Aron Bjarnason var keyptur til Breiðabliks frá sænska félaginu Sirius fyrir tímabilið 2024. Aron, sem er 29 ára kantmaður, var talsvert gagnrýndur fyrir sína frammistöðu á sínu tímabili. Hann var fastamaður í byrjunarliði Breiðabliks en þótti ekki gera nægilega mikið í sóknarleik liðsins, kom ekki að nægilega mörgum mörkum. Aron skoraði sex mörk og lagði samkvæmt Transfermarkt upp fjögur í deildinni á síðasta tímabili.
Halldór Árnason, þjálfari Íslandsmeistaranna, var til viðtals í Chess After Dark á dögunum og ræddi um Aron.
Halldór Árnason, þjálfari Íslandsmeistaranna, var til viðtals í Chess After Dark á dögunum og ræddi um Aron.
„Menn nota stundum tölfræði þegar það hentar og stundum ekki. Það var leikmaður í mínu liði sem átti risastóran þátt í að við unnum titilinn; spilaði alla leiki nema einn, byrjaði alltaf inn á og var einn af okkar allra mikilvægustu leikmönnum. Hann var frá fyrstu umferð í topp 10 í allri tölfræði í deildinni. Liðin eru með aðgengi að Wyscout en það er mjög dýrt og eðlilega hafa fjölmiðlamenn kannski ekki efni á því, en á Fotmob og Sofascore (vefsíður og smáforrit) er hægt að sjá lista yfir leikmenn sem skora hátt í allri tölfræði. Þessar veitur gefa þeir einkunn fyrir hvern leik út frá því sem þú gerir í leiknum. Það er allt metið sem þú gerir í leiknum. Hann er topp 10 leikmaður í deildinni í öllum gögnum í gegnum 27 leiki í deildinni. Samt var umræðan alltaf að hann væri ekki nógu góður, gæti gert meira."
„Ef við eigum Aron Bjarnason inni... jújú, hann hefði getað skorað tvö í viðbót og lagt upp tvö í viðbót, en hann var algjörlega frábær. Allt sem við horfðum á fengum við frá honum. Gagnrýnendur notuðu þessa tölfræðiveitu til að bakka upp einhverjar skoðanir, en ekki þessa af því það hentaði ekki. Þarna er allt mælt, engar tilviljanir. Ofan á þetta er svo tölfræði sem engin sér, hlaupatölurnar, ég hef aldrei séð svona."
„Aron á skilið þvílíkt hrós fyrir þetta tímabil, hann var frábær fyrir okkur," sagði Dóri. Hér að neðan má sjá einkunnagjafir á Sofascore og Fotmob þar sem reiknuð er meðaleinkunn leikmanna. Gylfi Þór Sigurðsson var í efsta sæti á báðum veitum.
Athugasemdir