Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   sun 19. september 2021 14:57
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
England: Lingard úr skúrk í hetju - De Gea varði víti!
Alvöru dramatík í London!
Alvöru dramatík í London!
Mynd: Getty Images
David de Gea varði víti. Ekki oft sem hann gerir það.
David de Gea varði víti. Ekki oft sem hann gerir það.
Mynd: EPA
Shane Duffy og félagar í Brighton fara vel af stað.
Shane Duffy og félagar í Brighton fara vel af stað.
Mynd: Getty Images
Jesse Lingard var skúrkur hjá Manchester United er liðið tapaði fyrir Young Boys í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar í síðustu viku.

Lingard átti skelfilega sendingu til baka og færði Young Boys sigurinn á silfurfati.

Í dag kom hann aftur inn á sem varamaður, er United mætti hans gamla félagi, West Ham. Lingard var á láni hjá West Ham á síðustu leiktíð og var magnaður er liðið tryggði sér sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Man Utd ákvað að selja Lingard ekki í sumar og var hann hetjan gegn sínum gömlu félögum í dag.

West Ham byrjaði vel og skoraði Said Benrahma eftir hálftíma leik er hann átt skot sem fór af varnarmanni og inn. United svaraði því frábærlega. Cristiano Ronaldo jafnaði fimm mínútum síðar. Hann er búinn að skora í fyrstu þremur leikjum sínum fyrir Man Utd eftir félagaskiptin frá Juventus.

Þetta var hörkuleikur. West Ham er sýnd veiði en ekki gefin, svo sannarlega. Lingard kom inn á sem varamaður á 73. mínútu og stundarfjórðungi síðar skoraði hann glæsilegt mark. Það reyndist sigurmarkið í leiknum.

West Ham fékk dauðafæri til að jafna metin áður en flautað var til leiksloka. Heimamenn fengu vítaspyrnu er boltinn fór í höndina á Luke Shaw í uppbótartímanum. Þá birtist önnur frekar óvænt hetja, ef svo má segja; David de Gea. Sá spænski er nú ekki þekktur fyrir að verja vítaspyrnur, alls ekki. En honum tókst að verja vítaspyrnuna frá Mark Noble og bjarga sigrinum.

Ótrúleg dramatík undir lokin en Man Utd tókst að landa sigrinum, 1-2. United er í öðru sæti deildarinnar með 13 stig eftir fimm leiki. West Ham er í áttunda sæti með átta stig.

Brighton með mjög öflugan sigur
Í hinum leiknum sem var að klárast núna, þá vann Brighton mjög öflugan sigur gegn Leicester.

Brighton er að byrja þetta tímabil mjög vel. Í fyrra áttu þeir í vandræðum með að klára færin, en það gengur aðeins betur núna hjá þeim.

Neal Maupay kom Brighton yfir úr víti á 35. mínútu og var staðan 1-0 í hálfleik. Danny Welbeck bætti svo við marki á 50. mínútu áður en Jamie Vardy minnkaði muninn.

Lengra komst þó Leicester ekki og lokatölur 2-1. Þetta var hörkuleikur og ekki mikið sem skildi liðin að. Brighton er í þriðja sæti með 12 stig og Leicester í 12. sæti með sex stig.

Brighton 2 - 1 Leicester City
1-0 Neal Maupay ('35 , víti)
2-0 Danny Welbeck ('50 )
2-1 Jamie Vardy ('61 )

West Ham 1 - 2 Manchester Utd
1-0 Said Benrahma ('30 )
1-1 Cristiano Ronaldo ('35 )
1-2 Jesse Lingard ('89 )
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner