Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   fös 21. júlí 2023 12:51
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðar Ari sterklega orðaður við Fram - „Mátt finna þennan vin"
Viðar Ari Jónsson.
Viðar Ari Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Ari Jónsson hefur verið að æfa með Fram upp á síðkastið og hafa heyrst sögur af því að hann muni semja við félagið; það eru háværar sögusagnir um að það muni gerast.

Viðar Ari er núna í leit að nýju félagi eftir að hafa yfirgefið ungverska félagið Honved fyrir stuttu. Viðar er 29 ára gamall vængmaður sem á að baki sjö leiki fyrir landsliðið.

Fótbolti.net hafði samband við Agnar Þór Hilmarsson, formann knattspyrnudeildar Fram, í dag og var hann spurður út í Viðar. „Hann er búinn að vera að halda sér í formi og ég held að hann sé með eitthvað á borðinu erlendis frá," sagði Agnar.

„Hann hefur fengið að taka æfingar hjá okkur, en ég held að hann sé á leiðinni aftur út. Hann er ekki fluttur heim eða neitt þannig."

Sögur eru á kreiki um að stuðningsmaður Fram, vinur Viðars, muni borga laun leikmannsins ef hann semur við félagið. En samkvæmt heimildum Fótbolta.net þá getur verið að hann klári ekki tímabilið ef hann semur og fari aftur erlendis ef gott tilboð kemur.

„Þú mátt finna þennan vin og biðja hann um að hringja í mig," sagði Agnar léttur þegar hann var spurður út í sögusagnirnar.

Fram er sem stendur í tíunda sæti Bestu deildarinnar og í harðri fallbaráttu. Félagaskiptaglugginn er opinn og félagið er að skoða sín mál. „Við höfum kíkt á eitthvað en það er ekki neitt á borðinu sem við erum að sækja fast á eftir. Ef eitthvað gerist, eitthvað sem okkur líst á, þá gæti það gerst. Það er ekkert lokað."
Athugasemdir
banner
banner
banner