að hafa spilað undir stjórn í Víkingi í nokkur ár. Hann var einn af fyrstu leikmönnunum sem Arnar sótti í Víking og var einn af lykilmönnunum þegar Víkingar komust á toppinn í íslenskum fótbolta.
„Ég er fyrst og fremst virkilega ánægður fyrir Arnars hönd. Ég þekki hann vel persónulega og var auðvitað undir hans stjórn í fjögur ár, spilaði fullt af leikjum og var fyrirliði," segir Júlíus.
„Eftir að hafa verið partur af því og horft á það hvernig hann hefur tekið stjórn og haldið skipinu gangandi, þá er ég ótrúlega stoltur og ánægður fyrir hans hönd. Að sjálfsögðu er þetta líka mjög skemmtilegt, að landsliðið fái íslenskan þjálfara. Það breytir aðeins dínamíkinni og svoleiðis."
Heldurðu að hann verði góður landsliðsþjálfari?
„Já, ekki spurning. Ég er handviss um það. Maður hefur séð það hjá flestum landsliðsþjálfurum að þetta er alltaf ákveðinn öldugangur og það munu verða úrslit sem falla ekki með okkur, en þá er bara spurning hvernig hann tæklar það. Hann mun tækla það með sinni langbestu ró. Það hvernig hann tæklar mótlæti hefur alltaf verið hárrétt, hvernig hann kemur fram í viðtölum og verndar leikmennina sína eða hendir þeim undir rútuna; hann gerir það á réttan hátt. Ég held að hann muni tækla þetta mjög vel."
Það væri ólýsanlega gaman
Júlíus hefur verið hluti af síðustu landsliðshópum og vonast til að endurnýja kynnin við Arnar, spila aftur undir hans stjórn.
„Það er klárlega markmiðið hjá mér, að reyna að gera það. Engin spurning. Það væri ólýsanlega gaman ef verður að því. En ég geri mér líka alveg grein fyrir því að margir leikmenn í landsliðinu eru að spila í topp fimm deildum í heiminum. Maður er enn í stöðugri vinnu að vinna sér inn það traust til að spila með landsliðinu eða vera í hópnum," segir hann.
„Ég hef verið ótrúlega þakklátur fyrir það að vera í hópnum upp á síðkastið því ég hef verið að spila í Noregi og það er ekki sjálfgefið að leikmenn þar fái að vera í landsliðshópnum hjá Íslandi."
Júlíus skipti nýverið yfir til Elfsborg og var þangað keyptur á háa upphæð. Hann segist auðvitað vera að hugsa um landsliðið þegar hann tekur þetta skref.
„Auðvitað hefur landsliðið eitthvað með það að gera að ég tek þetta skref, að reyna að komast nær því. Ég vil komast í séns á að spila og ef ekki, vera í hópnum. Það er klárlega markmiðið hjá mér, að vera nálægt landsliðinu."
Það eru gríðarlega spennandi tímar framundan hjá íslenska landsliðinu. Á þessu ári fer liðið inn í undankeppni HM 2026 en það mót verður líklega það stærsta í sögunni; það fer fram í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó.
Athugasemdir