lau 18. maí 2019 22:25
Ívan Guðjón Baldursson
Ranieri: Ekkert gengið upp á tímabilinu
Mynd: Getty Images
Claudio Ranieri á aðeins einn leik eftir við stjórnvölinn hjá AS Roma áður en tímabundinn samningur hans við félagið rennur út.

Litlar sem engar líkur eru á því að Ranieri haldi áfram við stjórnvölinn og hafa ýmsir þjálfarar verið orðaðir við starfið að undanförnu. Jose Mourinho og Antonio Conte eru þeirra á meðal, en líkurnar á að landa Mourinho lækkuðu umtalsvert í dag.

Mourinho er talinn vilja taka við félaginu ef það kemst í Meistaradeildina en það eru ansi litlar líkur á að það takist eftir markalaust jafntefli við Sassuolo í dag.

„Þetta er synd, við gerðum okkar besta en náðum ekki að skora. Ég gat ekki beðið um meira frá strákunum, það hefur ekkert gengið upp hjá Roma á tímabilinu," sagði Ranieri eftir jafnteflið.

Stuðningsmenn eru ósáttir með stjórn Roma og sérstaklega eigandann, James Pallotta. Mikil mótmæli hafa verið gegn honum að undanförnu og var leikurinn gegn Sassuolo engin undantekning.

Stuðningsmenn Roma köstuðu reyksprengjum inn á völlinn svo stöðva þurfti leikinn. „Pallotta, borgaðu sektina!" sungu stuðningsmenn Roma.

Þá var Daniele De Rossi, sem er að klára glæsilegan feril hjá Roma, ónotaður varamaður og kvörtuðu stuðningsmenn undan því.

„Hann átti aldrei að spila í kvöld. Ég er að hvíla hann fyrir næsta sunnudag. Öllum stuðningsmönnum er boðið í kveðjupartýið."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner