Zubimendi til Real frekar en Arsenal? - Bundesliga leikmenn á blaði Man Utd - Alvarez ekki til sölu
banner
   fös 21. mars 2025 17:14
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Nikolaj Hansen missir af byrjun mótsins - Jón Guðni í meðferð á hné
Danski framherjinn missir af byrjun mótsins.
Danski framherjinn missir af byrjun mótsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Þór var keyptur frá HK.
Atli Þór var keyptur frá HK.
Mynd: Víkingur
Jón Guðni Fjóluson.
Jón Guðni Fjóluson.
Mynd: Víkingur
Nikolaj Hansen, fyrirliði Víkings, tognaði aftan í læri í sigri Víkings gegn Grindavík á miðvikudag. Liðin spiluðu þá æfingaleik og meiddist Nikolaj eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Jón Guðni Fjóluson verður þá eitthvað frá eftir að hafa farið í aðgerð á hné, en óvíst er hversu alvarleg þau meiðsli eru.

Fótbolti.net ræddi við Sölva Geir Ottesen, þjálfara Víkings, í dag.

„Hann fær aðeins í lærið í leiknum, er að berjast um boltann og fær smá slink aftan í lærið. Það jákvæða við þetta er að þetta er frekar neðarlega í lærinu, þannig batinn ætti að vera fljótir, en við búumst við allavega við 3-4 vikum í burtu," segir Sölvi. Nikolaj verður þá frá allavega fram í miðjan næsta mánuði.

Víkingur mætir ÍBV í fyrstu umferð Bestu deildarinnar 7. apríl, KA 13. apríl og Aftureldingu 24. apríl. Víkingur keypti annan framherja í vetur, Atla Þór Jónasson, og er hann að komast í gang eftir að hafa glímt við meiðsli.

„Atli er búinn að æfa rosalega vel, kom inn í seinni partinn af æfingaferðinni, við skiptum hópnum upp úti og spiluðum leik þar sem hann spilaði allan tímann. Hann er orðinn heill heilsu og byrjaður að geta æft á fullu. Hann vissulega var aðeins eftir á í undirbúningnum út af meiðslunum, en er að vinna sig til baka og er búinn að líta vel út á æfingu. Það var líka margt jákvætt hjá honum í leiknum gegn Grindavík, hann vantar aðeins upp á leikform, en þetta lítur mjög vel út eins og staðan er núna."

Ekki séns að Pálmi verði lánaður
Það vakti athygli gegn Grindavík að Pálmi Rafn Arinbjörnsson var ekki í leikmannahópnum gegn Grindavík. Er einhver möguleiki að hann verði lánaður?

„Nei, það er enginn möguleiki á því. Pálmi er markmaður númer tvö eins og stendur, er að veita Ingvari harða samkeppni og það er eitthvað sem við þurfum að hafa. Það þarf að vera góð samkeppni í markmannstöðunni. Pálmi er hrikalega öflugur markmaður. Hann var með tak í bakinu, þess vegna var hann ekki með í hópnum síðast."

Óvíst hvenær Jón Guðni snýr aftur
Sölvi sagði að Róbert Orri Þorkelsson og Nonni, eins og Jón Guðni er kallaður, væru líka að glíma við meiðsli. Pablo Punyed er þá að koma til baka eftir krossbandsslit.

„Nonni er aðeins frá núna líka út af hnjánum á sér, það var aðeins grúskað í þeim og reynt að koma þeim í lag. Það er óvíst hvað hann verður lengi frá, hann þarf allavega að hvíla í smá tíma og svo verður kíkt aftur á hnéð á honum. Hann var sárþjáður undir lokin á síðasta tímabili og nú í byrjun þessa tímabils. Það er ekki hægt að bjóða manni upp á að ganga með þennan sársauka dag eftir dag, það kemur niður á andlegri heilsu og lífsgæðum. Hann þarf að ná sér, hvíla hnéð í smá stund og sjá til hvort þessi meðferð á hnénu gangi ekki bara upp. Við vonum að hann komi sterkari til baka."

„Róbert Orri er að jafna sig á tognun aftan í læri, leiðinleg tognun. Hann er kominn aftur inn á völlinn með okkur, þetta er ferli sem hann þarf að ganga í gegnum núna. Það er alveg smá í að hann verði leikfær,"
segir Sölvi.

Fram að móti á Víkingur æfingaleik um helgina og svo leik gegn KR sem er úrslitaleikur Bose-mótsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner