Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
   mán 22. júlí 2024 12:49
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Gríðarlega þakklátur Val fyrir að leyfa mér að elta drauminn"
'Ég veit að ég get sýnt að í mér búa gæði og markmiðið er að heilla fleiri góð lið'
'Ég veit að ég get sýnt að í mér búa gæði og markmiðið er að heilla fleiri góð lið'
Mynd: Perugia
Adam er 26 ára kantmaður sem var stoðsendingahæstur í Bestu deildinni sumarið 2022.
Adam er 26 ára kantmaður sem var stoðsendingahæstur í Bestu deildinni sumarið 2022.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég vil komast ennþá hærra'
'Ég vil komast ennþá hærra'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég stefni á 7-10 mörk og markmiðið er að koma mér upp í gott lið í Seríu B'
'Ég stefni á 7-10 mörk og markmiðið er að koma mér upp í gott lið í Seríu B'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hann kom til Vals frá Víkingi fyrir tímabilið 2023 og byrjaði mjög hjá Val; raðaði inn mörkum og stoðsendingum.
Hann kom til Vals frá Víkingi fyrir tímabilið 2023 og byrjaði mjög hjá Val; raðaði inn mörkum og stoðsendingum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ef maður spilar vel hérna þá eru manni allir vegir færir.'
'Ef maður spilar vel hérna þá eru manni allir vegir færir.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þetta er tækifæri sem alla dreymir um'
'Þetta er tækifæri sem alla dreymir um'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þeir hafa fylgst með mér dálítið lengi og sáu núna tækifæri'
'Þeir hafa fylgst með mér dálítið lengi og sáu núna tækifæri'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net heyrði í Adam Ægi Pálssyni þar sem hann var í göngutúr milli æfinga hjá ítalska liðinu Perugia. Lánssamningur milli Vals og Perugia var staðfestur fyrir helgi og er Adam mættur í hitann á Ítalíu. Samningurinn gildir út tímabilið á Ítalíu og er Perugia með forkaupsrétt á leikmanninum.

„Það eru 25 gráður núna, sem er mjög fínt. Það eru búnar að vera 35 gráður eða meira, hitabylgja. Varla hægt að æfa í þessu. Ég er í æfingaferð rétt fyrir utan Napoli, það á að vera aðeins kaldara hérna. Fyrsti æfingadagurinn var þannig að það var bíptest um morguninn og um kvöldið var tveggja og hálfs tíma æfinga; Ítalirnir elska að æfa," sagði Adam.

„Þetta er ekki létt, er allt öðruvísi. Menn hér búast við því að ég sé í toppstandi, sem ég er örugglega í, en viðbrigðin að æfa í þessum hita eru mikil. Maður fær bara mígreni eftir 5 mínútur að vera í svona mikilli sól. Æfingarnar eru langar og tempóið hefur komið mér á óvart, það er meira en ég bjóst við. Ég horfði á fyrstu æfinguna og hún leit fyrir að vera aðeins rólegri en hjá Val, en þegar ég svo kom inn í æfingu tvö þá var þetta mjög erfitt."

„Við eigum æfingaleik á fimmtudaginn og svo leik gegn Róma á sunnudaginn. Bikarinn byrjar svo 11. ágúst og deildin byrjar svo 25. ágúst,"
sagði Adam.

Menningarsjokk
Perugia er í ítölsku C-deildinni, endaði ofarlega þar í fyrra og fór í umspilið um sæti í B-deildinni.

„Fyrstu kynni af Ítalíu var smá menningarsjokk. Á Íslandi er flest mjög nýtískulegt. Hér er allt mjög gamalt, en alveg flott. Það tekur tíma að venjast því. Það er geggjuð aðstaða hjá félaginu, flottur völlur og geggjaður klefi og svoleiðis, en allt frekar gamalt."

Sýndu Adam fyrst áhuga í fyrra
Adam er fyrsti Íslendingurinn til að spila með Perugia. Hvernig kom sá áhugi upp?

„Ég vissi af áhuga frá þeim í ágúst í fyrra þegar ég var búinn að vera spila vel. Þeir spurðust eitthvað fyrir um mig en kom í ljós að þeir áttu ekki efni á mér á þeim tíma. Þeir hafa fylgst með mér dálítið lengi og sáu núna tækifæri. Þetta kemur í gegnum Þröst Inga (Smárason) félaga minn, hann hefur verið að hjálpa mér í þessu. Ég vissi fyrir svona tveimur mánuðum síðan að þeir ætluðu að reyna ná mér í glugganum, og gott að það náðist í gegn."

Perugia er nokkuð stórt félag á Ítalíu, liðið var í efstu deild síðast tímabilið 2003-2004 og í B-deildinni síðast á þar síðasta tímabili.

Gríðarlega þakklátur Val
Hvernig hefur þessi tími í biðinni verið, eftir að þú vissir aftur af áhuga frá þeim?

„Hann var ekkert skemmtilegur, maður er upp og niður og veit ekki hvort maður sé að fara eða ekki. Einn daginn er maður pottþétt ekki að fara og næsta er allt farið af stað aftur. Maður undirbýr sig ekkert fyrir flutninga fyrr en þetta er orðið alveg pottþétt. Þetta var erfitt, en ég er gríðarlega þakklátur Val að hafa leyft mér að fara, því það var ekki sjálfsagður hlutur. Ég veit að þeir vildu halda mér og eru ánægðir með mig."

„Ég vildi prófa að elta draumana mína, sérstaklega þegar svona spennandi gluggi kemur upp. Ef maður spilar vel hérna þá eru manni allir vegir færir. Það eru leikmenn í toppliðunum hérna sem eru að öllum líkindum að fara í Lazio og Sassuolo. Það er risa gluggi að vera hérna; fullt af leikmönnum sem eru að fara í toppliðin í B-deildinni eða, ef menn eru aðeins yngri, beint upp í A-deildina."


Risa stökkpallur
Hinn almenni fótboltaaðdáandi þekkir kannski ekki mikið til C-deildarinnar á Ítalíu, en þar virðist vera möguleiki til að taka svo skrefið upp á við í stiganum.

„Ég er búinn að æfa tvisvar sinnum með þessu liði og það er fáránlega gott. Það er töluverður munur á lélegu liðunum í deildinni og þeim góðu. Ef þú ert í góðu liði þá ertu í toppliði þá ertu í góðum málum, allavega út frá því sem ég hef heyrt. Þetta er risa stökkpallur og getustigið á toppliðunum hér er mjög gott."

Perugia er á milli Flórens og Róm á Ítalíu. „Það verður þægilegt að geta skellt sér þangað einhvern tímann þegar tækifæri gefst."

Góður fjöldi stuðningsmanna á hverjum leik
Stadio Renato Curi er heimavöllur Flórens og tekur tæplega 25 þúsund manns í sæti.

„Í grunninn mæta um 10 þúsund manns á leikina. Fjöldinn fer svo upp eða niður út frá gengi. Í umspilinu á síðasta tímabili voru um 18 þúsund manns á vellinum. Það er rosalegt."

Stoltur að Valur hafi sagt nei
Valur fékk tilboð í Adam frá KA í lok félagaskiptagluggans í vor. Adam er stoltur af því að Valur hafi hafnað því tilboði.

„Ég var frekar stoltur. Mér leið gríðarlega vel í Val, dýrka félagið, var búinn að finna mér mitt heimili á Íslandi. Það var 'no brainer' að vera áfram hjá Val. Auðvitað hefði ekki verið gaman að fá þau skilaboð að ég mætti fara, og þess vegna var mjög gaman að þeir hafi sagt nei; hafi metið mig á meira en það sem boðið var í mig. Það var gott fyrir stoltið."

Kominn með markmið fyrir tímabilið
Adam er strax búinn að setja sér markmið fyrir komandi tímabil.

„Ég stefni á 7-10 mörk og markmiðið er að koma mér upp í gott lið í Seríu B."

Fyrir fram, ef þú spilar vel, finnst þér líklegt að Perugia kaupi þig?

„Ég held það séu allar líkur á því, en auðvitað fer það allt eftir gengi hjá mér. Maður hefur séð svona díla milljón sinnum á Ítalíu: Lán með kaupmöguleika eða lán með kaupskyldu. Þeir eru mikið í þessu."

„Mér leið mjög vel í Val, það var frábært að vera þar í toppbaráttu og spila í Evrópu. Ég þarf að meta það sjálfur hvernig ég fíla mig hérna. Ég tek bara einn dag í einu og sé hvernig þetta kemur út,"
sagði Adam sem framlengdi samning sinn við Val út tímabilið 2026 áður en hann skrifaði undir lánssamninginn.

Þó að Perugia vilji kaupa Adam í framhaldinu lokar það ekki á möguleikann á því að önnur félög geti lagt fram tilboð til Vals.

Lagði menntunina til hliðar til að einbeita sér að boltanum
Adam hefur dreymt um atvinnumennsku í langan tíma.

„Alltaf síðan ég var svona 13-14 ára og flutti til Íslands frá Spáni. Ég var fljótur að átta mig á því að þetta væri það sem mig langaði að gera. Ég lagði skóla og menntun til hliðar; hætti í menntaskóla til að æfa tvisvar á dag og reyndi að leggja mig eins mikið fram og ég get til þess að uppfylla þennan draum. Maður hefur oft verið nálægt því„ en aldrei komist þangað. Það hefur oft verið svekkjandi að hafa aldrei komist á þann stað, en núna loksins er maður að uppfylla drauminn sem er búinn að búa inn í mér í langan tíma. Núna getur maður reynt á þetta og séð hvort mér líki þetta og hvort ég geti tekið þetta enn lengra. Ég er gríðarlega spenntur fyrir framhaldinu."

„Þó að getustigið hjá Val sé mjög gott, þá vill maður alltaf prófa hvernig þetta er erlendis. Ég á mjög marga vini í atvinnumennsku og mig langaði að prófa þetta. Ég veit að ég get sýnt að í mér búa gæði og markmiðið er að heilla fleiri góð lið."


Adam talar um að hann hafi verið nálægt því áður að upplifa drauminn. Í fyrra hafði norska félagið Strömsgodset mikinn áhuga á honum en bakkaði svo nokkuð óvænt úr þeim viðræðum.

Mikil forréttindi og ekki tekið sem sjálfsögðum hlut
Adam nefnir að hann hafi lagt menntunina til hliðar til að einbeita sér að boltanum. Þegar áhuginn byrjar erlendis frá; takmarkið er handan við hornið. Hversu spenntur verður maður fyrir þeim möguleika?

„Maður er mest spenntur áður en tilboðið kemur formlega. Þegar möguleikinn á því að fara til Ítalíu kom upp þá hljómaði það mjög vel, en þegar tilboðið kom formlega þá varð smá sjokk, en svo verður maður gríðarlega spenntur aftur. Þetta er gríðarlega spennandi og mikil forréttindi að fá að spila erlendis. Þetta er tækifæri sem alla dreymir um. Maður þarf að nýta það og taka því ekki sem sjálfsögðum hlut. Ég vil gefa enn meira í, ég horfi á þetta í skrefum og þetta er fyrsta skrefið mitt. Ég vil komast ennþá hærra," sagði Adam að lokum.
Athugasemdir
banner