Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   mán 24. ágúst 2020 19:03
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Þór/KA hótar að rifta samningum við tvo unga og efnilega leikmenn
Arna Sól og Magðalena í viðtali eftir að 2. flokkur varð Íslandsmeistari í fyrra.
Arna Sól og Magðalena í viðtali eftir að 2. flokkur varð Íslandsmeistari í fyrra.
Mynd: Þór TV
Christopher Harrington þjálfari Fram
Christopher Harrington þjálfari Fram
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Magðalena Ólafsdóttir í leik með Fram.
Magðalena Ólafsdóttir í leik með Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arna Sól Sævarsdóttir í leik með Fram.
Arna Sól Sævarsdóttir í leik með Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri Hjörvar þjálfari Þór/KA.
Andri Hjörvar þjálfari Þór/KA.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Tveir leikmenn gengu í júní í raðir Fram, sem leikur í 2. deild kvenna, að láni frá Þór/KA, sem leikur í Pepsi Max-deildinni. Leikmennirnir eru þær Magðalena Ólafsdóttir og Arna Sól Sævarsdóttir. Báðar eru þær fæddar árið 2000 og voru Íslandsmeistarar með Þór/KA/Hömrunum í 2. flokki í fyrra ásamt því að hafa leikið með liði Hamranna, eins konar dóttur félagi Þór/KA, undanfarin ár.

Fótbolti.net fékk um helgina senda ábendingu þess efnis að Þór/KA vildi kalla þessa leikmenn til baka úr láni núna í ágúst mánuði.

Aðsend ábending um stöðu mála
„Forsaga málsins er sú að í vetur skrifuðu þær báðar [leikmennirnir] undir tveggja ára samninga við Þór/KA enda báðar komnar upp úr öðrum flokki. Í upphafi tímabilsins í Pepsi Max deildinni óskaði Arna Sól eftir því að fara á lán til Fram og spila með liðinu í annarri deild. Félögin gerðu samkomulag sín á milli um lán. Fljótlega eftir það óskar Magðalena líka eftir því að fara á lán til Fram."

„Stjórn Þórs/KA og knattspyrnudeild Fram gerðu munnlegt samkomulag sín á milli að Magðalena mætti ekki spila leikina á móti Hömrunum, dótturfélagi Þórs/KA sem einnig spilar í annarri deild. Í kjöllfar þess fer Þór/KA svo einnig fram á það við Fram að Arna Sól megi heldur ekki spila þrátt fyrir að allir samningar milli Fram og Þórs/KA varðandi Örnu Sól hafi verið frágengnir. Þór/KA hótaði Fram því að taka þær báðar úr láni ef Arna Sól spilaði gegn Hömrunum."

„Um síðustu helgi lék Fram heimaleik við Hamrana og vitandi af samkomulagi milli félaganna þá spilaði Arna Sól en ekki Magðalena. Leikurinn endaði 2-5 fyrir Hamrana sem nú sitja í öðru sæti deildarinnar á meðan Fram er enn á botni deildarinnar og hafa enn ekki unnið leik í deildinni."

„Á fimmtudagskvöldið fá báðir leikmenn símtal frá þjálfara Þórs/KA þar sem þeir fengu tvo afarkosti. Annars vegar að þær yrðu kallaðar til baka úr láni frá Fram en mættu þó fara á lán í annað félag eða hins vegar að samningum þeirra beggja verði rift þar sem ekki hafi verið staðið við gerða samninga."

„Þessi vinnubrögð eru mjög undarleg í ljósi þess að hvorki leikmenn né heldur Knattspyrnudeild Fram hefur brotið einn né neinn samning við Þór/KA og aldrei var rætt við Örnu Sól um að sleppa umræddum leik. En báðir leikmenn hafa tekið þá ákvörðun að velja seinni kostinn og fallast á að samningum þeirra verði rift."


Mjög svo ósáttur við framkomu Þór/KA í þessu máli
Fréttaritari hafði samband við Christopher Harrington, þjálfara Fram og fyrrum þjálfara Hamranna og 2. flokks Þór/KA/Hamranna. Christopher aðstoðaði þá einnig við þjálfun meistaraflokks Þórs/KA.

„Já svona er staðan," sagði Christopher aðspurður hvort eitthvað sé til í þessu máli. „Hræðileg framkoma hjá Þór/KA, margt óboðlegt í þessu máli."

„Mjög ófaglegt og óviðeigandi eftir að farið var eftir öllu sem samið var um. Ég er orðlaus. Arna Sól kom til okkar þar sem henni var sagt að hún yrði ekki í leikmannahópi Þór/KA á leikdegi nema ef leikmenn yrðu í leikbanni eða meiðsli í hópnum. Í fyrsta leik tímabilsins var hún utan hóps en var beðin 25 mínútur fyrir leik hvort hún gæti verið á bekknum þar sem erlendi markvörður Þór/KA var ekki komin með leikheimild."

„Eftir þann leik [leik Þór/KA og Stjörnunnar 13. júní] kom Arna til Fram og í lánssamningnum var EKKERT samkomulag um að hún myndi ekki spila gegn Hömrunum."

„Magðalena kom svo um viku seinna og þá var haft samband við mig að hún mætti koma að láni til Fam en mætti ekki spila gegn Hömrunum í deildinni. EF hún myndi gera það þá yrðu báðir leikmenn kallaðir til baka úr láninu. Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari Þór/KA, sem hafði samband, sagði á þeim tímapunkti að hann hefði gert mistök þegar Arna fór að láni og hennar samningur ætti að vera eins, þ.e. að Arna mætti ekki heldur leika gegn Hömrunum."


Christopher ítrekar að hann hafi gögn sem sýni að beiðnin hafi komið á þeim tímapunkti frá Þór/KA en ekki á þeim tímapunkti sem gengið var frá Örnu til Fram (þann 20. júní skv. KSÍ).

„Nokkrum vikum síðar sendir formaður Þór/KA eins konar hótunarbréf að ef Arna myndi spila gegn Hömrunum þá myndu þær báðar vera kallaðar heim í Þór/KA, jafnvel þó að ekkert samkomulag hafi verið um þáttöku Örnu í leikjum gegn Fram, mistök hjá Þór/KA."

„Ég stóð við það munnlega samkomulag, ég er maður orða minna, og lét Magðalenu ekki spila gegn Hömrunum [sem fram fór þann 16. ágúst]. Ég vil líka benda á að meðan þeirra lánsdvöl hefur staðið þá hefur enginn frá Þór/KA verið í sambandi við leikmennina og heyrt hvernig þeim gangi eða hvernig þeim liði."

„Svo degi eftir að Þór/KA tapaði 7-0 gegn Breiðabliki [í síðustu viku] hringdi þjálfarinn í þær og gaf þeim tvo kosti: #1 Þær verða kallaðar til baka úr láninu og fara annað að láni eða #2 samningum við þær verður rift."

„Eftir þessa framkomu Þór/KA þá ákváðu þær báðar að rifta samningi sínum við félagið. Mér finnst svona hegðun út úr kortinu og mjög ósæmileg. Það fer þá mjög illa í mig sem fyrrum þjálfara fyrir norðan að svona sé komið fram við leikmenn sem ég fæ að láni."


Vildu lítið tjá sig
Fréttaritari hafði samband við Nóa Björnsson, formann meistaraflokksráðs Þór/KA, og spurði hann út í stöðuna. Nói sagði að það gæti farið á þá leið að samningum við leikmennina verði rift.

Hann sagði einnig það vera hag Þór/KA og leikmannana að þær yrðu kallaðar til baka þar sem áhugi væri frá liðum í Lengjudeildinni. Sú leikreynsla væri dýrmæt og gæti fært þar nær liði Þór/KA á næsta ári.

„Málið tengist leik Fram gegn Hömrunum," sagði Nói en vildi ekki tjá sig meira um það að svo stöddu.

Þá var haft samband við Andra Hjörvar Albertsson. þjálfara Þór/KA, sem vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner