Annað kvöld hefst ný undankeppni hjá karlalandsliðinu í fótbolta. Strax í fyrsta leik er mikið undir þar sem við sækjum Bosníu heim í Senica.
Um er að ræða gríðarlega mikilvæga leik þar sem talið er að Bosnía verði í baráttu við okkar menn og Slóvakíu um annað sætið í riðlinum. Það sæti gefur þátttökurétt í lokakeppni Evrópumótsins en Ísland hefur núna misst af síðustu tveimur stórmótum.
Fótbolti.net fékk fimm álitsgjafa til að rýna í leikinn gegn Bosníu en það eru nokkrar spurningar sem vakna fyrir þann leik, sem og fyrir undankeppnina sem er framundan. Eigum við ekki að gera kröfu á liðið að komast á þetta mót miðað við riðilinn sem við erum í?
Hér fyrir neðan má sjá svör álitsgjafana við spurningunum sem voru lagðar fyrir þá.
Um er að ræða gríðarlega mikilvæga leik þar sem talið er að Bosnía verði í baráttu við okkar menn og Slóvakíu um annað sætið í riðlinum. Það sæti gefur þátttökurétt í lokakeppni Evrópumótsins en Ísland hefur núna misst af síðustu tveimur stórmótum.
Fótbolti.net fékk fimm álitsgjafa til að rýna í leikinn gegn Bosníu en það eru nokkrar spurningar sem vakna fyrir þann leik, sem og fyrir undankeppnina sem er framundan. Eigum við ekki að gera kröfu á liðið að komast á þetta mót miðað við riðilinn sem við erum í?
Hér fyrir neðan má sjá svör álitsgjafana við spurningunum sem voru lagðar fyrir þá.
Einar Guðnason, fyrrum aðstoðarþjálfari Víkings
Hefðir þú haft hópinn öðruvísi í þessu verkefni?
Úr því sem komið var þá er ég hissa á að hægri fótar hafsent hafi ekki verið kallaður inn eftir að Sverrir meiddist. En svona fyrirfram miðað við fréttaflutning varðandi vallaraðstæður og fleira í Bosníu og þau slagsmál sem við erum að fara í þá bjóst ég alveg eins við að Axel Óskar Andrésson yrði í hópnum. Það er maður sem tapar ekki skallaeinvígi og elskar slagsmál. En annars líst mér vel á hópinn og býst við góðum úrslitum.
Hvernig vilt þú sjá liðið á móti Bosníu?
Við erum í smá veseni með hafsenta eftir að Sverrir meiddist. Mér finnst líklega að þeir leysi það með því að setja Guðlaug Viktor í hafsent með Herði. Ég sé ekki fyrir mér að tveir örvfættir muni mynda hafsenta parið þannig að Gulli verður settur niður en ég hef fulla trú á honum þar. Stór, sterkur, fljótur og fínn á boltann. Nokkurn vegin týpan sem Arnar vill hafa í miðri vörninni. Ég sé Aron Elís fyrir mér í 6u hlutverkinu á miðjunni. Hann er stór og sterkur eins og pabbi sinn og farinn að elska það að verjast auk þess sem hann les leikinn vel og er góður í að stjórna spili. Hann er líka vel hungraður eftir lítinn spiltíma undanfarið hjá OB og er ólmur í að sanna sig og vekja áhuga félaga á sér fyrir sumargluggann. Aðrar stöður velja sig sjálfar, Arnór Sig hefur verið frábær með Norrköping eftir að hann kom aftur þangað og ég sé fyrir mér að Jóhann Berg spili inn á miðjunni eins og hann hefur verið að gera hjá Burnley.
Rúnar Alex
Alfons - Guðlaugur Victor - Hörður Björgvin- Davíð Kristján
Arnór Sig - Jóhann Berg - Aron Elís - Hákon - Jón Dagur
Alfreð
Við hverju má búast á móti Bosníu?
Ég held að þetta verði lokaður leikur, gríðarleg barátta og kannski ekkert augnakonfekt en að Ísland muni vera meira með boltann og vinni leikinn 2-1.
Hver er lykillinn að því að ná í hagstæð úrslit?
Lykilinn að góðum úrslitum er agaður og þéttur varnarleikur. Það er sérstaklega mikilvægt þegar að skörð hafa verið hoggin í hrygginn á liðinu. Að pressumómentin verði vel valin, samrýmd og efektív og að við höfum betur í föstum leikatriðum bæði varnar- og sóknarlega. Þetta er týpískur leikur sem ræðst á föstum leikatriðum.
Hvað eigum við að gera kröfu á í þessum riðli?
Kröfurnar sem við eigum að gera fyrir þennan riðil er annað sætið. Það finnst mér raunhæft markmið sem við ættum allan tímann að stefna á.
Ingólfur Sigurðsson, yngri flokka þjálfari og sérfræðingur í Innkastinu
Hefðir þú haft hópinn öðruvísi í þessu verkefni?
Það hefði verið gaman að sjá ungan mann að nafni Albert Guðmundsson í hópnum. Hann er að gera flotta hluti með Genoa á Ítalíu. Ég hvet landsliðsþjálfarann til að fylgjast aðeins með honum. Eins hefði ég viljað sjá Dag Dan í hópnum.
Hvernig vilt þú sjá liðið á móti Bosníu?
Rúnar Alex
Guðlaugur Victor - Daníel Leó - Hörður Björgvin - Davíð Kristján
Arnór Sig - Jói Berg - Arnór Ingvi - Hákon Arnar - Jón Dagur
Alfreð
Við hverju má búast á móti Bosníu?
Svo ég vitni í Arnar Gunnlaugsson þá býst ég við að íslenska liðið þurfi að „suffera“ stóran hluta leiksins. Þetta verður baráttuleikur sem mun ráðast á smáatriðum.
Hver er lykillinn að því að ná í hagstæð úrslit?
Gefa fá færi á sér.
Hvað eigum við að gera kröfu á í þessum riðli?
Að fara þráðbeint upp úr honum. Arnar Þór er búinn að vera með liðið í uppbyggingu í þrjú ár og nú er kominn tími til að sækja úrslit. Allt annað en að minnsta kosti fjögur stig í þessum glugga er óásættanlegt.
Óðinn Svan Óðinsson, íþróttafréttamaður á RÚV
Hefðir þú haft hópinn öðruvísi í þessu verkefni?
Ég hefði alltaf fundið lausn á þessu máli með Albert. Við eigum ekki efni á því að hafa jafn hæfileikaríkan leikmann og Albert Guðmundsson ekki í hóp. Svo bjóst ég við að sjá Willum þarna.
Hvernig vilt þú sjá liðið á móti Bosníu?
Rúnar Alex
Alfons - Guðlaugur Victor - Hörður Björgvin - Davíð Kristján
Arnór Sig - Jóhann Berg - Þórir Jóhann - Hákon - Jón Dagur
Alfreð
Við hverju má búast á móti Bosníu?
Reikna með drep leiðinlegum leik. Stöðubarátta, hlaup og djöfulgangur. Annað liðið vinnur 1-0.
Hver er lykillinn að því að ná í hagstæð úrslit?
Eins mikil klisja og það er þá þurfum við bara mæta þeim í baráttu. Hlaupa meira, hoppa hærra og slást meira.
Hvað eigum við að gera kröfu á í þessum riðli?
Allt annað en annað sætið í þessum riðli er skandall.
Runólfur Trausti Þórhallsson, markvarðaþjálfari og íþróttafréttamaður á Vísi
Hefðir þú haft hópinn öðruvísi í þessu verkefni?
Ég hefði haft Albert Guðmundsson í þessum hóp, svo einfalt er það. Svo þykir mér spes hversu fáir miðverðir eru í hópnum þar sem Aron Einar er í banni í fyrri leiknum. Eflaust er þjálfarateymið að horfa í Guðlaug Victor eingöngu sem miðvörð í þessu verkefni en miðað við samsetningu hópsins hefði ég haldið að hann myndi henta betur sem miðjumaður í þessu verkefni. Persónulega hefði ég tekið Hjört Hermannsson inn á kostnað miðjumanns, sérstaklega eftir að Sverrir Ingi datt út.
Hvernig vilt þú sjá liðið á móti Bosníu?
Fyrir mér verður að horfa í að liðið spilar tvo leiki á mjög stuttum tíma og seinni leikurinn er gegn liði sem - ef við erum hreinskilin - getur ekki neitt.
Ég væri til í að sjá okkur spila með tvo sitjandi miðjumenn og einn fyrir framan í fyrri leiknum. Liðið mitt væri svona [frá hægri til vinstri] miðað við núverandi leikmannahóp:
Rúnar Alex
Alfons - Daníel Leó - Hörður Björgvin - Davíð Kristján
Guðlaugur Victor - Stefán Teitur
Arnór Sigurðsson - Jóhann Berg - Jón Dagur
Hákon Arnar
Við hverju má búast á móti Bosníu?
Vonandi hörkuleik sem fellur okkar megin. Miðað við þá fáu leikmenn sem ég þekki með nafni frá Bosníu-Hersegóvínu má búast við líkamlega sterku liði sem spilar nokkuð beinskeyttan fótbolta. Í fljótu bragði virðist sem liðið muni spila 5-3-2 sem hentar okkur ekkert rosalega vel ef við erum bara með einn djúpan miðjumann. Sérstaklega þar sem Sverrir Ingi og Aron verða ekki með. Svo er bara að leggjast á bæn og vona að Edin Džeko verði ekki á deginum sínum. Miralem Pjani? er ekki í leikmannahópi B-H í þessu verkefni, það er mjög jákvætt þó ferill hans hafi hrapað harkalega á undanförnum misserum.
Hver er lykillinn að því að ná í hagstæð úrslit?
Að spila á styrkleikum íslenska liðsins og íslensku þjóðarinnar.
Hvað eigum við að gera kröfu á í þessum riðli?
Sé ég ekki af hverju við ættum ekki að gera kröfu á að vera berjast um annað sætið í þessum riðli. Hann er galopinn og ef við tökum Portúgal úr myndinni eru þetta allt þjóðir sem við getum unnið bæði heima og að heiman á góðum degi.
Þorlákur Árnason, þjálfari Þórs
Hefðir þú haft hópinn eitthvað öðruvísi í þessu verkefni?
Ég hefði auðvitað valið Albert í verkefnið þar sem að hann hefur spilað gríðarlega vel á þessu tímabili. En meðan að það er trúnaðarbrestur á milli þjálfara og hans þá er eðlilegt að hann sé fjarverandi.
Hvernig vilt þú sjá liðið á móti Bosníu?
Rúnar Alex
Alfons - Guðlaugur Victor - Hörður Björgvin - Davíð Kristján
Arnór Sig - Jói Berg - Þórir Jóhann - Hákon Arnar - Jón Dagur
Alfreð
Við hverju má búast á móti Bosníu?
Þetta verður erfiður leikur gegn liði sem er svipað af styrkleika og við. Ég held að heimamenn verði meira með boltann en við verðum þéttir fyrir og beitum skyndisóknum.
Hver er lykillinn að því að ná í hagstæð úrslit?
Í fyrsta leik í riðli þá er mikilvægt að spennustigið sé rétt, það er langt síðan að liðið spilaði leik sem hafði mikla þýðingu. Ég held að einfalt leikplan og það að menn fari eftir því sé góð uppskrift líkt og þegar okkur hefur gengið vel í gegnum tíðina. Eins leiðinlegt og það hljómar þá held ég að liðið sem geri færri mistök taki þennan leik.
Hvað eigum við að gera kröfu á í þessum riðli?
Ég held að það sé raunhæft að við séum að keppa um að ná öðru sætinu í riðlinum. Portúgalar eru klárlega með besta liðið en það er lítill munur á okkur, Bosníumönnum og Slóvökum. Þetta mun velta mest á því hvort að leikmenn eins og Alfreð og Jóhann Berg komi til með að nýtast liðinu líkt og þeir gerðu fyrir nokkrum árum.
Athugasemdir