
Alexander Rafn Pálmason, sem fagnaði 15 ára afmæli sínu fyrr í þessum mánuði, skoraði tvennu er KR slátraði KÁ, 11-0, í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins á KR-vellinum í dag. Adam Ægir Pálsson skoraði þá fyrir Val sem vann Grindavík, 3-1, á gervigrasinu við Nettó-höllina.
Það var alger einstefna hjá KR frá fyrstu mínútu. Fyrirliðinn Aron Sigurðarson skoraði úr aukaspyrnu á 6. mínútu og tvöfaldaði Guðmundur Andri Tryggvason forystuna níu mínútum síðar í endurkomu sinni með KR-ingum.
Næst var röðin komin að Alexander. Hann skoraði sitt fyrsta mark í keppnisleik með KR-ingum á 32. mínútu í fyrstu snertingu eftir fasta fyrirgjöf og svo kom sjálfsmark.
Aron Sig gerði fimmta markið áður en hálfleikurinn var úti og héldu KR-ingar áfram að raða inn í þeim síðari.
Luke Rae og Eiður Gauti Sæbjörnsson skoruðu með stuttu millibili og þá gerði Róbert Elís Hlynsson tvö mörk á sex mínútum. Sannkölluð markaveisla í Vesturbæ en henni var ekki lokið.
Alexander skoraði sitt annað mark á 80. mínútu eftir að varnarmaður KÁ reyndi að sóla hann. Alexander gerði vel, vann boltann og skoraði með laglegri afgreiðslu áður en hinn 15 ára gamli Sigurður Breki Kárason rak síðasta naglann í kistu KÁ.
Adam Ægir skoraði í endurkomunni
Valur vann Grindavík, 3-1, á gervigrasinu við Nettó-höllina í Keflavík.
Marius Lundemo skoraði eftir hornspyrnu á 20. mínútu en Adam Árni Róbertsson náði að jafna fyrir heimamenn þegar lítið var eftir af hálfleiknum. Sindri Þór Guðmundsson kom boltanum fyrir á Adam Árna sem setti hann í netið af stuttu færi.
Valsarar byrjuðu síðari hálfleikinn á því að skora. Markus Lund Nakkim potaði honum í markið eftir aukaspyrnu frá vinstri.
Adam Ægir Pálsson kom aftur heim í Val eftir að hafa spilað með Novara og Perugia á Ítalíu. Hann kom inn af bekknum á 72. mínútu og skoraði sex mínútum síðar.
Góður sigur Vals sem er kominn áfram í 16-liða úrslit en Grindavík úr leik.
KR 11 - 0 KÁ
1-0 Aron Sigurðarson ('6 )
2-0 Guðmundur Andri Tryggvason ('15 )
3-0 Alexander Rafn Pálmason ('32 )
4-0 Sjálfsmark ('34 )
5-0 Aron Sigurðarson ('41 )
6-0 Luke Morgan Conrad Rae ('54 )
7-0 Eiður Gauti Sæbjörnsson ('57 )
8-0 Róbert Elís Hlynsson ('67 )
9-0 Róbert Elís Hlynsson ('73 )
10-0 Alexander Rafn Pálmason ('80 )
11-0 Sigurður Breki Kárason ('87 )
Lestu um leikinn
Grindavík 1 - 3 Valur
0-1 Marius Lundemo ('20 )
1-1 Adam Árni Róbertsson ('45 )
1-2 Markus Lund Nakkim ('49 )
1-3 Adam Ægir Pálsson ('78 )
Lestu um leikinn
Athugasemdir