Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   mið 17. ágúst 2022 08:20
Ívan Guðjón Baldursson
Þjálfari Marokkó rekinn þremur mánuðum fyrir HM
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images

Vedad Halilhodzic er búinn að semja við marokkóska knattspyrnusambandið um starfslok aðeins þremur mánuðum fyrir HM í Katar.


Marokkóska knattspyrnusambandið segir að ákvörðunin hafi verið tekin vegna ágreinings um hvernig væri best að undirbúa landsliðið fyrir lokamótið. Halilhodzic var ósáttur með ákvörðun knattspyrnusambandsins og sömdu aðilar um starfslok.

Halilhodzic er 69 ára gamall og tók við stjórn landsliðsins fyrir þremur árum. Hann kom Marokkó í 8-liða úrslit Afríkukeppninnar í ár og tryggði svo sæti á HM með samanlögðum 5-2 sigri eftir umspilsleiki við Austur-Kongó.

Brottför Halilhodzic opnar dyrnar fyrir endurkomu Hakim Ziyech í marokkóska landsliðið en þeir tveir áttu í opinberum útistöðum sem endaði með því að Ziyech hætti að spila fyrir landsliðið.

Fouzi Lekjaa, forseti knattspyrnusambandsins í Marokkó, sagði í viðtali fyrr í sumar að Ziyech yrði í landsliðshópinum fyrir HM. Það er almennt talið að þetta sé ágreiningurinn sem um ræðir - Halilhodzic geti ekki starfað lengur útaf endurkomu Ziyech og knattspyrnusambandið metur leikmanninn sem mikilvægari heldur en þjálfarann.

Marokkó er í F-riðli með Króatíu, Belgíu og Kanada en þetta er í þriðja sinn sem Halilhodzic er rekinn frá landsliði sem hann hjálpaði að komast á HM.

Þetta gerðist líka með Fílabeinsströndinni 2010 og Japan 2018 þar sem hann var rekinn eftir að hafa komið þjóðunum á HM. Hann var rekinn frá Fílabeinsströndinni fyrir slæma frammistöðu í Afríkukeppninni nokkrum mánuðum fyrir HM og svo frá Japan vegna meintra 'samskiptaörðugleika'.

Halilhodzic kom Alsír á HM 2014 og stóð sig með stakri prýði. Liðið komst upp úr riðli og tapaði fyrir Þýskalandi í 16-liða úrslitum. Þjóðverjar þurftu framlengingu til að slá Alsíringa út og enduðu á því að vinna mótið sem haldið var í Brasilíu.

Ziyech er ekki eini leikmaðurinn sem Halilhodzic átti í ágreiningi við, heldur einnig Noussair Mazraoui sem gekk í raðir FC Bayern í sumar. 

Búist er sterklega við því að Walid Regragui muni taka við landsliðinu eftir að hafa stýrt Wydad Casablanca til sigurs í asísku Meistaradeildinni.


Athugasemdir
banner
banner
banner