U21 árs landsliðsmarkvörðurinn Lúkas Petersson verður einn af þremur markvörðum aðalliðs þýska félagsins Hoffenheim á komandi tímabili.
Lúkas er tvítugur og uppalinn hjá Hoffenheim en hann hefur spilað með yngri flokkum félagsins síðustu ár.
Á síðasta tímabili spilaði hann með varaliði Hoffenheim í neðri deildunum en hann hefur nú verið færður alfarið upp í aðalliðið og verður einn af þremur markvörðum liðsins fyrir tímabilið.
Í lok maí framlengdi Lúkas samning sinn við Hoffenheim til ársins 2027 og eru miklar vonir bundnar við þennan efnilega markvörð.
Á dögunum spilaði hann hálfleik í 7-1 sigri liðsins á Astoria Walldorf í æfingaleik og mun væntanlega koma meira við sögu á þessu undirbúningstímabili.
Oliver Baumann verður áfram aðalmarkvörður liðsins og þá er Luca Philipp einnig í þessu þriggja manna markvarðarteymi.
„Lúksi er ótrúlega hæfileikaríkur markvörður sem getur haldið áfram að vaxa. Hann hefur æft reglulega með okkur í langan tíma og komið mjög vel fyrir. Hann verður okkar nýi þriðji markvörður og mun auðvitað leika fá mikilvæga leikreynslu í keppnisleikjum með varaliðinu,“ sagði Pirmin Schwegler, yfirmaður fótboltamála hjá Hoffenheim, um Lúkas.
Eins og Schwegler kom inn á mun Lúkas spila mest með varaliðinu í D-deildinni í Þýskalandi, en það er aldrei að vita nema hann fái tækifæri í einhverjum leikjum með aðalliðinu á tímabilinu.
Athugasemdir