Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 17. nóvember 2020 20:00
Ívan Guðjón Baldursson
Kosið um fimm skiptingar í Championship
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ákvörðun ensku deildanna um að leyfa ekki fimm skiptingar á nýju tímabili hefur verið gagnrýnd harðlega og eru breytingar framundan í Championship deildinni.

The Athletic og Telegraph greina frá því að félög í Championship muni fá að nota fimm skiptingar í stað þriggja í hverjum leik út tímabilið. Fimm skiptingar voru settar á síðustu leiktíð vegna Covid-19 en kosið var að breyta aftur í þrjár skiptingar fyrir nýtt tímabil. Stjórnendur félaga í Championship hafa margir skipt um skoðun síðan þá og vilja núna hafa fimm skiptingar.

Það hefur verið mikið af meiðslum á nýju tímabili enda hefur leikjaálagið aldrei verið meira í knattspyrnusögunni. Lið þurfa fimm skiptingar til að verja leikmenn frá óþarfa meiðslum.

Kosið verður um að breyta aftur í fimm skiptingar eftir helgi og mun reglubreytingin væntanlega taka gildi fyrir föstudaginn 27. nóvember.

Skiptingarnar eru ekki einu breytingarnar sem eru fyrirhugaðar í Championship, heldur vilja félög einnig stækka leikmannahópa á leikdegi upp í 20 leikmenn. Þá yrðu níu leikmenn á bekknum í stað sjö.

The Athletic greinir frá því að úrvalsdeildin gæti tekið svipaða ákvörðun þar sem stjórnendur ýmissa félaga þar hafa einnig skipt um skoðun og vilja fimm skiptingar í stað þriggja. Það er þó talið ólíklegt að úrvalsdeildarfélög samþykki þessa reglubreytingu í kosningum, þar sem alltof margir stjórnendur telja enn betra að halda sig við þrjár skiptingar.

C- og D-deildirnar munu líklegast feta í fótspor Championship og breyta í fimm skiptingar. Allar helstu deildir Evrópu leyfa fimm skiptingar út tímabilið.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner